Dramb er falli næst

garfield-spiegel_gifÞað er fróðlegt að máta smá atferlisgreiningu á meirihlutann í Mosfellbæ þessa dagana. Það er verið að skúra, skrúbba og bóna. Verið að draga upp nýja mynd og semja heimatílbúinn sannleika. Allt er óskeikult, flott og frábært sem að meirihlutinn hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu. Hann vill vera "leiðandi", "í fararbroddi" og "framsækinn" á flestum sviðum. Nokkrum mánuðum fyrir kosningar er dustað rykið af tíu ára gamalli vinnu um sjálfbæra þróun sem að hefur legið alveg niðri og sveitarfélagið talar nú um að gegna forystuhlutverki á þessu sviði.

Sjálfstæðisflokkurinn sem þekktur er fyrir hagsmunagæslu sína fyrir verktaka og fjármagnseigendur, í þróun bæjarins, talar nú skömmu fyrir kosningar um lýðræðisvitund og íbúalýðræði. Flokkurinn innleiddi steypukúltúrinn og græðgivæðinguna í byggingarframkvæmdum sem spillti menningarverðmætum og hverfisvernd, en leggur nú þegar styttist í kosningar áherslu á skólastarf og möguleika bæjarins sem útivistarbæjar. Flest viðist því með nokkuð öfugsnúnum formerkjum.

Eitt er þó málið sem að meirihlutinn virðist ætla að hengja hatt sinn á umfram annað. Það er að hér muni rísa sjúkrahús og hótel vegna líðskiptaaðgerða á Tungumelum. Því ber að fagna einu og sér að náðst hafi að semja um fyrstu skref í þá veru að stórt atvinnuskapandi verkefni fari af stað í sveitarfélaginu. En ef við segjum að hindranirnar séu tuttugu sem að þarf að komast yfir til að tryggt sé að verkefnið verði að raunveruleika þá hefur enn sem sem komið er ekki verið komist yfir nema brot af þeirri vegferð.

Þess vegna er full ástæða til að fagna því sem komið er en jafnframt rétt að minna á að anda rólega svo við bætum ekki enn einum hálfkláruðum húsgrunni í bæjarfélagið. Sjálfumgleðin má ekki byrgja okkur sýn. Tilvera okkar í Mosfelssbæ byggir ekki á mikilfengleika Sjálfstæðisflokksins, þó sumir haldi að það sé raunin. Í bæjarblaðinu Mosfellingi skrifar "hópur sterkra og öflugra" frambjóðenda flokksins greinar þar sem enginn efast um sinn óskeikula flokk. Drambið og sýndarveruleikinn er þó minnstur hjá Elíasi Davíðssyni enda hafði hann tekið þátt í Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins.

Hún hafði farið fram með gagnrýnt uppgjör á því hvar flokkurinn rann út af sporinu. Þessi vinna var síðan þögguð niður af Davíð Oddssyni sem mætti óboðinn á landsfund og gaf tóninn um að ekkert skyldi lært af mistökunum og keyrt skuli á fullu dampi og láta hrokann gefa vind undir báða vængi. Í áðurnefndu bæjarblaði nær frambjóðandinn Eva Magnúsdóttir hæstu hæðum í þessu sjálfhóli öllu saman. Fyrirmynd hennar virðist vera Gunnar Birgisson. Hún vitnar til slagarans "Það er gott að búa í Kópavogi". Samkvæmt því sem hún skrifar þá vill hún toppa hetjuna sönnu úr Kópavogi og innleiða slagarann "Það er best að búa í Mosfellsbæ".

Persónulega vil ég búa í bæ þar sem ég upplifi margar ljúfar stundir, finn að innviðirnir eru traustir og stjórnsýslan lýðræðisleg. Þar sem ég finn að umhverfið fær að njóta sín og heilbrigður grundvöllur lagður að skapandi og fjölbreytilegu mannlífi. Tími slíkrar sjálfmiðaðrar upphafningar eins flokks voru fyrir miðja síðustu öld í Rússlandi og Þýskalandi.  Í hvorugu landinu gafst vel að hafa slíkt stjórnarfar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Heill og sæll Gunnlaugur. Ég hef ekki farið inn á bloggið þitt í langan tíma en rakst svo á þessa færslu í morgun og má til með að koma með litla athugasemd þar sem þetta snýr að mér persónulega. Það getur vel verið að einhverjar fleiri færslur hafi snúist um mína persónu og störf, en ekki ætla ég að fara í rannsókn á því en svara þessu þar sem ég sá þetta.

Efni þessarar færslu þinnar er greinilega Mosfellingur og greinar sjálfstæðismanna og vinstri grænna. Ég hef reyndar ekki náð að lesa allar greinarnar, en þær eru vonandi jákvæðar og lýsa sýn fólks á málefni og leiðir fólks að því að ná þeim. Ég ætla einungis að skrifa um það sem birt var eftir mig í blaðinu. Þú skrifar m.a. að rétt fyrir kosningar sé lögð áhersla á skólamál, ég gef mér að þú sért að tala um skólagreinina mína. Það nú bara þannig til að í Mosfellsbæ er lögð mikil áhersla á skólamál og hefur svo verið a.m.k. frá því að ég kom í bæjarstjórn fyrir 12 árum síðan. Ef þú vissir það ekki þá var ég formaður fræðslunefndar frá 2006 til 2009 og á þrjú börn sem hafa verið og eru í skólum Mosfellsbæjar og þekki málaflokkinn. Skólamál eru mér hugleikin og því ósköp eðlilegt að ég skrifi um þau mál.  

Svo talar þú líka um Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Ekki veit ég hvort þú hefur lesið Endurreisnarbókina, en svo vill nú til að ég tók þátt í starfi nefndarinnar og hópnum uppgjör og lærdómur, sem skrifaði kafla 2. bókinni.

