7.10.2008 | 10:59
Öflugur áætlanabúskapur
Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við meiri hremmingum íslensks fjármálamarkaðar en nokkurn gat órað fyrir hafa verið fumlausar og til fyrirmyndar. Standa vörð um sparífé, störf og heimili í landinu. Lagasetningin í gær, að frysta gengi krónunnar og rússneska lánið til að tryggja gjaldeyrisforðann eru allt þættir sem stuðla munu að því að hjólin halda áfram að snúast.
Staðan sem upp er komin gefur fullt tilefni til skoðunar hvers og eins á sínu gidismati og þátttöku í veislunni sem verið hefur síðustu ár. Græðgi og sóun eru aldrei gott vegarnesti. Þetta var í raun löngu fyrirséð. Við höfum flest ef ekki öll verið í partýinu. Létum sannfærast um að lífsorkunni væri helst ætlað að fara í eltingarleik við gullkálfa og gylliboð.
Naflaskoðunin getur gefið af sér nýja og betri tíma sem byggðir eru á jafnvægi og meiri yfirvegun. Í stað þess að dæla fimm þúsund króna seðlum í börnin okkar á fermingum og afmælum, þá förum við ef til vill að láta gjafirnar hafa persónulega merkingu og gildi. Heyrði svo í morgunsárið að Skógræktarfélagið er á svipuðum nótum. Er að fara af stað með námskeið í handunnum gjöfum.
Til að ná sér út úr vandanum þarf samstillt átak. Öflugan áætlanabúskap næstu árin. Síðan taka við tímar jafnvægis milli einstaklingsfrelsis og opinberra umsvifa í anda rómantískrar og skapandi jafnaðarstefnu. Stjórnmálakreddur mega aldrei verða að slíkum trúarsetningum að forystumenn í þjóðlífi nýti ekki skynfærin til að sigla bestu siglingaleiðir.
Nú hefur gullkálfurinn verið tjóðraður og verður næstu árin undir merkjum öflugs áætlanabúskapar til að "bjarga því sem bjargað verður". Við þurfum að halda vel á spöðunum til að geta staðið við skuldbindingar. Það er spurning hvort að við þurfum ekki að setja aftur upp verksmiðjurnar í gamla Álafosshúsinu. Fyrir teppin fengust olía og bílar. Hvað sendum við nú fyrir Rússagullið? Þá fimm ára áætlun þarf að skipuleggja.
Gengi krónu fest tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.