9.12.2007 | 16:27
Merkustu menn
Stjórn Varmársamtakanna ákvað að gera sér glaðan dag á föstudagskvöldið. Farið var út að borða á Carúsó, frábær matur og Símon H. Ívarsson gítarleikari sterkur sem viðbótarkrydd í stemminguna. Mosfellingar ákváðu að nýta bæjarferðina til fulls og skoða helstu krár borgarinnar.
Þar sem ég kem inn á eina ölstofuna standa þar tveir aldnir halir í hrókasamræðum. Ég stoppaði við til að festa þessa mynd í huganum. Vissi að þetta myndi ekki endurtaka sig. Þarna voru prófessorarnir "emírutasarnir" Jóhann Axelsson og Haraldur Bessason að ræða málin.
Þegar ég var í Winnipeg ungur að árum að taka próf í sálfræði, þá var Haraldur þar ókrýndur forseti Nýja Íslands. Skemmtilegur maður, blanda af sveitamanni og heimsborgara með leiftrandi húmor og einstakt vald bæði á íslenskri tungu og máli engilsaxa.
Síðan vann ég á Lífeðlisfræðistofnun í nokkur ár og þar var Jóhann Axelsson minn yfirmaður. Hann var jú hinn stóri pater lífeðlisfræði á Íslandi. Maðurinn sem næstum því fékk Nóbelsverðlaunin. Man alltaf eftir því að Jóhann taldi einu sinni upp allra þá eðliskosti sem að hann taldi mig hafa, en sagði svo snöggt; "Það er þó eitt, ég held þú sérst ekki nógu geggjaður". En ég hef reynt að bæta úr þessu.
Þarna voru þeir strákarnir úr Skagafirðinum upptendraðir í andanum. Annar nýbúinn að gefa út bók um minningar úr Vesturheimi og hinn enn með markmið um tímamótarannsóknir. Gaman að hitta á menn sem að eru jafn sterkir karakterar en þó breiskir, ólíkir en þó úr sömu sveitinni. Þeir hafa ætíð farið ótroðnar slóðir og ef til vill liggur þar hin jákvæða merking þess að vera geggjaður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2007 kl. 01:41 | Facebook
Athugasemdir
Nei Gulli minn. Það hefur nú verið þinn helsti löstur í gegnum tíðina, hvað þú ert ábyrgur.....
Hrönn Sigurðardóttir, 9.12.2007 kl. 19:00
Satt er það, en erum við ekki að verða flippaðri og flippaðri með árunum?
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.12.2007 kl. 20:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.