14.1.2010 | 09:10
LÝÐRÆÐI - UMHVERFI - MANNLÍF í Mosfellsbæ
Prófkjör félagsmanna verður í Samfylkingunni Mosfellsbæ þann 30. janúar. Ég gef kost á mér til forystu, í 1-3. sæti. Á miðnætti laugardaginn 16. janúar er lokafrestur til að ganga í flokkinn til að geta tekið þátt. Það hefur verið mér mikið metnaðarmál að flokkurinn sé til fyrirmyndar öðrum í að leiða opna umræðu og vera vettvangur lýðræðis.
Viðfangsefni í Mosfellsbæ eru sérstök. Þar hefur ofríki, hroki og foringjaveldi Sjálfstæðisflokks ráðið ríkjum um langt skeið. Flokkurinn rann á rassinn í framkvæmdagleði sinni þar sem farið var út í algjörlega óraunsæja fasteignastefnu með því að byggja upp á sama tíma þrjú hverfi bæjarins. Þetta verktakalýðræði og græðgi stuðlaði að því að nú sitjum við uppi með tvö ný hverfi hálfbyggð eða óbyggð.
----> Mosfellsbær þarf LÝÐRÆÐI þar sem hagsmunir landeigenda og verktaka ráða ekki einir för við þróun samfélagsins.
Bæjarfélagið er staðsett í fallegri hvilft umvafið fellum með Varmársvæðið sem lífæð í gegnum bæjarfélagið. Í aðalskipulagi hafa lengi verið kjörorðin "sveit í borg" en á sama tíma hefur margt í framkvæmdagleðinni bent til þess að steinsteypukúltúrinn sé að bera virðingu fyrir umhverfi og útivist ofurliði. Áform bæjarins og framkvæmdir hafa og munu spilla fyrir þróun reiðleiða og göngustíga sem tvinnaðir eru saman við söguleg verðmæti.
----> Mosfellsbær þarf virðingu fyrir UMHVERFINU þannig að ekki verði spillt þeim gæðum sem að eru grunnforsenda fólks fyrir búsetu hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins.
Í Mosfellsbæ er margskonar félagsstarf í kringum íþróttir, kórastarf, klúbba, hestamennsku og fleira. En okkur vantar miðbæ sem að hefur mannlíf með nokkru lífsmarki. Mosfellsbakarí gegnir einna helst þessu hlutverki í dag að fólk fari í miðbæinn til að njóta samveru við annað fólk. Nauðsynlegt er að tvinna saman þróun miðbæjar við skipulag á íþróttavæði að Varmá og þróun Álafosskvosar. Einnig að efla tengsl neytenda og bænda um framleiðslu og sölu á ferskri matvöru á mörkuðum.
----> Mosfellsbær þarf MANNLÍF þannig að hann verði ekki svefnbær heldur þróist í að vera besetusvæði fólks sem vill vera í samfélagi með gróskumikla og skapandi innviði.
Þessir þrír þættir eru allir samtengdir og mynda grundvöll þess að bærinn okkar þróist á heillavænlegan máta. Að heilsuefling og umhverfisvernd verði einkenni bæjarfélagsins þar sem maður er manns gaman. Nú er rétti tíminn til að snúa við blaðinu og færa áherslur stjórnsýslu bæjarins frá steinsteypu í átt að menningu og manneskjulegum gildum.
Á morgun föstudagskvöldið 15. janúar býð ég til opinnar umræðu um þessa þrjá þætti í áherslum mínum í prófkjöri Samfylkingar í Mosfellsbæ. Í framhaldi eru léttar veitingar og sveiflutónlist. Allir velkomnir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.