Eigðu góðan dag Gunnlaugur. Ég hvet þig til að skrifa frekar eitthvað jákvætt um bæjarfélagið og þína sýn á málefnin en svona skrif, en þitt er valið.

Herdís Sigurjónsdóttir, 17.1.2010 kl. 09:49

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir innlitið Herdís. Þessum skrifum er ekki beint á nokkurn hátt að þér persónulega, enda höfum við ætíð látið kumpánlega í viðkynningu.

Þessi grein er um drambið og hrokann sem fylgir Sjálfstæðisflokknum. Ég hef reyndar rekist á skrif eftir þig þar sem að undirliggjandi þema hefur verið að það sé bæði stórt og mikið að vera Sjálfstæðismaður.  Þessi grein er um að það er verið að búa til mynd sem að stenst ekki skoðun. Að hvergi hafi átt sér stað nein mistök, ekkert sem að hefði mátt betur fara.

Nei, nei okkur er sagt að helstu einkenni á flokknum séu lýðræðisvitund og íbúalýðræði, þó auðvelt sé að sýna fram á að það sé ekki reyndin. Okkur er sagt að bærinn sé "í fararbroddi" um sjálfbæra þróun þó reyndin sé að horfið frá þeirri vinnu fyrir átta árum, en á síðustu metrunum fyrir kosningar reynt að hressa upp á þá vinnu. Það er ánægjulegt en ótrúverðugt.

Liðskiptaumræðan er alveg að gera mann ómögulegan í mjöðminni! Þessu er hampað eins og einhverjum hvalreka sem að sé í boði Sjálfstæðisflokksins. Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi. Ég hef rætt við einstaklinga sem að tengjast verkefninu náið og finnst að Sjálfstæðisflokkurinn fari glannalega í að kynna þetta sem einhverja allsherjar samfélagslausn. Telur þú þig hafa gögn um að verkefnið sé að fullu fjármagnað og pottþétt framkvæmdaáætlun liggi fyrir?

Veit að skýrlan var gefin út en það átti að fylgja henni eftir yfir í aðgerðaáætlun, en ræða Davíðs skellti slagbrandi fyrir þá vegferð. Vinnubrögð með rýnihópa í miðbæjarskipulagi og íbúaþing sem haldin hafa verið hafa með hliðstæðum hætti, að mestu endað í pappír eða skýrslu, en ekki yfir í aðgerðaáætlanir.

Í einlægni þá held ég að þú vitir hvaðan hugtökin lýðræðisvitund og íbúalýðræði komi í skrifum bæjarstjórans. Þessi krafa hefur legið sterk á Sjálfstæðisflokknum í Mosfellsbæ eins og hún gerði líka í landstjórninni síðasta áratug. En eðlilegast er að dæma verkin en ekki byggt á þeim spilum sem dregin eru upp í aðdraganda kosninga.

Finnst þér ekki með ólíkindum að hinn siðblindi bæjarstjóri virðist ætla að labba inn í bæjarstjórastólinn í Kópavogi, líkt og Árni Johnsen var endurkjörinn á þing eftir sína glæpi. Þessi múgsefjun er étin upp og við eigum bara að loka augunum gagnvart öllu sem betur má fara og segja möntruna "það er best að búa í Mosfellsbæ" Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.1.2010 kl. 14:54

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ef þú ert enn að tala um greinina mína þá er ég ekki að segja að allt hafi alltaf verið stórt og fullkomið. Ég veit bæði persónulega og sem nefndarmanneskja að ekkert í heiminum er fullkomið, svo verður aldrei. Það er eins og með allt að leiðir eru misjafnar, aðferðir margar og áherslur mismunandi. Reglulega koma fram nýjar áherslur í skólamálum eins og öllu sem gert er.  

Ég er þarna í greininni einfaldlega að lýsa minni sýn á það hvað ég tel skóla Mosfellsbæjar vel rekna (af skólastjórnendum) og starfsfólk skólanna hugmyndaríkt og gott. Ég stýri því ekki og er alls ekki að slá mér upp á því, enda eiga skólastjórnendur þann heiður og það starfsfólk sem með þeim starfar. Skólaþróun í Mosfellsbæ er til fyrirmyndar og mörg frábær verkefni sem hér hafa orðið til. Við stjórnmálamenn komum hins vegar að stefnumörkun.

En nóg um það Gunnlaugur. Við eigum það sameiginlegt að vilja bæjarfélaginu okkar vel og því erum við bæði að bjóða okkur fram til starfa. Við verðum örugglega aldrei sammála um allt, og þær leiðir sem valdar eru. En svo mikið veit ég af minni reynslu í bæjarmálunum undanfarin 12 ár að í flestum tilfellum eru kjörnir fulltrúar að fara í átt að sömu markmiðum, bæjarbúum til heilla.

Herdís Sigurjónsdóttir, 17.1.2010 kl. 16:09

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir þetta Herdís. Það er vandratað í pólitík. Ég get ekki hugsað mér áframhaldandi setu Sjálfstæðismeirihluta í Mosfellsbæ. Vil gera mikið til að þar geti orðið breyting til betri vegar. En óska þér alls hins besta og takk fyrir persónulega frásögn af ungu dömunni þinni þegar hún var að byrja í skóla.

Ítreka að ég var ekki að leggja út af greininni þinni heldur almennt að nú væri flokkurinn að færa ímyndina frá peningahyggjunni og steinsteypunni sem voru ær og kýr síðast yfir á mýkri sölulegri gildi eins og skólamálin, umhverfið og lýðræðisvitundina. Bestu kveðjur, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.1.2010 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband