20.11.2007 | 23:27
Hvernig verndarsvæði?
Ríkið hefur þá stefnu að kaupa ekkert land vegna Vatnajökulsþjóðgarðs, en jafnframt að hafa landeigendur hvergi með í ráðum við undirbúninginn. Þeir eiga engan fulltrúa í stjórn eða svæðisráðum. Þarna er ósamræmi sem ég held að geti leitt til þess að keisarinn verði ekki í neinum fötum. Landeigendur muni almennt ekki ganga að samningum við ríkið á þessum forsendum og það beint í kjölfarið á ruddalegri framgöngu ríkisins í þjóðlendumálum. Það er ekki nóg að segja við landeigendur að þeir muni græða svo mikið á öllum þeim fjölda ferðamanna sem eigi eftir að ferðast um þeirra land, þegar það er komið með þjóðgarðsstimpil.
Aðferðafræðin er sú að fjöldi nefnda og ráða hefur verið á góðu kaupi við að gera plön um eigur annarra. Síðan eru dregnar línur yfir stóran hluta landsins og tiltekið að þær verði mörk þjóðgarðsins með fyrirvara um samþykki landeigenda. Á stundum dettur manni í hug hvort að það sé ekki best að lýsa Ísland allt sem þjóðgarð. Þá næðist klárlega eitt af því sem virðist meginmarkmið, að búa til stærsta þjóðgarð í Evrópu og sem trúlega er enn betra, að Ísland gæti orðið stærsti þjóðgarður í heimi. Það ætti að vera mögulegt í ljósi þess hvernig hugmyndavinnan hefur þróast.
Áhersla á landfræðilegar og sögulegar heildir virðist ekki skipta lengur máli og uppbygging þjónustu er ekki í nánum tengslum við útivist eða náttúruvernd. Áherslur hafa færst yfir á að þjóðgarðurinn lúti hinu manngerða umhverfi. Tryggja sjávarútvegsbæ atvinnu og að hleypa álrisa að sem aðalstyrktaraðila. Ekkki virðist lengur þörf á að fylgja leiðbeiningum sérfræðinga um hvaða svæði hafi mest náttúruverndargildi, heldur er þetta mál nú sett fram eins og að hér sé um samfélagsverkefni að ræða sem muni renna traustari stoðum undir búsetu fólks. Tryggja mikla aukningu í fjölda ferðamanna til lands og svæðis.
Það er óþægilegt að hafa svo blendnar tilfinningar í þessu máli. Hef í fjölda ára farið land Stafafells sem fjallaleiðsögumaður og líffræðingur. Þar liggja mínar rætur en óháð því veit ég að svæðið er einstakt og hef unnið að uppbyggingu þess sem útivistarsvæðis. Eru útfærslur einkareksturs svarið? Er hugsanlegt að leita eftir stórum fjárfestum um stuðning. Það ætti ekki að vera stórmál fyrir t.d. einhvern af stærri bönkum landsins að taka slíkt útivistarsvæði í fóstur. Síðastliðið vor voru lögð drög að stofnun hollvinasamtaka Stafafells í Lóni (ViSt). Til að tryggja rétta blöndu af uppbyggingu og verndun er gott að byggja það á samvinnu við fólk sem að ber hlýjan hug og velvilja til svæðisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.12.2007 kl. 23:02 | Facebook
Athugasemdir
Ríkið rekur umfangsmikla starfsemi á ýmsum sviðum, mest í skjóli vanans en líka af því að sú hugsun er enn ríkjandi að hinu opinbera sé best treystandi fyrir ýmsum hlutum. Þessi lýsing á framferði hins opinbera í þjóðgarðsmálum Vatnajökuls veit ekki á gott, en í sannleika sagt þá var nú ekki við miklu að búast af hinu opinbera þar sem stjórmálamenn koma saman og eiga að ráðskast með örlög og eigur fólks og réttilega eins og þú segir í kjölfar þeirrar ágengni sem fram fór í Þjóðlendumálunum. Mér finnst einfaldlega hæpið að ætla að stofna þjóðgarð á einkalöndum fólks eða félagasamtaka.
Ragnar Geir Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.