22.4.2007 | 07:04
Íhaldsmenn, athyglisbrestur og íbúalýðræði
Finnst að heimurinn, sitt hvoru megin Atlantsála, hafi verið að þróast í ólíkar áttir varðandi mannréttindi og lýðræði. Innan Evrópu hefur áhersla verið á að útfæra, skilgreina og dýpka félagsleg réttindi einstaklingsins. Þannig hefur margskonar löggjöf sem rekja má til þátttöku okkar í Evrópusamstarfi aukið rétt einstaklinga til þátttöku í stjórnsýslu og ákvörðunum. Á sama tíma hefur í forsetatíð Bush bandaríkjaforseta verið sótt að réttindum einstaklinga. Rýmkaðar reglur til að fylgjast með fólki sem að stjórnvöld gruna um að vera óvini ríkisins og Guantanomo hefur orðið tákn þess hversu langt valdhafar geta gengið í að svipta fólk mannréttindum. Þar sem hundruðum er haldið án skilgreindrar ástæðu, dóms og laga.´
Óttinn er öflugt vopn í pólitík. Því hefur Bush beitt ötullega. Hann varð forseti út á þær fullyrðingar að Írak byggji yfir gereyðingarvopnum og nauðsyn þess að Bandaríkin færu í stríð gegn hryðjuverkum. Síðan getur hver og einn metið það hvort að Bandaríkin hafi aflað sér fleiri vina en óvina með vafstri sínu í Írak. Nú er komið í ljós að sagan um gereyðingarvopn var uppspuni stjórnvaldsins til að fá lýðinn til að sameinast að baki forsetanum. James Bovard skrifar um eðlisbreytingar bandarísks samfélags í bókunum Lost Rights og Attention Deficit Democracy. Þar sem að hann gerir grein fyrir því hvernig þróun hins bandaríska samfélags færist í auknum þunga á stofnanir framkvæmdavalds, forseta, her og hæstarétt. Hann skrifar;
"As long as enough people can be frightened, then all people can be ruled. Politicians cow people on election day to corral them afterward. The more that fear is the key issue, the more that voters will be seeking a savior, not a representative and the more the winner can claim all the power he claims to need".
Sumt af þessu er íslenskur raunveruleiki. Er ekki verið að ræða um nauðsyn þess að koma upp varaliði eða íslenskum her? Er ekki tiltekin stjórnmálaflokkur að setja sem flesta flokksmenn sína í Hæstarétt? Er báknið farið burt, eins og Heimdellingar kröfðust um árið, eftir sextán ára setu Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn? Síður en svo. Það sem hefur breyst er að það er búið að flokksvæða stofnanirnar og byggja undir ráðuneyti og framkvæmdavald. Áhersla sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið á sterka leiðtoga, sem að oft hefur komið niður á lýðræðislegri umræðu innan flokksins. Það má ekki spyrjast út að það séu skiptar skoðanir um mál, því þá er það talið til veikleika. Mín skoðun er að það sé styrkleiki stjórnmálaflokka að það sé svigrúm fyrir breytileg viðhorf innan þeirra. Það er galli á flokksstarfi að halda skoðunum niðri með ótta eða foringjadýrkun. Þannig endum við oft með stjórnmálamenn með "athyglisbrest" í þeim skilningi að þeir vita hina einu réttu útgáfu af sannleikanum og þurfa ekki að leita umboðs eða umsagnar um nokkurn hlut. Nema ef til vill að minna okkur á það á fjögurra ára fresti að allt fari á verri veg í landinu, ef þeir fái ekki áframhaldandi umboð. Sakna landsföðurs í líkingu við Steingrím Hermannsson. Hlýlegur karakter sem lagði sig fram um að setja sig inn í aðstæður fólks og hlusta eftir vilja fólks við stefnumótun.
Samfylkingin og Morgunblaðið eru helstu fánaberar þess að útfærðar verði leiðir í átt að auknu íbúalýðræði og að almenningur geti kosið um stærri mál. Varmársamtökin héldu íbúaþing í gær undir yfirskriftinni "Heildarsýn; Vesturlandsvegur-Mosfellsbær". Þetta var mjög góður fundur. Frambjóðendur allra flokka mættu í pallborð um íbúalýðræði og skipulagsmál, nema að Sjálfstæðisflokkurinn sendi ekki fulltrúa. Þar held ég að flokkurinn hafi sýnt lýðræðinu vanvirðingu. Margt bendir til að Mosfellsbær vilji ekki eiga samræður við íbúana á opinn og heiðarlegan hátt um þróun bæjarfélagsins. Þó er það von mín að bæjarstjórn taki nýjum hugmyndum samtakanna um vegtengingar við Helgafellshverfi af opnum huga, frekar en að etja hverfum og íbúum saman í ómálefnalega umræðu og ótta. Í Mosfellbæ er nefnilega engin hryðjuverkaógn og við gætum haft þetta svo huggulegt og skemmtilegt teboð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.