Grænt malbik?

GöngustígurHópur náttúruverndarfólks gekk að Reykjum, Reykjalundi, göngustíg með Varmá og niður í Álafosskvos í dag. Það rigndi hressilega á hópinn, en skemmtileg stop voru gerð á leiðinni og endað á frábærri fiskisúpu í Kvosinni. Út um glugga á Álafossi blasa ekki lengur við grasigrónar lendur Helgafells. Búið að keyra þúsundum rúmmetra af gróðurmold í burtu og í staðinn hafa komið aðrar þúsundir rúmmetra af möl og grjóti. Baráttan um legu Helgafellsbrautar er töpuð. Svöðusárið blasir við. Mikilvægt er að heimila ekki frekari byggð í jaðrinum til að hægt sé að leiðrétta síðar fyrir þann níðingshátt sem nú hefur gengið fram.

Eitt var þó nýtt á þessari göngu sem ég hafði ekki gert mér fyllilega grein fyrir áður. Það var algjörlega ofvaxinn framkvæmd við göngustíg meðfram Varmá á vegum verktakans. Enn og aftur hefur ekkert verið um hana fjallað í nefndum, né að hún hafi fengið eitthvert mat á umhverfisáhrifum. Hér er þó um gríðarlega umfangsmikið inngrip að að ræða. Stefnt er að breiðum malbikuðum göngustíg sem meðal annars mun liggja mefram barmi Álafoss. Sögutákni bæjarfélagsins í Varmá. Þetta er svona einhver "supersize" gjörningur. Byrjað er á að flytja moldina burt og grjót og möl sem undirlag. Síðan á að malbika yfir allt saman. Göngustígurinn sem fyrir er upp með Varmá hefði átt að geta verið fyrirmynd, þar sem fín möl er notuð. Jafnvel hefðu þeir getað farið upp í Hamrahlíðarskóg og séð hversu hlýlegir og skemmtilegir stígarnir þar eru með viðarspæni.

Grjót&malbikÞetta á trúlega að vera einkamál verktaka og bæjaryfirvalda. Löngu um þetta samið á einhverjum lokuðum fundum. En það er vonandi að þeir máli malbik göngustígsins grænt, svo allir flokkar geti haldið því fram að áherslur þeirra hafi komist til skila í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Meðfylgjandi myndir sýna annarsvegar breidd og undirlag hins nýja göngustígar Helgafellsmegin við Varmá og hinsvegar eldri stígurinn hinum megin, sem leyft er að laga sig að náttúrunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Hvað segir Kalli Tomm um þetta?

Kolgrima, 16.2.2008 kl. 22:57

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já mikill er munurinn!

Hrönn Sigurðardóttir, 16.2.2008 kl. 23:14

3 Smámynd: HP Foss

Sæll Gunnlaugur.

 Kannski er verið að hugsa um að sem flestir geti notið stígsins, ekki bara við sem getum enn gengið hvert sem er án aðstoðar. Margir þurfa að notast við hjálpartæki til að komast leiðar sinnar, gamalt fólk með stafi, fólk í hjólastólum. Við megum ekki gleyma okkur í eigingirninni, megum ekki hugsa hlutina aðeins út frá okkur einum. Ég held að það sé ekkert sérstakt að komast með hjólastól eftir þessum stíg sem er á eftir myndinni, sé ekki betur en það sé stallur til að komst upp á brúna. En öllu álitlegri sýnist mér sá vera sem er á neðri myndinni til þeirra hluta. Og til að hann verði til friðs um ókomin ár, nú þá þarf að sjálfsögðu að skipta um undirlag. Það vita nú flestir.

Það er nefnilega þannig Gunnlaugur, að þeir sem á einhvern hátt eiga erfitt að komast leiðar sinnar, njóta þess jafnvel betur en við, ef þeim er sköpuð aðstaða nálægt heimkynnum þeirra. Þeim er það ekki jafn auðvelt eins og okkur, að skottast upp á fjöll, skoða  fossa  og fagrar brekkur óbyggðanna.  Þeir njóta þess sem er þeim næst og okkur ber að hugsa um það.

Kveðja úr súldinni á Fossi

Helgi

HP Foss, 16.2.2008 kl. 23:15

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Helgi, þetta er góð athugasemd. Ég held að hún haldi samt ekki. Við myndum aldrei gera breiðan malbikaðan stíg meðfram Gullfossi til að tryggja aðgengi fatlaðra.

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.2.2008 kl. 23:35

5 Smámynd: Karl Tómasson

Umhverfi snýst ekki einungis um það sem gleður augað. Umhverfi er eitthvað sem allir þurfa að njóta , jafnt sem "heibrigðir" einstaklingar sem og aðrir sem ekki eiga þess kost á að komast ferða sinna um náttúruna án aðstoðar, t.d. í hjólastól. 

Ég man þá tíð þegar sléttur Reykjabyggðar voru grasi vaxnar. Nú er þar hús við hús og vonandi hamingjusamar fjölskyldur á fallegum stað, eins og t.d. þar sem þú býrð. 

Mikið verður nýji göngustígurinn fallegur þegar búið er að planta trjám allt í kringum hann og allir eiga þess kost að ferðast um með góðu móti.

Líney Ólafsdóttir. 

Karl Tómasson, 16.2.2008 kl. 23:41

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Má túlka þessa stígagerð sem breytingu á stefnu um stígagerð í bæjarfélaginu og að í framtíðinni verði eingöngu um tæplega tveggja metra malbikaða stíga að ræða? Fyrst menn hafa hugrekki að leggja hann við hlið Álafoss, þá telja víst þeir sömu að hann gæti passað í umhverfi Hamrahlíðarskógar og víðar?

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.2.2008 kl. 23:54

7 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Auðvitað ætti það að vera stefna hvers bæjarfélags, og hvers þess sem leggur göngustíga að hafa þá þannig að þeir henti öllum, fötluðum sem ófötluðum. Ég geri mér þó grein fyrir því, að sumstaðar eru aðstæður þannig að ekki er pláss fyrir svoleiðis göngustíga, og ber að virða það, en þar sem ekkert er því til fyrirstöðu annað en tilfinningasemi á að sjálfsögðu að hafa göngustíga breiða og slétta, auðvelda yfirferðar fyrir alla, því að landið og fegurð þess er allra, en ekki fárra útvaldra.

Þess má geta að það er breiður göngustígur fyrir fatlaða við Gullfoss, Geysir og hakið á Þingvöllum og víðar, og er það vel, þó alltaf megi gera betur.

Börkur Hrólfsson, 17.2.2008 kl. 00:30

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Er verið að segja það í alvöru að aðgengi fyrir fatlaða geti réttlætt stórfelld náttúruspjöll og umfangsmikið inngrip í náttúruna á hverfisverndarbelti? Stígurinn malbikaði verður um fimm metra frá Álafossinum. Malbik mun frekar verða upplifun sjónsviðsins, heldur en náttúra, lífríki og foss. Þarna mun gifurlegu magni af olíublandaðri möl, malbik, vera sett á bakka Varmár, sem að hluta til mun seyta út í ánna. Eigum við ekki að ræða þetta eitthvað nánar ...... ?

Börkur á þinni síðu stendur að þú sérst leiðsögumaður og þá veist þú að flestir ferðamenn koma til Íslands til að njóta tengsla við ósnortna náttúru. Í raun er það svipað með íbúa Mosfellsbæjar að langflestir þeirra hafa valið sér það hlutskipti að búa í jaðri höfuðborgarsvæðisins til að vera í tengslum við náttúruna. Það réttlætir ekkert svona mikið inngrip í það litla belti sem eftir er meðfram ánni og er sérstaklega tekið frá og á að haldast ósnortið undir hverfisvernd.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 01:09

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég skil það að maður malbiki ekki náttúrufegurð okkar.
Ég skil líka vandamálið og óréttlætið... það hlýtur að vera til önnur lausn á þessu máli.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.2.2008 kl. 00:26

2 Smámynd: Kolgrima

 

Ég tek undir með Gunnari. Það er rangt að malbika náttúrufegurð, eitthvað verður að fá að vera í friði. Ég er viss um að ef skoðanakönnun yrði gerð meðal þeirra sem unna náttúrunni en geta illa farið um, þá kæmi í ljós að þeir vildu ekki að náttúruspjöll yrðu unnin í þeirra nafni.

Þetta er ekki spurning um að fólk í hjólastólum komist á þennan eina stíg eða alls ekki neitt. 

Kolgrima, 17.2.2008 kl. 00:50

Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar og forystumaður vinstri grænna boðar þá nýju stefnu flokksins að breiðir malbikaðir göngustígar verði lagðir meðfram ám og vötnum, ásamt því að liggja að helstu náttúruperlum. Þetta fær dræmar undirtektir í athugasemdadálki eins og oftast gerist þá sjaldan hann viðrar stjórnmálaskoðanir sínar. Hér fyrir ofan eru tvær athugasemdir við færslu Karls.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 09:57

10 identicon

Góðir hálsar
Það er nokkuð ljóst að Karl Tómasson hefur ekki komið að Gullfossi.  Fyrir ofan Gullfoss eru góðir göngustígar og útsýnispallur yfir fossinn sem byggður var m.a. til að bæta aðgengi fatlaðra. Útsýni er frábært af hæðinni fyrir ofan Gullfoss.
Við Álafoss er stór malbikuð stétt fyrir aftan gömlu verksmiðjuhúsin í brekkunni og er þaðan hægt að ganga alveg upp að fossinu. Ef íbúar hefðu fengið að ráða væri fyrir löngu búið að gera pallinn þannig úr garði að allir gætu notið nálægðar við fossinn. Mosfellsbær á hins vegar þetta svæði og hefur ekkert viljað aðhafast í málinu þrátt fyrir að Álafosskvos hafi áður en Helgafellsbyggingar ehf hófu framkvæmdir á svæðinu verið vinsælasti áningarstaður ferðamanna í Mosfellsbæ.
Ég veit að það er ekki eitt af baráttumálum fatlaðra að malbika yfir náttúruperlur Íslands. Skv. aðalskipulagi Mosfellsbæjar á ekki að malbika stíga á hverfisverndarsvæðum og leikur mér því forvitni á að vita skv. hvaða skipulagi verið er að vinna að lagningu malbikaðra göngustíga við bakka Varmár.

