Málefnalistinn í Mosfellsbæ

Mikilvægt að félagshyggjufólk í Mosfellsbæ finni sér umræðuvettvang um málefnalegar áherslur í komandi kosningum. Bæjarfulltrúar eiga að "vera þjónar, en ekki kóngar". Því miður virðast Vinstri grænir vera í pattstöðu. Fulltrúi þeirra dregur ekki fram málefnalegar áherslur umhverfisverndar eða samfélagslegs réttlætis. Hann virðist fastur í eigin naflaskoðun og reynir að ófrægja einstaklinga til að viðhalda konungdómnum.

Forystumaður Samfylkingar er að nokkru sama marki brenndur. Hann lætur sem að tilvera hreyfingar jafnaðarmanna standi og falli með honum. Að hann njóti einstaks "trausts" og hafi mikilvæga reynslu. Hún sé það mikilvæg að sitjandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokks leiti til hans í stóru og smáu. En þó að VG sé vorkunn yfir málefnafátæktinni og erfiðleikum við að greina sig frá samstarfsflokki sínum, þá er Samfylkingunni engin vorkunn. Þar hafa verið bæjarfulltrúar á launum og fólk í nefndum sem hefur verið úthlutað því hlutverki að bjóða upp á aðrar leiðir til betra og huggulegra samfélags.

Sú saga gengur nú sem eldur í sinu að Samfylkingu verði skipt út fyrir VG af Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar. Það má ekki gerast að hinn almenni félagshyggjumaður sé ekki þátttakandi í þessari þróun og berist sofandi að feigðarósi. Við þurfum að segja okkur frá konungveldi þessara einstaklinga sem að virðast spilla fyrir einhug og samstarfi félagshyggjufólks. Nauðsynlegt er að búa til samstarf um málefnakröfur á Samfylkingu og VG. Ef þeir mæta ekki til slíks samstarfs til að tryggja nýjan meirihluta án Sjálfstæðisflokks, þá gæti þurft að mynda nýtt framboð. Þar sem að fyrst er náð samstöðu um málefnin en síðan valdir þjónar til að fylgja erindinu eftir. Ekki öfugt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Sú saga gengur nú sem eldur í sinu að Samfylkingu verði skipt út fyrir VG af Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar."

Gæti þurft að skýra þessi ummæli aðeins betur fyrir okkur Mosfellingum!

Skúli (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 13:16

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Eftir því er tekið hversu mjúklegur dans er tekinn af forystumanni Samfylkingar í samskiptum við Sjálfstæðisflokk á meðan hann kvartar sáran undan Framsóknarflokki.

Eftir áratugaveru í bæjarstjórn eru bæjarfulltrúar orðnir embættismenn sem að vilja með öllum leiðum finna leiðir til að ná völdum eða halda völdum.

Ég hef hitt 4-5 aðila sem telja sig fylgjast með mosfellskri pólitík og halda því fram að vendingarnar í pólitíkinni verði með þessum hætti.

Það er áhugavert að kjarni sem vann að því að koma forystumanni VG til valda í síðustu kosningum unnu nú að því að tryggja áframhaldandi setu forystumanns Samfylkingar.

Við þurfum að losa okkur út úr þessari krísu sem að orsakast af því að forystumenn vinstriflokkana í Mosfellsbæ hafa lítinn áhuga á grasrótarstarfi eða opinni málefnavinnu.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2010 kl. 17:44

3 identicon

Já, þú ætlaðir þá að segja að VG verði skipt út fyrir Samfylkingu en ekki öfugt.

Skúli (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband