Tengsl við náttúru í þéttbýli

andriogmandaMargt bendir til að Mosfellsbær sé að glutra niður þeirri sérstöðu sem felst í nánum tengslum við náttúruna. Þeir eru áreiðanlega margir sem fluttust í "sveitina" einmitt til þess að blanda saman tækifærum þéttbýlis og  tengslum við sveitastemmingu og náttúru. En bæjaryfirvöld virðast orðin þreytt á sveitamennskunni og innleiða nú hraða og mikla uppbyggingu húsnæðis í anda þess sem átt hefur sér stað í Kópavogi. Niðurstaðan er að farið er fram af meira kappi en forsjá. Áform eru uppi um að byggja á grænu svæðunum, sem flest eru tún í einkaeign, á næsta áratug. Á sama tíma er ekki gætt að því að tryggja verndun og útivistarmöguleika á Varmársvæðinu. Þar á að leggja tengibrautir í Helgafellshverfi og Leirvogstungu sem munu skerða verulega þessi lífsgæði Mosfellinga. Með réttum áherslum í skipulagsmálum hefði verið hægt að tryggja fullnægjandi vegtengingar við nýju hverfin og að vernda þessa lífæð bæjarins.

Ef til vill er öllum sama, svo lengi sem við höfum nýlegt grill á pallinum og góðan jeppa og Grillhestakerru á planinu. Að þessu leyti finnst mér Mosfellsbær vera að þróast í svipaða átt og Garðabær. Stórt samansafn af fólki sem leggur aðaláherslu á hreiðurgerðina, en litlar á mannlíf og menningu í bænum. Vonandi viljum við meira. Fór nýlega á laugardegi út að borða og á öldurhús í Hafnarfirði. Það var virkilega gaman að sjá allt þetta fólk að skemmta sér og njóta lífsins. Skynja þennan bæjarbrag og samfélag. En eitt er það sem Garðabær gerir betur en Mosfellsbær þessa dagana. Það er að móta skipulagsstefnu og uppbyggingu þannig að hún sé í sátt við umhverfið. Meðan Mosfellsbær siglir Kópavogsleiðina, að uppbygging og framfarir séu mældar í flatarmáli af malbiki og rúmmetrum af steypu, þá hefur Garðabær markað stefnu sem leggur áherslu á að halda góðum tengslum við náttúruna.

alcan_stigurBæjarstjórn Garðabæjar hefur snúið sér til íbúa bæjarins við að kanna framboð, eftirspurn og notkun náttúrutengdra útivistarsvæða í nágrenninu. Stefnt er að friðlýsa tiltekin svæði svo öllum sé ljóst að við þeim verði ekki hróflað. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ segir í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn; "Við finnum að fólk tekur þessu vel og það er aukinn áhugi, sérstaklega hjá ungu fólki sem flytur í bæinn og er áhugasamt um náttúruna í nánasta umhverfi. Það er mjög ánægjulegt að verða vitni að þessari vakningu." Þetta er lofsvert framtak hjá bæjarstjórninni. Það er augljóst að aukin eftirspurn er eftir hverfum sem skipulögð eru fyrir þá sem vilja njóta kosta þéttbýlis en halda nánum tengslum við náttúruna, t.d. hið nýja Urrriðaholtshverfi í Garðabæ, sem virðist metnaðarfullt verkefni og Tjarnabyggð í nágrenni Selfoss.

Ætlar Mosfellsbær að glata ímynd sinni á meðan flestir aðrir reyna að innleiða slík tengsl íbúa og náttúru? Fyrir um áratug var Mosfellsbær verðlaunaður af Sambandi íslenskara sveitarfélaga fyrir uppbyggingu göngustíga, en síðan hefur öll hugsun og heildarsýn í umhverfismálum verið veikburða. Það getur verið ágætt fyrir Mosfellsbæ að sækja kraft framkvæmda í Kópavoginn, anda mannlífs í Hafnarfjörð og fyrirhyggju í umhverfismálum til Garðabæjar. Blanda síðan í réttum hlutföllum við sögu sveitarinnar, hestamennsku, listalíf, endurhæfingu og útivist í Mosfellsbænum.  Njótum dagsins í framsýnu og öflugu bæjarfélagi með kraftmiklu mannlífi og útivistarmöguleikum. Á forsendum náttúrutengdrar uppbyggingar þéttbýlis og aðkomu almennings að skipulagsvinnu hafa Varmársamtökin staðið vaktina. Þau lengi lifi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Gulli það er einfaldlega verið að undirbúa byggðina fyrir fólkið sem er verið að hrekja af landsbyggðinni með handónýtri stefnu í sjávarútvegsmálum grrrrrrrr.Annars mjög flott hjá þér að sína okkur hinum konuna þína efst í þessari færslu og auglýsa síðan að hún er afbragðs grillari líka aðeins neðar.........

Hallgrímur Guðmundsson, 18.6.2007 kl. 00:11

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Halli, þú ert svo harður í sjávarútvegsmálunum, enda virðist vera full ástæða til, þessa dagana. Hitti vonandi á þig við tækifæri.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.6.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband