Suðurlandsvegur, here we come!

Þá er Verslunarmannahelgin liðin og styttist í að flestir skipti um gír. Sumarfríin að verða búin, leikskólar aftur byrjaðir og aðrir skólar að byrja innan skamms. Líkt og álftirnar sem í þúsundavís koma við í Lóninu á vorin, þá mæti ég austur snemmsumars og fer í átt til höfuðborgarinnar þegar fer að halla að hausti. Það voru færri en oft áður sem fylgdu mér um fjöll Stafafells þetta sumarið. En það miðaði eitthvað áfram skálabyggingu í Eskifelli og mun ég fara um helgar fram eftir haustinu til að ljúka sem mestu fyrir veturinn.

Það eru spennandi dagar fram undan að setja upp fjölbreytilegt dans- og jógaprógram í Mosfellsbæ fyrir veturinn. Síðan ætla ég um miðjan september að taka þátt í VestNorden ferðakaupstefnunni sem haldin er í Færeyjum að þessu sinni. Þar ætla ég að kynna STAFAFELL; Útivistar- og verndarsvæði (Park of recreation and conservation). Nú er komið að því að sigra lönd og sannfæra erlenda gönguhópa jafnt og íslenska að fara um þetta undraland.

VegtunglKeyrði úr austrinu á sunnudeginum um Verslunarmannahelgi, með þrjá 14 ára gaura í bílnum, son frænda hans og vin. Lagt var af stað að austan upp úr klukkan átta að kvöldi inn í 500 km túr inn í nóttina. Hafði smá áhyggjur af því að ég yrði framlár við stýrið yfir svarta sanda, með endalausar gular stikur, malbik og hvítar línur fyrir augum. Það var ástæðulaus ótti, þökk sé Rás 2, Stuðmönnum og Árna Johnsen. Sérlega vel heppnað kvöld hjá okkur þó vangadansar og tjaldævintýri verði að bíða unglingana til næsta eða þar næsta árs.

Það var vel tekið undir í Taktu til við að tvista og öðrum klassískum númerum, Laddi og Shadi Owens voru líka frábær. Púkinn í Húsdýragarðinum hélt manni svo sannarlega ferskum. Eftir fréttir, veður og einhverja slíka róandi fasta liði í kvölddagskránni var svissað út til Vestmanneyja. Þar tók Árni Johnsen við í brekkusöngnum. Þvílíkur snillingur. Söng þarna einhver hátt í sextíu lög þindarlaust án þess að stoppa.

Við mættum í Mosfellsbæ um klukkan tvö um nóttina, búnir að vera undir bláum himni, algjörri stillu og tunglskini. En þessi líka kraftur og fjör í útvarpinu, sem smitaði út frá sér. Við vorum milli Víkur og Hvolsvallar þegar brekkusöngnum lauk nákvæmlega á miðnætti og sáum tilsýndar flugeldana skjótast á loft yfir Vestmannaeyjum. Síðan kom ró í smástund með fréttum og veðri í boði Ríkisútvarpsins. En svona til að tryggja að ferðin væri tekin með trukki alla leið, þá gaf sig aðalkúturinn í pústinu á Selfossi. Ekið var inn Reykjaveg frá Hafravatni eins og verið væri á einhverju kraftmeira en tólum frá Harley og Kawasaki samanlögðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband