Íhaldið einangrast

Flokksræði ofar þjóðarvilja er útfærsla á stefnu Sjálfstæðisflokksins samkvæmt púlsmælingu í Valhöll í gærkvöldi. Áður hefur formaður Framsóknarflokksins lýst yfir þeirri skoðun að póstkosning meðal félagsmanna væri æskileg leið til að kanna hug þeirra til aðildarviðræðna. Félagsmenn móti stefnuna. Komið hefur fram að 2/3 hluti þjóðarinnar vill hefja aðildarviðræður við ESB og þar er hlutfall flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum jafnvel hærra heldur en stuðningsmanna annarra flokka.

FálkiEinn öflugasti talsmaður Valhallarlínunnar í flokksræði er Hjörtur J. Guðmundsson sem hefur einstaklega lítið þol fyrir breytileika í skoðunum eða skilning á því að láta lýðræðislegt ferli ákvarða vegferð okkar í Evrópumálum. Setti inn athugasemd hjá honum fyrir nokkru síðan þar sem að hann hafði verið að tengja ESB við myrkur miðalda og í löngum orðum tengt slíka aðild við glatað sjálfstæði og ítrekað að málið væri ekki á dagskrá. "Vissulega eruð þið einangrunarsinnar ef þið standið í vegi fyrir slíku vali. Má ekki undirbúa samning um aðild og leyfa þjóðinni að kjósa? Er frelsið í þínum skilningi fólgið í því að miðaldasérfræðingar og heimsendaspámenn eigi að taka þetta val af fólkinu?"

Eftir þessa athugasemd lokaði hann á að ég gæti gert athugasemdir við skrif hans. Nú í dag er hann að berja járnið og flokksagann. Því fylgir yfirlýsing um einangrun og útskúfun Þorgerðar Katrínar þ.s. hún er með viðsjárverðar hugmyndir um að leyfa þjóðinni að ákveða hvort farið er af stað í aðildarviðræður. Ofurfálkarnir sem ætla sér að hafa vit fyrir þjóð og flokksmönnum einangrast hratt þessa dagana. 


mbl.is Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þor-gerður ber nafn með rentu, hún sýnir mikið persónulegt og pólitískt hugrekki með ummælum sínum, þvert á flokkslínur.  Ég hef persónulega ávallt haft mikla trú á henni sem manneskju og stjórnmálamanni, hugsjónakona sem þorir.

Umræðan um Evrópusambandið verður að færast inn í opinbera umræðu sem fyrst, ég er t.d. ekki sannfærður um að það þjóni betri hagsmunum okkar að sækja um aðild, en sú skoðun helgast af fáfræði minni á því hvað aðild í raun og veru felur í sér.  Umræðan og aðildarviðræður gera okkur kleift að móta málefnalega og ábyrga skoðun á því hvað er okkur fyrir bestu, hvert sem það svo síðan leiðir okkur.  því fagna ég yfirlýsingu Þor-gerðar, engin mús þar á ferðinni.

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 13:33

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll Ólafur

Það er auðvitað sérstakt að það sé til flokkur þar sem þarf þor og dug til þess að lýsa yfir því að það þurfi að taka tillit til endurtekinna mælinga upp á 70% þjóðarvilja um aðiladarviðræður. Já, hún er greinilega maður, en ekki mús. Mýsnar þora ekki í opna umræðu. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.5.2008 kl. 16:22

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Rétt hjá þér Jón Frímann, það er skondið að lesa núna ýmislegt sem var sagt um alla þá skelfingu sem tæki við ef við gerðumst aðilar að EES. Ef þessir aðilar væru sjálfum sér samkvæmir þá ættum við að segja upp öllum alþjóðlegum skuldbndingum. T.d. er samningurinn um réttindi barna eða Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hrein og klár móðgun við minningu Jóns Sigurðssonar!

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.5.2008 kl. 01:17

4 identicon

Sæll Gunnlaugur.

Ágæt grein hjá þér og yfirskriftin íhaldið einangrast er afar lýsandi.

Sem Sjálfstæðismaður frá blautu barnsbeini þá finn ég samt þörf hjá mér að bæta nokkrum orðum því ekki vil ég samþykkja að flokkurinn sá sé einungis "íhald".

Geir Haarde og eða Hjörtur Guðmundsson mega svo sannarlega hafa sína skoðun og halda henni á lofti með þeim ráðum sem þeir telja hæfa. Það er hins vegar óþolandi frekja og ólýðræðislegt með öllu að leggja steina í götu þeirra sem hafa aðra skoðun og eða vilja að að tekin sé upp opin og upplýst umræða um ESB aðild. 

Þorgerður Katrín sýnir hins vegar bæði hugrekki og leiðtogahæfileika sem sjálfstæðismenn í öllum flokkum kunna að meta. Munurinn á henni og Geir er sá að hinn síðarnefndi er þessa dagana eins og strútur með höfuð i sandi meðan Þorgerður svífur yfir líkt og stæltur fálki í leit að tækifærum.

Að sjálfsögðu er hún búinn að mynda sér skoðun á ESB, og hún er sú að þar eigum við ekki heima í bráð. En þó svo að þetta sé hennar skoðun þá hefur hún eins og fyrr segir þá eiginleika alvöru leiðtoga að halda opnum dyrum fyrir öðrum möguleikum.

Segja má að einangrun íhaldsmanna í flestum stjórnmálaflokkum sé hafin. Það mikla fylgi sem kemur fram varðandi ESB aðild í hverri skoðanakönnun á fætur annarri er að mínu mati ekki endilega ávísun á að allir vilji þar inn heldur, almenningur á Íslandi vill fá að tjá sig. Ekki bara í prófkjörum eða kosningum, heldur beint! Þegar Geir Haarde segir "ekki á dagskrá" þá eykst bara áhugi fólks enn meira. Fólk er nefnilega ekki fífl þó svo að sumir stjórnmálamenn og spunakoppar virðist halda eða vona að svo sé. 

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 16:31

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir ágæta athugasemd Jóhann. Það er rétt fólk er ekki fífl og það á ekki að ganga út frá því að það sé það, heldur eiga stjórnmálamenn að matreiða möguleika sem kosið er um í staðinn fyrir að spilla fyrir lýðræðinu eins og því miður virðist felast í áherslum Björns Bjarnasonar og Geirs Harde.  Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 21.5.2008 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband