22.1.2010 | 01:44
Viðkvæmni lýðræðisins
Það þarf vissulega hugrekki til að stíga fram og hafa meiningar. Jafnvel viðhorf sem að eru andstæð afstöðu og stefnu einhvers meirihluta. Þetta fékk fólk sem að vann að umhverfismálum sveitar sinnar undir merkjum Varmársamtakanna að reyna.
Umræðunni um mikilvægi þess að vernda menningarsögu og útivistarmöguleika var mætt af einstakri hörku. Þrátt fyrir að augljóst var að málefnið snerti hjörtu margra þá var því ekki veitt nein uppbyggjandi athygli af sitjandi bæjarstjórn.
Enginn fulltrúi bæjarstjórnar mætti á fjölmenna fundi um málið þar sem farið var fram á að skoða alla möguleika við lagningu tengibrautar. Í fjölmiðlum var reynt að etja hagsmunum saman og skapa sundrungu meðal bæjarbúa.
Sjálfstæðisflokkurinn mætti til leiks með þá fullvissu að hann væri rétt kjörinn valdhafi sem þyrfti ekki álit kóngs né prests. Þaðan af síður einhverra umhverfisssamtaka. Eini sem var verðugur var frmkvæmdaðilinn sem átti að koma með góðærið á vængjum yfir flóann.
Vinstri grænir eru í meirihlutasamstarfinu. Þeir tala eins og þeir séu fulltrúar steypukúltúrsins, heilir í gegn. Lofa yfirbyggðum fótboltaleikvangi, gerviliðasjúkrahúsi eða hverju sem er. Sáralítið rætt um umhverfismál nema að ákveða að áherslur sjálfbærrar þróunar eigi að vera á dagskrá næsta meirihluta.
Það er fátt sem að er til vinstri hjá núverandi meirihluta og enn færra sem að er grænt. Það eru því mikil tækifæri fyrir Samfylkinguna að slá í takt við hjarta bæjarbúa í þessum málaflokki. Það er gert með áherslum á lýðræði, umhverfi og mannlíf.
Lýðræðið er þó brothætt fjöregg og heilbrigð þáttaka eða væntingar fólks í þá veru að hafa áhrif á umhverfi sitt getur breyst í samanherptan kvíða og vonbrigði. Hroki í framgöngu Sjálfstæðisflokksins og undarleg sjálfseyðingarhvöt Vinstri grænna skapa ekki blóma í eggi.
Við eigum skilið betri jarðveg fyrir þátttöku fólks í mótun samfélagsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.