29.10.2007 | 23:43
Feðgaafmæli og kálskurður
Ég og yngri sonurinn, Magnús Már, áttum afmæli nú um helgina. Hann varð fjögurra ára á laugardag og ég varð hálfníræður í gær, sunnudag. Afmælishald er krydd í hversdagsleikann og svo varð mér að ósk minni að fá einhvern fjölbreytileika í veðurfarið. Daga með bláum himni, stjörnum og tunglsljósi í stað eilífrar rigningar. En bláum himni á þessum tíma árs fylgir kuldi. Ég fór í gær á afmælisdaginn að hjálpa Helga bónda sem að er með mikinn kálakur á Sólvallatúni fyrir framan stofugluggann í Mosfellsbæ. Þetta minnti á heyskaparstemmingu í lokin því verið var að að ná sem mestu af rauðkáli og hvítkáli í hús fyrir frost. Komið rökkur og fullt tungl færðist upp fyrir Helgafellið og yfir Reykjalund. Nú er trúlega eitthvað skemmt af því káli sem varð eftir og hætta á því að þrengist að í búskap hagamúsana sem voru að skjótast um undir kálblöðunum.
Við feðgar vorum sáttir við helgina þegar við fórum að sofa í gærkvöldi. Hann hafði meðal annars fengið mikið þyrlusett með hermönnum úr TOYSAREUS. Ég sagði við hann, hvort að honum hafi ekkert dottið í hug að gefa pabba sínum eitthvað. Hann hafi nú fengið þessa flottu gjöf frá okkur. Piltur gerðist íhugull smástund og fór svo og náði í Bubbi byggir karlinn sinn, sem að er búin að vera í uppáhaldi og gaf mér hann. Þetta var höfðingleg gjöf sem að sýndi líka að karlarnir í felulitum hefðu færst skörina hærra á vinsældalistanum heldur en hinn framkvæmdaglaði og geðþekki karl, sem ég hef nú eignast með gögnum öllum og gæðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2007 kl. 00:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.