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 15:11

11 identicon

Það virðist vera útbreiddur misskilningur hjá talsmönnum malbikaðra náttúru- og hverfisverndarsvæða að náttúran eigi sér ekki sinn eigin tilverurétt, þ.e. að maðurinn geti tekið sér það vald að eyðileggja hana og umbreyta að eigin geðþótta. Ég tel það vera úrelta heimspeki að maðurinn sé herra yfir náttúrunni. Við eigum að bera virðingu fyrir henni á jafnréttisgrundvelli sérstaklega í ljósi þess að hún getur ekki varið sig.

Það stendur ekki steinn yfir steini á framkvæmdasvæðinu í Helgafellslandi. Aðfararnir bera vott um að þar séu skilningvana athafnamenn á ferð. Samt segir í greinargerð arkitekta með skipulaginu að laga eigi byggð að landslagi í Helgafellslandi. Hvaða landslagi?

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 16:34

12 identicon

Ég verð nú að taka undir með Kalla Tomm. Sjálfur er ég fatlaður einstaklingur og hef farið þó nokkuð hér um í Mosfellsbænum á rafskutlu og ég líki því ekki saman að það er betra fyrir okkur að fara um ef stígurinn er malbikaður. Sveitarfélög eiga að tryggja aðgengi allra en ekki bara sumra.

Jón Eiríksson (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 20:44

13 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta eru tvö mál. Möguleikar hreyfiskertra til að komast um í bæjarfélaginu annarsvegar og hinsvegar að halda eftir ósnortinni mjórri ræmu meðfram Varmá, einungis 50 m hverfisverndarbelti. Það er auðvitað gróf ögrun að setja þriggja metra uppbyggðan stíg inn á þann hluta sem frátekin er til verndunar. Það hljóta allir að sjá það.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 21:17

14 identicon

Sæll Jón

Málið snýst ekki um hvort leggja eigi göngustíga heldur hvernig og hvar það er gert. Það er slæmt fyrir lífríki árinnar að skipta um allan jarðveg við árbakkana. Sömuleiðis fyrir fuglalíf. Ef þessu er útrýmt með því að leggja stígana of nálægt ánni eins og hér er gert er lítið eftir af náttúruupplifun. Umhverfisstofnun mælir með að ekki sé farið nær ánni en 20 m. Vatnsmagn er mjög mismunandi í Varmá og hún flæðir oft yfir bakka sína. Ef búið er að rjúfa gróðurpúðann sem heldur aftur af ánni við bakkana er ekkert sem hindrar rof.

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 21:23

15 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er með ólíkindum að sjá hversu langt forystumaður og bæjarfulltrúi vinstri grænna er frá því að skilja hugtakið náttúruvernd eða að hafa samúð með því á nokkurn hátt. Þaðan af síður að hann skilji að það geti talist rask á umhverfi að leggja þriggja metra malbikaðan stíg á bökkum Varmár sem að hluta til er byggður á undirlagi sem er nokkurra metra þykkt.

Áður en hann fer lengra í fabúleringum um pólitískt samsæri gegn sér og sínum ætti hann að fara í smiðju til Jóhönnu B. Magnúsdóttur varðandi stígagerð. Hún var lengi í forystu Sjálfboðaliða um náttúruvernd og veit hvernig hægt er að láta stígagerð laga sig að náttúrunni eða að hann geti spurt Guðjón Jensson eða aðra í Skógræktarfélaginu hvernig stígarnir í Hamrahlíðarskóginum voru hugsaðir.

Hvenær er stefnt að því að malbika þá til að tryggja lágmarksréttindi fatlaðra að geta valið sér jólatré?

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.2.2008 kl. 01:13

16 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fór að ná í soninn úr lúðrasveitartíma og þá var þar gestur á radíó Sögu Karl Tómasson. Hann taldi mál Helgafellsvegar hafa skaðað ímynd Mosfellsbæjar. En hann "axlaði ekki ábyrgð". Taldi það rekið áfram af múgsefjun og vanþekkingu! Alls kyns utanaðkomandi fólk hafi skipt sér af málinu sem ekkert viti um Álafosskvos. Hann endurtók klisjuna um að vegurinn lægi alls ekki um Álafosskvos, nei, nei, hann lægi ofan við kvosina.

Fatlaði stígurinn grænmalbikaði og þriggja metra breiði mun liggja 2-3 metra frá litla húsinu hans Rikka. -Barátta Varmársamtakanna hefur verið háð á grundvelli mikillar heimildaöflunar, faglegrar ráðgjafar og þekkingar. Þar hafa margir fulltrúar bæjarins verið teknir í rúminu vegna lítt ræddra og illa undirbúinna skipulagsáforma.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.2.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband