Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Leið forsetans var dýr en lýðræðisleg

Innan tíu daga mun líta dagsins ljós nýtt samkomulag þar sem að gert er ráð fyrir því að Íslendingar borgi tryggingaupphæðina en með hagstæðari greiðslutilhögun, þó sér í lagi mun lægri vöxtum. Allir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að þarna liggi skuldbindingar landsins. Síðan detta formenn stjórnarandstöðunnar í gír lýðskrumsins þegar þeim hentar. InDefence hefur einnig lýst því yfir að okkur beri að greiða tryggingar upphæðina og virðast því líka vera að eyða heilu ári í baráttu um greiðslutilhögun.

Forseti Íslands sem nú er dáður af Sjálfstæðismönnum aldrei þessu vant sagði í dag; „Íslenska þjóðin, bændur, sjómenn, kennarar, hjúkrunarfólk er reiðubúin að greiða Bretum og Hollendingum jafnvirði rúmlega 20 þúsund evra vegna hvers reikningseiganda. En hún er ekki tilbúin til að greiða háa vexti svo bresk og hollensk stjórnvöld hagnist á öllu saman." Með þessari yfirlýsingu má ljóst vera að hann skrifi undir lög sem falla að þessum ramma.

Innan tíðar þegar þetta mál hefur horfið sem meginverkefni stjórnmálanna verður áhugavert að sjá hvort að menn eins og Sigmundur Davíð eigi líf eftir IceSave. Þá þarf að reikna það út eins og Valgerður Bjarnadóttir hefur réttilega bent á að hún telji ekki útilokað að best hefði verið að ganga frá samningnum strax. Vextirnir eru klárlega óhagstæðir en telja má víst að við höfum tapað gríðarlegum upphæðum á óvissunni og töfunum í að koma málinu í fastan farveg.

Þannig hefur leið forsetans að vísa málinu í þjóðaratkvæði reynst dýr og óvíst um fjárhagslegan ávinning. En persónulega held ég að til lengri tíma litið hafi hún verið skynsamleg. Það var ekki hægt að samþykkja lögin í því mikla umróti sem að ríkti. Það var ekki hægt annað en koma sjónarmiðum Íslands skýrar til skila í alþjóðasamfélaginu. Að við eigum skilið réttlátari meðferð í málinu heldur en sá tónn sem gefin var með setningu hryðjuverkalagana í Bretlandi. Síðast en ekki síst þá hefur forsetinn bjargað eigin skinni. Athygli og ásakanir tengdar þátttöku hans í útrásinni hafa fallið í skuggann.

Í framhaldi hefst uppbyggingartíminn og þá þarf Jóhanna að íhuga hvort ástæða sé til að fríska upp á stólaskipan ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal hvort að hún vilji sjálf gera kaflaskil í sínum ferli. Því er haldið fram að Samfylkinguna skorti forsætisráðherraefni til að taka við. Þar er sérstaklega tekið fram að fólk vilji ekki sjá Össur Skarphéðinsson í því starfi. Mitt útspil hér rétt fyrir miðnætti á þessum kosningadegi er að Guðbjartur Hannesson geti komið inn í staðinn fyrir Jóhönnu sem forsætisráðherra en hún verði áfram formaður að næsta landsfundi.


mbl.is Ríkisstjórnin hefur fulla trú á viðunandi niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir kosningaréttinum

Nei umræðan er á glæfrastíg sem enginn veit hvar endar.

umræðan er orðin marklaus miðað við yfirlýsingar ráðamanna um að drög að betri samningi séu á borðinu.

Mætum á kjörstað og skilum auðu. Þannig fögnum við lýðræðinu og berum virðingu fyrir kosningaréttinum. Þó að í þetta sinn höfum við fengið óaðgengilega valkosti.


mbl.is Ólafur Ragnar ætlar að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefnalistinn í Mosfellsbæ

Mikilvægt að félagshyggjufólk í Mosfellsbæ finni sér umræðuvettvang um málefnalegar áherslur í komandi kosningum. Bæjarfulltrúar eiga að "vera þjónar, en ekki kóngar". Því miður virðast Vinstri grænir vera í pattstöðu. Fulltrúi þeirra dregur ekki fram málefnalegar áherslur umhverfisverndar eða samfélagslegs réttlætis. Hann virðist fastur í eigin naflaskoðun og reynir að ófrægja einstaklinga til að viðhalda konungdómnum.

