29.3.2008 | 22:52
Tími sáttagjörða
Ein helsta ástæða þess að "andstæðingarnir" í litrófi íslenskra stjórnmála mynduðu ríkisstjórn var sterkur meirihluti. En stjórnarmyndun var fylgt úr hlaði undir því fyrirheiti að leita sátta um farsælar leiðir við stjórn landsmála. Nú er ljóst að gengið hefur verið glæfralega fram í fjármálum síðustu ár, einstaklingar, heimili og fyrirtæki. Skuldir Íslendinga eru svimandi háar, þó ríkissjóður sé að mestu skuldlaus, enda búin að selja margar af bestu mjólkurkúnum, bankana og símann.
Stjórnvöld síðustu áratuga geta þó ekki annað en borið ábyrgð á græðgisvæðingunni í landinnu. Því stingur það mjög í stúf að heyra Davíð Oddsson tala til landsmanna með þeim hætti að honum komi þetta á óvart og eigi ekki hlut að máli. Neyslan, þenslan, eyðslan og græðgin er skilgetið afkvæmi frjálshyggjustefnu fyrrverandi forsætisráðherra. Nú kemur síðan fram að þessi mikla velmegun sem hann státaði af að innleiða hér á landi var meira og minna loftbóla byggð á hömlulausum erlendum lántökum og viðskiptahalla.
Stjórnarandstaðan talar um "slappa" og "ónýta" ríkisstjórn. En trúlega skynja flestir að það er ekki rétti tíminn fyrir sundrungu pólitískra víga og við verðum sameiginlega að benda á leiðir út úr vanda. Hver og einn verður að draga úr sóun og þess vegna er eðli vandans ekki austur á Kárahnjúkum eins og formaður Vinstri grænna hélt fram í kvöldfréttum. Við höfum eytt um efni fram. Stefnum á að kaupa örlítið færri jólaseríur fyrir næstu jól.
Ágætt og upplýsandi viðtal er við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í 24 stundum í dag. Hann bendir á að verkfæri Seðlabankans hafa engu skilað. Vextir eru komnir upp í 15% til að reyna að láta þá hafa áhrif, en einmitt með þeim hætti erum við að skipa okkur í flokk með löndum með mjög óþróað fjármálaumhverfi og undirstrika þann ótta sem erlendar lánastofnanir hafa haft um stefnuna hér á landi í peningamálum.
Í Evrópumálum er þessi fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins á svipuðu róli og forveri hans hjá VSÍ og fyrrum forsætisráðherra Þorsteinn Pálsson. Þessir menn þekkja betur en margir hið alþjóðlega fjármálaumhverfi. Talsmaður atvinnulífsins telur að peningastefnan hafi dregið úr tiltrú á gjaldmiðlinum og segir að eftir "því sem núverandi ástand varir lengur verður evran sífellt meira aðlaðandi kostur í huga almennings og fyrirtækja".
Vilhjálmur hefur mjög jákvæða afstöðu gagnvart ESB sem slíku, en efast um fjárhagslegan ávinning fyrir utan það er lítur að myntbandalaginu. Hann virðist því ekki reikna dæmið út á sama hátt og Eiríkur Bergmann og félagi hans gerðu í nýlegu riti og komust að þeirri niðurstöðu að efnahagslegur ávinningur af aðild væri mjög mikill. Hef ekki séð neinn draga í efa útreikninga þeirra. Ljóst er þó að engin getur reiknað slíkt fyrr en samningsdrög liggja fyrir í framhaldi af aðildarviðræðum.
Ríkisstjórnin verður á næstu misserum að koma inn sem sterkari kórstjóri og stilla af hina mismunandi tóna og hagsmuni. Hlusta og taka afstöðu, örva umræður og framkvæmdir. Hjálpum ríkisstjórninni, enda berum við mikla ábyrgð á ástandinu. Það eru ekki aðrir klárar sterkari til að bera trússið heldur en núverandi stjórnarflokkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.3.2008 kl. 09:09 | Facebook
Athugasemdir
Ég hlustaði á ræður þriggja hagfræðinga í dag um efnahagsmál og aðgerðir Seðlabankans í ríkisfjármálum. Öllum bar saman um að það hefði verið hárrétt af Seðlabankanum að hækka stýrivexti. Bankinn hefði jafnvel hækkað þá of lítið. Það sem hins vegar þyrfti að gera væri að auka trúverðugleika íslenskra banka á erlendri grund með því m.a. að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Gjaldeyrisforðinn væri það lítill að ekki væri trúverðugt að Seðlabankinn gæti varið bankana falli. Mikilvægt væri því fyrir Seðlabankann að fá erlenda banka til að gangast í ábyrgðir með sér til að efla trú erlendra fjárfesta á íslensku efnahagslífi. Ástæður efnahagshruns ættu fyrst og fremst uppruna í því hruni sem orðið hefur í Bandaríkjunum. Sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta ásamt mörgu öðru sögðu Friðrik Már hjá HR, Edda Rós hjá Landsbankanum og Ólafur Darri hjá ASÍ.
Sigrún P (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 19:09
Sala á bönkum og öðrum rískisfyrirtækjum er ekki ólíkt því þegar bóndi hleypir beljum úr fjósi að vori, það er ekki spurning um hvort að frelsið borgi sig, þetta er frekar spurning um þær afleiðingar sem að langavarndi höft hafa á nytjar og jafnvægi í búskap. Ég tel ekki rétt að kalla Davíð og aðra mæta talsmenn frelsis til ábyrgðar á græðgisvæðingu þjóðarinnar. Ef að siðferðisvitund þjóðarinnar er ábótavant, þá er það ekki vegna þess frelsis sem að við búum við í dag, það er vegna þess að siðferðisvitundinni var ábótavant fyrir og frelsið hefur opinberað veikleika okkar.
Veikleikinn er okkar allra rétt eins og táknmyndin sem þú ert með hér á síðunni undirstrikar eða „ buy nothing day“, neysla okkar er taumlaus og hungur óseðjandi án svengdar. Því skal ætla að þetta enduspegli sig allt frá okkur sem kaupum óþarfa hluti upp í þá sem versla með gífurlega fjármuni til ávöxtunar. Það er nokkuð ljóst með grein þinni þá ert þú hreinræktaður talsmaður ESB og upptöku evrunnar, með inngöngu í ESB ættu flest okkar vandamál að leysast og síðan geta allir lifað hamingjusamlega eftir það!? Eða hvað ?
Ég spyr, ef að við íslendingar göngum í ESB, verðum við þá hófstilltari í fjárfestingum og framkvæmdum ?. Verðum við hófstilltari í neyslu og lántöku ?.... ég dreg það í efa.... hvernig er staðan í t.d. Þýskalandi, hvernig er atvinnuástand og staða hins almenna manns ?... er hún betri en hjá okkur íslendingum í dag ?...... hvernig verður staðan þegar frjálst flæði vinnuafls verður í algleymingi og sérstaklega tekið tillit til þess mikla atvinnuleysis sem er innan ESB ?.... verður það til að styrkja stöðu okkar í efnahagslegu tilliti og félagslegu? Ég bara spyr ?
Eitt er að hafa aumann gjaldmiðil í ólgusjó álþjóða efnahags og annað að reyna að reka alþjóða fyrirtæki innan hagkerfið byggt á slíkum gjaldmiðli.... en erum við sem íslendingar tilbúnir að gefa eftir það fullveldi sem gerir okkur að því sem við erum í dag einungis vegna þess að við getum ekki tekið á þeim bresti í þjóðarsál okkar sem að við verðum hvort eð er að taka á, hvort sem við verðum ESB eða ekki og það er að komast yfir nýríka komplexinn og neyslugræðgina sem er að tröllríða okkur ? Er ekki málið að taka á okkur sjálfum áður en að við leitum lausna í bandalagi sem er í sjálfu sér er að glíma við sömu vandamál en á mun erfiðari grunni.... Myntbandalag gæti verið góð lausn ef fær er.... en fullveldisafsal eftir aðein 56 ára fullveldi er aðeins of aumt fyrir minn smekk.
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 23:32
Góður pistill Ólafur
Ég held að Davíð hafi átt að vita það að ota lánsfé og hvetja almenning til þess að eltast við gullkálfinn undir merkjum góðæris gæti endað með því að lætin í kvígunni skiluðu henni út í skurði. Þannig að mér fannst hann svolítill oflátungur að bregðast við eins og honum hafi komið þetta á óvart.
Ég held að það sé stærsti misskilningur Evrópu umræðunnar að við töpum sjálfstæði. Held reyndar að síðastu öld megi skipta í tvö tímabil. Fyrri hluti aldarinnar fram að 1945 einkenndist af sjálfstæðisbaráttu og að fá að ráða okkar innri málefnum landsins. Síðan hefur seinni hluti aldarinnar frá 1946 með inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar og til okkar daga verið að festa lýðréttindi okkar sem einstaklingar.
Heimsstyrjaldir, vandamál milli þjóða og alþjóðavæðing hafa gefið af sér stofnanir sem að er ætlað að tryggja samvinnu og grundvallarréttindi einstaklinga ofar þjóðríkinu. Þannig þurfum við klárlega á heilbrigðu stjórnkerfi að halda í Mosfellsbæ, á Íslandi, milli Norðurlönda. innan Evrópu og alls heimsins. Þetta eru nokkur lög valdsins þar sem tækifæri og frelsi einstaklingsins byggja á því að þau séu að virka og skyggi ekki hvert á annað.
Gjaldmiðillinn er eins og korktappi, innlendu fyrirtækin og bankarnir geta stillt af gengið eins og þeim hentar hverju sinni. Áður voru það ríkisstjórnir sem léku sér með það eftir því hvort þorkur og loðna veiddust lítið eða mikið. Nú eru það bankarnir. Bæði er vont fyrir heimili, fyrirtæki og aðra sem vilja gera langtímaplön. Þessar miklu sveiflur sveifla hugarfarinu frá því að vera ein ríkasta þjóð heims um það bil að eignast hálfan heiminn í þá stöðu að vera skuldugasta þjóð heims á barmi örvæntingar.
Þannig mun aðild að Evru tryggja stöðugleika að því leyti að við þurfum að laga okkur að gjaldmiðlinum, en höfum ekki möguleika á að færa hann upp og niður eftir því hvernig fiskast hjá útgerð eða bönkum. Þá fer að ríkja ástand í landinu að það verður hægt að gera áætlanir, möguleikar að byggja upp iðnað. Ná okkur af stigi frumframleiðslu inn í tækni- og iðnaðarsamfélag. Stöðugra menningarástnd. Þá hætta menn að halda að lífið snúist um að eignast þriðja flatskjáinn.
Það eru klárlega kostir að vera í ESB sem virkur þátttakandi. Mér finnst að það eigi að fylgja eftir vilja þjóðarinnar, tæplega 70%, sem vilja fara af stað með aðildarviðræður við ESB. Síðan er samningur borinn undir þjóðina.
Gunnlaugur B Ólafsson, 31.3.2008 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.