9.12.2008 | 09:05
Byrjum að meðmæla og hættum að mótmæla
Eitt grundvallaratriði atferlisvísinda er að reiði og refsing eru lamandi á alla virkni og sköpun, á meðan umbun og ánægja geta dregið fram það sem að er eftirtektarvert og æskilegt. Það vex og dafnar sem við beinum athyglinni að. Ótrúlega margir bloggarar hvetja til hömluleysis í mótmælum og jafnvel eru alþingismenn orðnir það meðvirkir að þeir blessa það að vinnustaður þeirra og hornsteinn lýðræðisins sé grýttur af börnum og unglingum.
Hegðun ungmennana í þinghúsinu í gær kallar á fjölskyldufundi með þessum krökkum. Farið verði yfir það með þeim hvað þau vilja fá út úr lífinu. Vandamál þeirra er ekki "focking ríkisstjórnin". Þau geta ekki bent á aðra um að axla ábyrgð. Við þurfum að byrja hjá hverju okkar og skoða það sem við viljum breyta á Nýja Íslandi. Hvar liggja draumar okkar og þrár? Látum ekki sjálfseyðingarhvötina verða drifkraft í samfélaginu. Látum ekki hugtakið lýðræði hætta að hafa inntak og merkingu vegna þess að stefnulaust æsingafólk, lýður, hefur eignað sér það.
Njótum helgi og friðar á næstu vikum. Stígum svo á stokk og gerum árámótaheit. Framundan eru spennandi tímar, mikil gróska og endurmat. Það er mikið hugmyndaauðgi hvernig hver og einn getur eflt sig sem einstakling. Þar liggur byrjunin. Aukin sjálfstjórn, atorka og líkamsvitund. Þó að mest sé talað um skáldsögur í jólabókaflóðinu og glæpasagnahöfundar spretti upp eins og gorkúlur þá eru líka til margar bækur sem efla heiðríkju hugans. Ein fegursta bókin sem kemur út fyrir þessi jól er Ferðalagið að kjarna sjálfsins eftir Maxine Gaudio. Mæli með henni.
Mælir þú með einhverju sem væri til góðs fyrir einstaklinga og komandi kynslóðir Nýja Íslands?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Facebook
Athugasemdir
Ég mæli með því að skipt verði um ríkisstjórn.
Sigurður Þórðarson, 9.12.2008 kl. 12:44
Ég mæli með vitsmunalegum aðgerðum (aktivisma) eins og þegar Snorri Ásmundsson afhenti Geir Haarde tilbúið (bara eftir að undirrita) uppsagnarbréf til Davíðs Oddssonar.
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.12.2008 kl. 12:59
Ofbeldi elur af sér ofbeldi. Vonandi læra þessir krakkar það af reynslunni. Ég mæli með því að menn láti sjást í andlitið á sér og gangi ekki um eins og villidýr.
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.12.2008 kl. 14:21
Ég mæli með að þessi óskemmda unga kynslóð gefi kost á sér í næstu kosningum. Það væri lýðræði, reyndar líka smá kjaftæði til að útskýra hverju þeir vilja breyta.
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.12.2008 kl. 15:24
Sæll Gulli. Ég mæli með því að fólk slaki bara á, reyni að vera uppbyggjandi og raunsætt í viðhorfum. Komi skoðunum sínum á framfæri án þess að hindra störf stjórnvalda. Það lagar ekkert að skipta um stjórn núna. Þá taka bara einhverjir við sem segja "Þetta er ekki mér að kenna, það var allt í rugli þegar ég kom hingað".
Þorsteinn Sverrisson, 9.12.2008 kl. 16:42
Innlegg þessa "kreppukarls" státa nú ekki beinlínis af rökfærslum.
En ég leit nú hér inn til þess að mæla með ágætu framtaki Sivjar Friðleifsdóttur sem knýr á um svör við hennar ágengu spurningum vegna Icesave-málsins (hún var að því í viðtali á Bylgjunni áðan og á einhverri stöð í gær – og á þingfundi, unz ólátabelgirnir trufluðu þar þingstörfin). Við þurfum að fá svör við þeirri fyrirspurn.
Jón Valur Jensson, 9.12.2008 kl. 17:56
Mér finnst afar jákvætt að Japanir séu búnir að veita innflutningsleyfi fyrir hvalkjöt.
Ég mæli með að sjávarútvegsráðherra gefi út kvóta og nokkrir góðir kokkar gefi út uppskriftir fyrir hvalkjöt.
Sigurður Þórðarson, 9.12.2008 kl. 19:02
Það var náttúrulega snilld að afhenda Geir uppsagnarbréf til Davíðs.
En ég held a.m.k að mótmælendur ættu að vera með sundgleraugu til að verjast piparúðanum.
Svo held ég að það væri þroskandi fyrir hvert mansbarn að vera ekki skráð í trúfélag við fæðingu. Fá frekar að læra um öll trúarbrögð og velja sér svo sjálfur eftir því hvað hentar best.
Diesel, 9.12.2008 kl. 19:25
Vá, ég er sammála einhverju sem JVJ segir.
?
áfram Ísland ohf
Diesel, 9.12.2008 kl. 19:30
Takk fyrir gott innlegg. Ég er sammála því að fólk á ekki að dvelja í vandanum heldur leitast við að lifa í lausninni. Ekki veit ég hver hún er, en með réttu hugarfari laðar maður að sér gott fólk.
Samstaða öll fimmtudagskvöld á Austurvelli kl 20.
Kveikt á friðarkerti og allir sem mæta fá knús og þakkir fyrir samstöðuna. Engar ræður, ekkert vesen. Bara samstaða :)
Kveðja, H
Haukur Baukur, 9.12.2008 kl. 21:18
Ég mæli með því að ríkisstjórnin taki sér launalaust frí fram yfir jól - árið 2050, að minnsta kosti...!
Gunnar (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 00:21
Sæll Gunnlaugur,
ég veit ekki hvort þú ert í sambandi við raunveruleikann eða óskhyggju einhvers yoga tiltrúar. Málið er nokkuð einfalt hjá mér.
Ég átti liðlega hálft einbýlishús sem ég hugðis breyta li litla skuldlausa eign þar sem ég og konan gætum notið hvors annars síðari hluta æviskeiðs okkar. Það var lífeyririnn okkar. Þar ætluðum við að koma börnum okkar áfram inn í íslenkst þjóðfélag og gera þau endanlega að góðum og gildum þjóðfélagsþegnum og skattgreiðendum. Þar að auki ætluðum við að sinna barnabörnunum og koma þeim á svipaðan stað, þ.e. góðum og gildum skattgreiðendum. Ertu hissa að við séum ekki hress með ástand mála?
Lífeyrissjóðirnir sem við greiddum í hafa spilað eignir okkar frá okkur, sennilega um 40-50% og síðan á verðtryggingin að éta húsið okkar líka. Ertu hissa að við séum ekki hress með ástand mála?
Ég er fæddur 1958. Fyrsta sumarfríið tók ég 1987. Síðan 1990, 2000, 2002 en síðan bara 2 vikur á ári síðan þá. Við hjónin höfum unnið og unnið og safnað til að eiga til elliáranna.Ertu hissa að við séum ekki hress með ástand mála.
Að sjálfsögðu viljum við að fólk mótmæli. Allt sem við höfum gert í góðri trú er orðið að engu. Ég finn enga þörf fyrir að halla mér aftur í stólnum og njóta friðar eins og þú mælir með. Það er enginn friður í samfélagi voru. Andstæð öfl takast á núna. Hluti þjóðarinnar vill opið og gegnsætt þjóðfélag, og réttlæti. Því er fólk að rífa kjaft. Þú vilt þöggun og að við lúllum fyrir framan flatskjáin meðan Ingibjörg rúllar okkur inn í ESB. Sorry, við ætlum ekki að þegja.Gunnar Skúli Ármannsson, 10.12.2008 kl. 00:31
Sæll Gunnar - Sá á síðunni þinni að þú ert læknir. Mitt áhugasvið og að hluta starf til margra ára er tengt heilsu og lífstíl. Tók fyrst sálfræðina og svo líffræðina. Fór svo á Fulbright styrk til Bandaríkjanna að stúdera atferlisþætti tengda hjartasjúkdómum. Var komin af stað með doktorsverkefni um Metabolic syndrome, en ákvað að geyma að ljúka því fyrr en ég væri búin að ná viðunandi árangri í lífsgæðakapphlaupinu. En það dregst trúlega því að sjálfsögðu er ég á sama báti og þú að hús í mosfellsbæ sem að fyrir þremur mánuðum reiknaðist að væri helmingseign okkar er samkvæmt tölunum núna að litlu leyti í okkar eign.
Mér finnst samt engin ástæða til að örvænta. Eignarhlutfall mitt getur gengið til baka. Auk þess eru til einhverjar 2-3 þúsund auðar íbúðir á Reykjavíkursvæðinu. Þannig að okkur mun ekki skorta húsnæði hér á landi næsta áratuginn eða að það verði dýr þáttur í heimilisrekstri. Ég geri ráð fyrir að þú sérst annað hvort Vinstri grænn eða Frjálslyndur. Finnst þér í einlægni að þeir standi klárir með lausnir ef þeir tækju við stjórnartaumunum á morgun? Afhverju beinist reiðin ekki að útrásarvíkingunum?
Rannsóknir hafa endurtekið sýnt að félagsleg staða hefur tengsl við heilsufar. Þar er oftast mældar launatekjur, menntun eða aðstæður í uppvexti. Síðan sá ég eina Nýsjálenska rannsókn þar sem fólk fyllti út spurningalista um upplifun á skorti (deprivation index) óháð öllum veraldlegum gæðum. Eftir tiltekinn tíma (hvort það voru 20 ár) reyndist skortskalinn vera eitt helsta spágildi um lífslíkur. Þannig að skortur er fyrst og fremst hugarástand. Ástandið er nákvæmlega eins og það á að vera eftir eltingarleik flestra við gullkálfa, en okkur á að hlakka til að breyta þjóðfélaginu til betri vegar.
Góðar og ríkulegar stundir
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.12.2008 kl. 01:12
Hafþór frábært að þú virðist vita að hverju þú ert að leita og hefur fundið flokk sem ber af öðrum. Þér er velkomið að deila því með okkur. Það gæti verið mikilvægt innlegg svo við vitum hvernig við komumst hjá því að fara "undir hafsbotninn". En veit ekki hvort þú getur útilokað þriðjung þjóðarinnar frá því að vera með í að móta umhverfi sitt og framtíð.
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.12.2008 kl. 09:18
Sæll Gunnlaugur,
takk fyrir svarið. Ég er núna að hefja doktorsnám samfara vinnu. Ég vildi fyrst koma krökkunum á legg. Á engan flatskjá né slíkt glingur.
Hvernig getur eignahlutfallið gengið til baka þegar verðtryggingin leggst á höfuðstól lánsins og er þar um aldur og æfi. Farðu inn á heimasíðu íbúðalánasjóðs og notaðu reiknivél þeirra til að komast að því hvenær þú verður eignalaus miðað við mismunandi verðbólgu.
Skemmtileg niðurstaða hjá þér um pólitíska skoðanir mínar. Ég er mágur hans Sigurjóns og er í FF. Aftur á móti er mikil vantrú hjá mörgum á gömlu flokkunum og allt mögulegt í stöðunni.
Að minnsta kosti höldum við áfram að mótmæla.
Gunnar Skúli Ármannsson, 10.12.2008 kl. 15:10
Blessaður Gunnlaugur
Öðruvísi mér áður brá. Varst það ekki þú Gunnlaugur minn sem vars með klippurnar á lofti um árið þegar þú mótmæltir því sem á þér brann? Það teljast varla friðsöm mótmæli eða hvað? Stundum verður mönnum heitt í hamsi þegar þeim finnst á sér brotið ekki satt? Við skulum ekki setja öðru fólki viðmið sem við förum ekki eftir sjálf.
Kristinn
Kristinn A. Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 01:30
Ég er ekki að ætla neinum andleysi eða að það að vera aktivisti sé neikvætt í sjálfu sér. Síður en svo. Ég vil sem mest íbúalýðræði. Þetta var hinsvegar hópur hettuklæddra ungmenna að reyna að hindra ríkisstjórnarfund og hafði áður gert árás á störf Alþingis eins og hryðjuverkafólk. Þau voru ekki að benda á neitt sérstakt sem að mætti betur fara í landinu. Bara hróp og köll; "Lýðræði ekkert kjaftæði". Álengdar stóð Drífa Snædal sem að er framkvæmdastjóri í flokki sem vill ekki einu sinni leyfa félagsmönnum ákveða stefnu flokksins í Evrópumálum. Því ætti þessi hópur að byrja á að efla lýðræðisástina á heimavelli.
Varðandi aðgerðir í Álafosskvos þá vorum við ekki að hrópa niður með "focking bæjarstjórnina". Við höfðum mælt með annarri leið að væntanlegu nýju hverfi. Höfðum eytt 500 þús. kr í tillögugerð. Umræddan dag fyrsta virka dag eftir alþingiskosningar þá byrjuðu vélarnar að rífa upp skóginn án þess að það væri til neitt skipulag. Verið var að vinna að "lagnavegi" hét það. Við vorum niður í bæ á fundi vegna vinnu við umhverfisskýrslu, þar sem meðal annars átti að bera saman möguleika við lagningu tengibrautar. Samið hafði verið við Varmársamtökin fyrir kosningar að draga til baka kæru því að það voru gefin fyrirheit um vönduð og opin vinnubrögð.
Þennan fyrsta dag eftir kosningar átti sem sagt að keyra yfir öllþessi fyrirheit og hefja framkvæmdir án deiliskipulags. Stærstu trukkar og gröfur voru byrjaðar að fjarlægja trén. Búið að setja upp grindverk og gaddavír. Um tuttugu manns stóðu fyrir utan eins og þau væru fangelsuð og þyrftu að horfa aðgerðalaus upp á þessa misnotkun. Minn táknræni gjörningur (var ekki reiður) var að klippa gaddavírinn og fella grindverkið. Hleypa fólkinu inn á svæðið.
Tryggja aðkomu fólksins er hornsteinn íbúalýðræðis, sem að er auk umhverfisáherslu önnur meginstoð Varmársamtakanna. Reyndar líka á stefnuskrá VG þó þeir hafi ákveðið að beita stórvirkum vinnuvélum gegn fólkinu, þennan umrædda dag í Mosfellsbæ.
Best að halda áfram með prófbunkann - Kær kveðja, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 14.12.2008 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.