Að hindra mat á vilja þjóðar

Hindrun

Komið hefur fram í skoðanakönnunum að 2/3 hluti landsmanna vill aðildarviðræður við ESB og hefur sá vilji legið fyrir um nokkurra ára skeið. Aumt er hlutverk þeirra stjórnmálamanna sem torvelda og vinna gegn því að fólk fái valfrelsi um þessi mál. Það er ekki hægt að láta rétttrúnaðaröflin í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum hafa af okkur lýðræðið. Þjóðremban að vinna gegn þjóðinni.

Það eru einkum tvær tegundir af mótrökum. Önnur er sú sem að gengur út á þjóðerni og að við munum tapa sjálfstæði okkar með aðild. En ef Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna getur íhlutast um fiskveiðistjórn hér á landi, þá töpuðum við sjálfstæði með inngöngunni í SÞ árið 1946. Snýst spurningin frekar um að gangast undir alþjóðleg viðmið í samskiptum þjóða frekar en að meginmálið sé að við afsölum okkar sjálfstæði undir erlent vald?

Hin tegundin af rökum eru tilraunir til að að draga upp þá mynd af ESB að þar sé skrímsli sem að er ósveigjanlegt og Ísland yrði áhrifalaust innan.  Þegar Íslendingar dæma ESB er eðlilegt að þeir miði fyrst og fremst við reynsluna af EES samningnum. Hún er mjög góð, margvísleg jákvæð lagasetning sem tryggir réttarstöðu almennings, jákvæð samskipti við ESB og margvísleg tækifæri opnast tengd menntun og viðskiptum. 

Ályktun ungra framsóknarmanna gengur út á þjóðaratkvæði um aðildarviðræður. Persónulega finnst mér að Alþingi gæti ákveðið að fara í viðræður við ESB og trúi því að þar sé meirihluti fyrir slíku. Öll Samfylking, meirihluti Framsóknarþingmanna og sennilega um þriðjungur úr öðrum flokkum. Síðan færi samningur með kostum og göllum í þjóðaratkvæði. Hætta er á að þreyta kæmist í umræðuna ef kosið væri bæði um viðræður og aðild.


mbl.is Vilja aðildarviðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll Gunnlaugur.

Má hér greina einhvern ótta við dóm þjóðarinnar? Hér er um slíkt stórmál að ræða, sem m.a. krefst breytinga á stjórnarskrá, að það hlýtur einmitt að vera lýðræðislegast að spyrja þjóðina fyrst: vill hún að sótt verði um aðild að ESB eða vill hún það ekki! Stjórnmálamenn eiga að vera menn til að taka þeirri niðurstöðu á hvorn veg sem er og vinna út frá því í framhaldinu. 

Árni Þór Sigurðsson, 20.3.2008 kl. 20:00

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Komdu sæll Árni fyrrum göngufélagi

Breyta þarf stjórnarskrá ef þjóðin samþykkir samning um aðild. Sé ekki ástæðu til að hafa flókinn aðdraganda við þá ákvörðun að hefja viðræður og taldi nægjanlegt að Alþingi myndi ákveða slíkt. En ef kosið væri á morgun fengjust skýrar línur.

Það sem að ég var að hugsa um að væri óheppilegt að hafa einhverja langvinna kosningabaráttu um aðildarviðræður og svo aftur kosningabaráttu um hvort samþykkja ætti samninginn. Það gæti farið að verða eins og Baugsmálið, endalaust í fjölmiðlum án niðurstöðu.

Stjórnvöld verða að matreiða mál þannig að val standi milli skiljanlegra of skýrra valkosta, en ekki að fólk upplifi að á vissan hátt sé verið að spyrja sömu spurningarinnar tvisvar. Mbk.

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.3.2008 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband