Nú árið er liðið

AfmæliFyrir ári síðan setti ég inn fyrstu bloggfærsluna "Stafafell á Víðidal allan". Upphaf þessarar iðju má rekja til blaðamanns á Mogga sem benti mér á að þessi "fjölmiðill" væri ein leið til að tjá sig um þjóðlendumál. En eins og gengur að þá hafa þær 200 færslur sem komnar eru fjallað um margvíslega hluti enda liggur áhugi minn á ýmsum sviðum. Þetta er búið að vera fjölbreytilegt og skemmtilegt ár. Merkileg reynsla að fylgjast með því hvernig þessi vettvangur hefur tekið þroska. Rúnnast af honum ókostir eins og ókurteisi eða ónot.

Áhugi á stjórnmálum er oft skammt undan, en langt frá því að ég sé fastur í slíku. Það er hinsvegar til íhugunar afhverju maður hefur áhuga á stjórnmálum. Nærtækasta skýringin er að ég vil lifa lífinu á virkan hátt og vera þátttakandi. Á mínu æskuheimili að Stafafelli í Lóni var mikið rætt um pólitík. Fram að fermingu var ég öfgasinnaður Framsóknarmaður. Minnist  þess að til steypuvinnu komu margir karlar úr sveitinni og reyndi ég allnokkuð á mig kornungur til að kristna Sjálfstæðismennina í hópnum. Alþýðubandalag og þó sérstaklega Alþýðuflokkur voru varla til í sveitum austanlands.

BjarniMikill stjórnmálaáhugi hefur verið hjá mörgum í móðurætt. En ættmenni afa og ömmu hafa verið áberandi á sitthvorum væng stjórnmálanna. Þannig er mamma þremenningur við Bjarna Benediktsson fyrrum forsætisráðherra öðrum megin og þremenningur við Hjörleif Guttormsson fyrrum iðnaðarráðherra hinum megin. Amma mín Ragnhildur var frá Lundum í Stafholtstungum bróðurdóttir Ragnhildar ættmóður Engeyjarættar. Afi var frá Stafafelli, en móðir hans frá Hallormsstað, en afkomendur systur hennar margir verið virkir á vinstri væng stjórnmálanna. Ólíkir menn en þó með áherslur á menntun og með rætur meðal embættismanna þjóðarinnar.

Hjörleifur og Bjarni tilheyrðu sitthvorum pól kaldastríðsátaka. Annar flokkaður af andstæðingum sínum sem austantjalds kommúnisti og hallur undir sovéska heimsmynd, en hinn verið flokkaður af andstæðingum sínum sem sá sem vélaði þjóðina án lýðræðislegrar ákvörðunar undir bandarískt herveldi. Einhver myndi kalla þá fulltrúa átakastjórnmála. Hjörleifur spurði mig eitt sinn um ætt ömmu minnar sem ég rakti og þá svarar hann sposkur og snaggaralegur; "Jááá, lítið þykir mér um þennan skyldleika!".

HjörleifurÁn þess að ég sé að líkja mér við þessa menn þá má það teljast skiljanlegt að staðsetja sig í stjórnmálaflokki með áherslur á svigrúm fyrir ólík sjónarmið, umræðustjórnmál og lýðræðislegar áherslur. Meðal annars að styðja samvinnu þjóða í Evrópu. En það er merkilegt að hugsa til þess að fulltrúar hinna hörðu kaldastríðsátaka standa nú sameinaðir í andstöðu gegn ESB undir merkjum Heimssýnar. Ég met og virði þennan fjölbreytileika í lífsviðhorfum og dugnað við að afla hinum ólíku skoðunum fylgis. Hjarta mitt hefur þó ætíð verið og slegið vinstra megin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Skemmtileg rispa! kv. B

Baldur Kristjánsson, 18.3.2008 kl. 20:10

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Góður að vanda. Þú mættir alveg skrifa meira í héraðsfréttablaðið þar vantar góða penna.

Ein ábending, vitað var um einn krata í Hornafirði í þínum uppvexti, Suðursveit sem þá taldist til Austurlands var undirlögð af Alþýðubandalagsfólki og víðar um sveitir enda sérðu það að Alþýðubandalagið fékk hvorki fleiri né færri en 3 þingmenn í einum kosningum.

Þórbergur Torfason, 18.3.2008 kl. 21:10

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Alveg rétt Þórbergur, bara þið á Hala voruð heil herdeild. En í sveitum almennt séð var Framsókn sterkust.  Það var vissulega frábrugðið öðrum fjórðungum á þessum árum að yfir 30 prósent kaus Alþýðubandalagið á Austurlandi. Held að sá stuðningur hafi þó verið meiri í þéttbýlinu, þó að margir Framsóknarmenn í sveitum hafi orðið Vinstri grænir hin síðari ár.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.3.2008 kl. 21:38

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Satt að segja, lifi ég vongóður að íslensk náttúra fái að njóta meira sannmælis í framtíðinni en hingað til.

Á Hala býr enn heil herdeild sem ann íslenskri náttúru og styður heilshugar öll spor í átt til friðarsáttmála við náttúruna. Hún verður að njóta þess að vera "sköpunarverk" en ekki markaðsvara án takmarkana.

Skrif ykkar Hjalta í Eystra Horni komu alveg ótrúlegu lífi í Skaftfellinga. Líkt og gleðiloftið í konu í barnsnauð.

Þórbergur Torfason, 18.3.2008 kl. 22:28

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.3.2008 kl. 23:03

6 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég verð að hnykkja á því Gunnlaugur. Skoðanir okkar heimamanna eru úrslitavaldar þess sem koma skal.

Þar á ég við, það efast enginn lifandi maður um hollustu þína eða mína við náttúru okkar heimasveita. 

Þórbergur Torfason, 18.3.2008 kl. 23:39

7 identicon

nei, sko.  hér fann ég aldeilis fína bloggsíðu   bestu kveðjur í bæinn!

baun (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 09:16

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Til hamingju með afmælið - og þroskann

Hrönn Sigurðardóttir, 19.3.2008 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband