Væntingar til náttúrunnar

Í viðtölum við sveitarstjórnarmenn á Höfn kemur fram að þeir hafi miklar væntingar til stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Oftar en ekki eru þessar vonir bundnar við aukna atvinnu á Höfn, að fá gestastofu staðsetta hjá bænum, fá framkvæmdastjóra væntanlegs þjóðgarðs staðsettan í bænum og jafnvel hefur heyrst áhugi á að fá náttúruverndarhluta Umhverfisstofnunar í heild staðsettan þar eystra.

Finnst að inn í þessa umræðu vanti þankagang um hvar séu mestir möguleikar til útivistar, hvar sé hægt að vera í lengstum og mestum tengslum við náttúru án manngerðra áhrifa og ekki síst hverjar eru væntingar ferðamanna sem koma til Íslands. Margar kannanir hafa sýnt að yfir 90% erlendra sem leggja á sig ferð yfir Atlantsála gefa þá ástæðu að þeir vilji upplifa tengsl við ósnortna náttúru.

Tel að framan af hafi verið skilningur á því að slík viðhorf ættu að vera ráðandi um Vatnajökulsþjóðgarð. Að byggja upp innviði og þjónustunet í tengslum við ósnortna náttúru. Ekki í þéttbýli og með vegagerð sem spillir verulega upplifun og gæðum náttúrunnar. Persónulega finnst mér það einmitt sterkasta náttúrustemmingin á Höfn að horfa í vestur frá nágrenni heilsugæslunnar. Græni liturinn, fjörðurinn, hólar og eyjar, blámi fjallana og hvítar jökultungur á milli. Þessu má ekki spilla.

ÚtiveraHef ekki trú á að þessar útfærslur séu í samræmi við hugmyndir Hjörleifs Guttormssonar, sem fyrstur lagði drög að þessari vegferð, með þingályktunartillögu á Alþingi. Hef ekki trú á að þetta sé í samræmi við hugmyndir Gísla Gíslasonar landslagsarkitekts og Landmótunar sem unnu að miðhálendisskipulagi. Hef ekki trú á að þessi þróun sé í samræmi við væntingar innlendra og erlendra sem vilja njóta útivistar og tengsla við náttúruna.

Það er ekki bara að Stafafell í Lóni hafi meira bakland og fjölbreytilegra en þekkist annars staðar umhverfis Vatnajökul, heldur hefur verið sagt að í Lóni eigi fólk að upplifa inngang í þjóðgarðinn. Það hefði því verið glæsileg pæling að koma inn í vandaða gestastofu þar og yfirgefa sýsluna eftir að hafa dvalið í Skaftafelli. Gott hefði verið ef hægt hefði verið að sameinast um að þetta væru tveir meginpunktar þjóðgarðsins í sýslunni.

Höfn mun að sjálfsögðu njóta þess ef öflug þjónustumiðstöð, gestastofa rísi á Stafafelli í Lóni og að hinir miklu möguleikar til náttúreutengdrar uppbyggingar eru nýttir. Þar eru yfir hundrað sumarbústaðir og verið skipulagt víðattumikið útivistarsvæði. Spurningin snýst einfaldlega um að uppfylla væntingar útivistarfólks og ferðamanna um tengsl við sérstæða, fjölbeytta og ósnortna náttúru. Það hélt ég að væri megininntak í uppbyggingu þjóðgarða. En útfærslan varð reiptog embættismanna um atvinnuhagsmuni. Síðan á Alcoa að verða aðalstyrktaraðili þjóðgarðsins!

Vitið þér enn eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband