10.5.2008 | 00:21
Ný stjórn Varmársamtakanna
Í gærkvöldi var haldinn sérlega vel heppnaður framhalds aðalfundur Varmársamtakanna. Hann hófst á kynningu arkitekta frá Batteríinu arkitektastofu, sem hafa unnið að miðbæjarskipulagi Mosfellsbæjar. Um hugmyndirnar mynduðust frjóar umræður. Arkitektar og fundargestir voru sammála um mikilvægi slíkra opinna samskipta í leit að bestu lausnum. Það má ekki vera búið að hníta alla hnúta svo að íbúarnir geti ekki haft áhrif. Þannig að þeir standi frammi fyrir orðnum hlut. Þá verður miðbærinn ekki sá miðpunktur mannlífs sem hann á að vera.
Fyrsta tilfinning mín er að þarna sé verið að prjóna í kringum hagsmuni og hús sem eru til staðar og út úr því komi mátulega spennandi heild. Mikilvægt er að hafa þor til að vera djarfari í hugmyndavinnunni og hugsanlega kaupa upp og fjarlægja eitthvað af þeim húsum sem að nú eru í miðbænum. En það er erfitt fyrir einstakling út í bæ að matreiða betri lausnir. Það ætti að vera meginviðmið að bjóða upp á nokkra valmöguleika til kynningar. Þær forsendur sem að bæjarstjórn virðist hafa gefið arkitektastofunni eru það niðurnjörfaðar að út úr vinnu fagfólksins kemur ekki nógu mikið af spennandi hugmyndum.
Ný stjórn Varmársamtakanna var kosin á fundinum, en í henni sitja Sigrún Pálsdóttir og Gunnlaugur Ólafsson áfram úr fyrri stjórn, en ný koma í stjórn Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson og Páll Kristjánsson. Varamenn eru Kristín Pálsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Fundarmenn voru á fjórða tuginn sem að verður að teljast gott miðað við það öldurót og andstrymi sem samtökin hafa mátt búa við. Mikill samhugur, eindrægni og ánægja ríkti á fundinum. Mikilvægt er fyrir samtökin að vera áfram kröftug rödd umhverfisverndar og íbúalýðræðis.
Þau eiga án efa eftir að vera mótandi afl í hefðum og mannlífi Mosfellsbæjar. Fjölbreytileg verkefni og hópastarf eru framundan á vegum samtakanna. Ánægjulegt er að fá sem flesta til þátttöku í þessum opna og lýðræðislega vettvangi umræðu. Kærleikurinn, flæðið, vitundin og virðingin fyrir verðmætum mun sigra að lokum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.