Forystumaður Samfylkingar er að nokkru sama marki brenndur. Hann lætur sem að tilvera hreyfingar jafnaðarmanna standi og falli með honum. Að hann njóti einstaks "trausts" og hafi mikilvæga reynslu. Hún sé það mikilvæg að sitjandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokks leiti til hans í stóru og smáu. En þó að VG sé vorkunn yfir málefnafátæktinni og erfiðleikum við að greina sig frá samstarfsflokki sínum, þá er Samfylkingunni engin vorkunn. Þar hafa verið bæjarfulltrúar á launum og fólk í nefndum sem hefur verið úthlutað því hlutverki að bjóða upp á aðrar leiðir til betra og huggulegra samfélags.

Sú saga gengur nú sem eldur í sinu að Samfylkingu verði skipt út fyrir VG af Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar. Það má ekki gerast að hinn almenni félagshyggjumaður sé ekki þátttakandi í þessari þróun og berist sofandi að feigðarósi. Við þurfum að segja okkur frá konungveldi þessara einstaklinga sem að virðast spilla fyrir einhug og samstarfi félagshyggjufólks. Nauðsynlegt er að búa til samstarf um málefnakröfur á Samfylkingu og VG. Ef þeir mæta ekki til slíks samstarfs til að tryggja nýjan meirihluta án Sjálfstæðisflokks, þá gæti þurft að mynda nýtt framboð. Þar sem að fyrst er náð samstöðu um málefnin en síðan valdir þjónar til að fylgja erindinu eftir. Ekki öfugt. 


Máttlitlir vinstriflokkar í Mosfellsbæ

Í Reykjavík eru miklar líkur á að hægt verði eftir komandi sveitarstjórnarkosningar að mynda hreinan meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingar. Síðasta könnun benti til að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking væru álíka stórir flokkar og fengju sex menn hvor, en Vinstri grænir fengju þrjá menn. Hefðin fyrir samstarfi félagshyggjufólks í háskólanum undir merkjum Röskvu og samstarf þess undir merkjum Reykjavíkurlista hefur stuðlað að því að vinstri gerjun hefur fest sig í sessi í borginni. Telja má mjög ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur nái hreinum meirihluta þetta vorið. Það sem áður gat talist næstum því regla er nú að verða fjarlægur draumur í Valhöll.

Garðabær, Seltjarnarnes og Kópavogur eru bæjarfélög þar sem að Sjálfstæðisflokkur hefur lengi haldið um stjórnartaumana. Þetta eru að verulegu leyti svefnbæir þar sem að íhald hefur sótt fylgið út á framkvæmdir í bæjarfélaginu. Vísað er til Kópavogs í því samhengi. Að á tímum meirihluta vinstri manna þar í bæ hafi ríkt stöðnun. Engin uppbygging og holóttar götur. Síðan reið í hlað tími malbiks og steinsteypu. Nú er Kópavogur dæmi um bæ sem leggur litla áherslu á græn svæði og tengslin við náttúruna, ef frá er talin Fossvogsdalurinn. Þannig að sennilega gildir um þann bæ líkt og Mosfellsbæ að betur hefði farið á því að ganga fram í uppbyggingunni af meiri yfirvegun, frekar en að gróði á byggðan fermeter væri eina leiðarljós og drifkraftur.

Mosfellsbær er að mörgu leyti með allt annan bæjaranda heldur en áðurnefnd sveitarfélög. Þar býr fólk sem að vill vera í góðum tengslum við náttúruna, heilsueflingu og útivist. Þar má Sjálfstæðisflokkurinn ekki festast í sessi sem hryggjarstykkið í bæjarmálapólitík. Vissulega tókst þeim prýðilega að innleiða steinsteypukultúrinn. Haraldur Sverrisson fyrrum formaður skipulagsnefndar og núverandi bæjarstjóri taldi flokkinn hafa uppgötvað mikið undarverk, að láta landeigendur og verktaka sjá um uppbyggingu stórra svæða eins og Helgafells og Leirvogstungu. Það væri stórkostlegt að láta þá sjá um uppbyggingu skóla og annars sem vanalega var á ábyrgð sveitarfélagsins.

Hlutverk sveitarfélagsins breyttist frá því að úthluta lóðum í það að úthluta hverfum til uppbyggingar. Tónninn var gefinn með sölu á Blikastaðalandinu. En í stað þess að tempra framboð íbúðarhúsnæðis í takt við þörf var innleitt allsherjar græðgivæðing og verktakalýðræði. Drifið var í skipulagningu Helgafellshverfis og byrjað á uppbyggingu þar. Ekki nóg með það heldur var uppbygging í Leirvogstungu sem samkvæmt aðalskipulagi átti hugsanlega að koma inn upp úr 2020 líka sett af stað. Hver er eftirtekjan. Kjánaleg skella er í byggðinni milli Grafarvogs og Reykjavíkur í landi Blikastaða. Helgafellslandið er að mestu óbyggt af því að Leirvogstungu var hleypt samtímis af stað. Leirvogstungan er í pattstöðu, víða með hálfbyggð hús og grunna.

Eru samfélags- og lýðræðissinnuð öfl í Mosfellsbæ að standa fyrir einhverju uppgjöri á þessu og öðru sem misfarist hefur undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu tvö kjörtímabil? Nei. Er hægt að sjá trúverðugan valkost sem að hefur greint sig frá stefnu Sjálfstæðisflokksins. Nei. Framsóknarflokkurinn hefur klárlega verið beittasta stjórnarandstaðan, en í ljósi sögunnar þá þarf mikið að gerast til að félagshyggjufólk sameinist um þann valkost. Samfylkingin hefur tvo bæjarfulltrúa og fólk í nefndum. Erfitt er að benda á öfluga málefnavinnu þar sem fulltrúar flokksins hafa sett fram aðra sýn heldur en meirihlutinn. Þeir taka þátt í nefndarstarfi um að velja verðlaunatillögu að kirkju, en vita ekki hvort þeir vilja byggja kirkju á umræddum stað. Þeir taka þátt í fjárhagsáætlun með meirihlutanum, þannig að þar koma ekki heldur fram séráherslur. Þegar spurt er um áherslur í nefndum þá er sagt að það sé "enginn málefnalegur ágreiningur".

Vinstri grænir í Mosfellsbæ eru sérkapítuli. Þeir náðu einum fulltrúa í síðustu kosningum. Hann gekk ljúflega í sæng með íhaldinu og kokgleypti einu helsta kosningamáli sínu um að það yrði "stórslys í umhverfismálum" ef að breiðstræti væri lagt um Álafosskvos að hinu nýja Helgafellshverfi. Enginn möguleiki var að innleiða vitræna umræðu eða faglega úttekt. Þó það sé almenn viska úr skipulagsfræðum að betra sé að tengja stofnæðar í jaðri byggðar heldur en að leggja þær um miðbæ eða nálægt útivistarsvæðum. Bæjarfulltrúinn hefur síðan ekki greint sig frá Sjálfstæðisflokknum í neinu máli nema ef vera skyldi að fara í ófrægingarherferð gegn íbúa- og umhverfissamtökum í bæjarfélaginu. Nú berast þær fréttir að erfiðlega gangi að manna lista VG í Mosfellsbæ. Þar vill samfélagssinnað og umhverfisvænt fólk ekki lúta forsæti hins öfluga liðsmanns Sjálfstæðisflokksins.

Nú þarf eitthvað að gera til að vinda ofan af þessum vanda. Brýnt er að félagshyggjufólk í hvaða flokki sem þeir eru komi saman og hefji málefnavinnu. Breiðan vettvang sem setur sér það skýra markmið að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki þriðja kjörtímabilið við stjórnartaumana. Trúlega er of seint að vinna að framboði sameinaðs lista félagshyggjufólks, M-lista. Þörfin er til staðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband