2.4.2007 | 05:30
Lýðræðið, bloggið og vináttan
Hafði verið tæpar tvær vikur vinalaus í bloggheimum. Þar að auki lent nokkrum sinnum í beinskeyttu orðaskaki. Einkum tengt virkni minni í Varmársamtökunum. Eins og þeir hafa séð sem komið hafa í Mosfellsbæ nýlega, þá finnst varla sá hóll eða þúfa í bænum sem ekki hefur verið reynt að velta við með stórvirkum vinnuvélum. Um framkvæmdir og þróun byggðar hafa myndast ólíkar meiningar og sumir gripið til hvatvísi og dómhörku í samskiptum. Sonur minn var farin að hafa áhyggjur af málinu og sagði; "Pabbi, mér lýst ekkert á þetta blogg, þú ert að eignast óvini". Þetta horfir nú allt til betri vegar. Búin að eignast nokkra nýja bloggvini, sem vekur mér mikla gleði og þakklæti í hjarta. Síðan er margt sem bendir til að stuðningur við áherslur samtakanna hér í Mosfellsbæ um íbúalýðræði og heildræna sýn í skipulagsmálum muni vaxa fiskur um hrygg. Krafan um aðkomu íbúa fer vaxandi. Kosningarnar í Hafnarfirði voru áhugavert skref, þó þær væru ekki gallalausar.
Hitti í dag ágætan félaga, Sjálfstæðismann, sem sagðist ekki sjá fram á annað en hann þyrfti að ganga í þessi "hippasamtök". Hann er óánægður með fyrirhugaða tengibraut úr nýju hverfi í Leirvogstungu, sem leggja á nálægt hesthúsahverfi, skóla- og íþróttasvæði, en mikil andstaða er við þau áform meðal hestamanna og skólafólks. En áður hafði myndast mikil andstaða við lagningu tengibrautar við Helgafellshverfi, um Álafosskvos. Því sé ég ekki annað en að hippar og hestamenn, listaspírur og lungnasjúklingar, fasistar og kommúnistar muni sameinast í þeirri kröfu að geta haft mótandi áhrif á sitt nánasta umhverfi. Ef til vill geta íbúarnir fengið að kjósa um mismunandi leiðir. Stóran hluta af þessum vanda er hægt að leysa með mislægum gatnamótum á Vesturlandsvegi, sem myndu þjóna nýju hverfunum tveimur og Þingvallaafleggjara. Unnið er að sáttatillögu á vegum Varmársamtakanna sem vonast er til að verði kynnt innan nokkurra daga. Vonandi opnar bæjarstjórn umræður um þessi mál. Það er engin ástæða til að vera með þumbarahátt og þvergirðing. Ræðum lausnir og finnum farveg svo íbúar geti verið virkir og vinalegir við stefnumótun í bæjarfélaginu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:26 | Facebook
Athugasemdir
ekkert hugnast mér betur en við verðum bloggvinir gamli enda sammála um fleira en hitt - ég á reyndar eftir að svara gagnrýni þinni á meintan maccartyisma minn, geri það innan skamms, annríkið hefur hamlað. og gangi ykkur sem best að varðveita gömlu álafosshúsin, það er mikilvæg barátta, ekki bara fyrir ykkur mosfellingana heldur okkur öll... -b.
Bjarni Harðarson, 2.4.2007 kl. 20:12
Takk fyrir það Bjarni! Þú ert hinn ferski andblær umræðunnar. Veit ekki hvort að ég var að ætla þér illt með kommenti á greinina "Vofur kommúnismans" en fannst að þú sem leikmaður miðjunnar þyrftir að höggva jafnt til hægri og vinstri, ásamt því að þekkja mun á grýlum og draugum. Annars er þetta trúlega rangt mat hjá mér. Það er betra að félagshyggjutröll eins og þú reynir að ná einhverju af íhaldinu . Gangi þér vel í baráttunni!
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.4.2007 kl. 11:45
Þennan tón lýst mér á Gunnlaugur, þarna er hinn almenni ópólitíski tónn sem einkenndi Varmársamtökin í byrjun en týndist svo í einhverju klikkuðuð pólitískt menguðu rugli. Þetta er tónninn sem ég hef saknað úr málflutningi samtakanna og gerði þau svo flott í byrjun. Ég er hjartanlega sammála öllu sem þú segir í seinni hluta þessarar færslu og sérstakelga því að auðvitað eiga allir að vinna saman. Ef þið haldið áfram á þessari braut þá lofa ég að sjá samtökin í friði - þessi samtök mega nefnilega ekki stjórnast af pólitík, það eyðileggur allt of mikið fyrir annars góðum samtökum.
Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 14:41
Góður punktur hjá Bjarna þetta um að varðveita gömlu Álafosshúsin.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 5.4.2007 kl. 02:24
Góður pistill, gott mál.
Rúnarsdóttir, 5.4.2007 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.