17.3.2008 | 22:28
Vandinn úr vestri og leikur með krónu
Hagspekingar túlka niðursveiflu dagsins á gengi íslensku krónunnar sem afleiðingu af hræringum í bankamálum í Bandaríkjunum. Gengi bandaríkjadollars sígur enn gagnvart evru og í dag varð munurinn meiri en nokkru sinni fyrr en það kostar nú tæpan 1.6 dollar að kaupa 1 evru. Heimssýnarmenn spáðu hraklega fyrir framtíð og styrk evrunnar á sínum tíma, en hafa aldrei varað við dollaranum. Enn eitt dæmið um að andstæðingar evru og samvinnu við ESB eru ekki spámannlega vaxnir og sýna skekkta mynd af heiminum.
Margt bendir til að Íraksstríðið sé að hafa áhrif vestanhafs og svo virðist sem það sé okkur líka dýrkeypt. En hverjar eru ástæður jafn mikillar gengislækkunar og varð í dag? Morgunblaðið er með leiðara á laugardag undir fyrirsögninni "Hverjir hagnast?". Þar segir; "Gengislækkun undanfarinna daga sópar gífurlegum fjármunum frá almennum borgurum til einhverra annarra - en til hverra?" Í sama streng tók Gylfi Arnbjörnsson í kvöld. Er sjö prósent gengisfelling krónu á einum degi að sýna okkur betur en allt annað hversu veikur gjaldmiðill hún er?
Íslensk fyrirtæki með umsvif erlendis velta margföldum fjárlögum íslenska ríkisins. Ef það er hagur einstakra aðila sem eru hlutfallslega stórir að selja mikið af krónum þá getur fylgt því það mikill öldugangur að óásættanlegt sé fyrir heimilin og fyrirtæki að búa við slík skilyrði. Bent hefur verið á að tvær meginstoðir íslensks efnahagslífs útflutningur á fiski og áli gefi af sér óvenju háar tekjur vegna hárra verða á mörkuðum. Því er hér að mestu leyti ójafnvægi í gjaldmiðli sem einungis þjónar 300 þúsund manns og er auðvelt að spila með í hringiðu alþjóðlegra viðskipta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2008 kl. 13:44 | Facebook
Athugasemdir
"Heimssýnarmenn spáðu hraklega fyrir framtíð og styrk evrunnar á sínum tíma, en hafa aldrei varað við dollaranum. Enn eitt dæmið um að andstæðinga evru og samvinnu við ESB eru ekki spámannlega vaxnir og sýna skekkta mynd af heiminum".
Það skyldi þó aldrei hafa eitthvað með það að gera að engin hefur stungið upp á því að við göngum í Bandaríkin og tökum upp dollar.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 22:37
Það er engin spurning að niðursveifla á hlutabréfamarkaði dagsins eru afleiðingar af hræringum í bankamálum í Bandaríkjunum. Hinsvegar get ég ekki svo auðveldlega séð að íslenska krónan hefði átt að falla að þeim sökum. Ekki voru jöklabréf á gjalddaga sem hefði verið eðlileg skýring á veikingu krónunnar.
Skýringuna er eflaust að finna í aðgerðum íslenskra banka og fjármálstofnana sem hafa verið að taka stöðu í erlendri mynt með sölu á krónunni og rennur manni í grun að forsendurnar séu allt eins pólitískar eins og efnahagslegar. Þrýstingur frá fjármálastofnunum um að við tökum upp evru eða aðra mynt er gríðarlegur og það sem þessar stofnanir geta nú á dögum er að leika sér með okkar litlu mynt í þeim tilgagni að þjóna hagsmunum sínum og láta sér í léttu rúmi liggja hvort það bitni á búskapi litla mannsins eða litlu þjóðarinnar.
Er ekki bara verið að sýna okkur smælingjunum að á endanum höfum við ekki val á því hvort við göngum í ESB eða ekki.
Við búum ekki lengur við vald lýðsins, við búum við vald gullkálfsins.
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 01:12
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson: Það er alveg rétt hjá þér að fjármálastofnanir og önnur stórfyrirtæki geta sýnt íslenska ríkinu í tvo heimana ef ekki verður farið að vinna að því að ganga í ESB og taka upp evruna. Þetta hefur náttúrlega verið auðséð alla tíð öllum sem sjá vilja. Þess vegna hafa Íslendingar aldrei átt neitt val um slíkt. Það verður að fara að sinna þessum málum. Og það er nú ekki eins og verið sé að leggja af einhvern íslenskan menningararf þó svo að krónan fari veg allrar veraldar. Þetta er danskur fjári, sem var troðið upp á okkur óspurð 1874, í staðinn fyrir ríkisdal, sem líka var danskur....
sleggjudómarinn (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 03:55
út með krónuna
Hólmdís Hjartardóttir, 18.3.2008 kl. 04:18
Já Sleggi... það er nokkuð ljóst orðið að Davíð og félagar hafa ekki það vald sem til þarf í Seðlabankanum til að hafa stjórn á gullkálfunum... krónan er fallin og er kominn tími til að senda hana hjem til danmark igen... tak for laanet.
Hávaxtastefnan hefur ekkert verðbólguhald lengur í 3földu hagkerfi þar sem verðbætur og erlendir gjaldmiðlar ráða ferðinni. Það væri einungis sýndarmennska að ætla að ræða ESB aðild í dag... sýndarlýðræði... þó ótrúlega hallærislegt að vera ekki búnin að vinna heimavinnuna og taka sjálfviljuga ákvörðun... nú þurfum við bara að hengja skottið á milli lappana og brosa til meginlandsins.
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.