Meinsemd

Forystumenn stjórnarflokkana glíma báðir við veikindi ofan á alla aðra óvissu. Það er merkilegt að sjá hversu dýrslega eiginleika sumir forvígismenn mótmæla hafa sýnt í umfjöllun sinni um veikindin. Fjölmörg dæmi eru úr sögunni um að blind samsömun við hópsálina hefur gefið af sér hina óæðri eiginleika mannsins. Þegar stríðsmaskínan er komin í gang er ekki svigrúm fyrir samúð. Þegar að menn eru hættir að heyra og sjá. Ég var fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð Harðar Torfasonar yfir veikindum Geirs H Haarde og einnig skrifum Heiðu B Heiðars og fleiri vegna veikinda Ingibjargar Sólrúnar.

Þetta skrifa ég þó hugur minn vilji miklar breytingar og lýðræði. Hreinsa burt alla smákónga og spillingu sem að flokksappiröt hafa komið fyrir í efnahagslífi og stjórnsýslu. Þó Hannes Hólmsteinn skrifi í Fréttablað dagsins úr fílabeinsturni með því að gera lítið úr þunga mótmælana og óánægju almennings, þá er þar einn punktur sem ég er honum sammála um. Það er aðdáun á því hvernig pólitískir andstæðingar í Bandaríkjunum sína hver öðrum virðingu. Þannig faðmaði Obama hinn nýi forseti Bush að sér eftir innsetningu í vikunni. Þetta er þroskamerki lýðræðis.

Því miður fyrir Steingrím J Sigfússon þá held ég að hann verði ekki annað og meira en fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Maður sem samþykkti og studdi eftirlaunafrumvarp, ásamt því að styðja kvótakerfið með ráðum og dáð. Það er því mikilvægt að endurnýjun eigi sér stað í forystu VG eins og verður trúlega hjá flestum öðrum. Vert er að hafa í huga að sterkasta krafan er að láta af flokksveldi og innleiða lýðræði. Þó framkvæmdastjóri VG væri á hliðarlínunni við aðgerðir við Ráðherrabústaðinn og þó að þingkonur VG hafi ákveðið að stilla sér upp með fólki sem sótti að lögreglunni við þingsetningu Alþingis, þá hefur sá flokkur ekki sáð í þannig akur að hann sé verðugur að njóta ríkulegrar uppskeru. 

Um þessar mundir treysti ég engum flokki til að leiða landstjórnina og styð hugmyndir Njarðar P Njarðvík, Ólínu Þorvarðar og fleiri undir merkjunum "Nýtt lýðveldi". Við verðum að hafa öfluga stjórn embættismanna næstu mánuðina fram að kosningum og vera þá búin að endurskoða allar okkar lýðræðislegu leikreglur.


mbl.is Landsfundur VG í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skynsöm skrif og þörf ábending varðandi Steingrím.

Kveðja,

lydur arnason (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 01:27

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Já sæll. Svo mörg voru þau orð.

Faðmlög forsetanna hafa ekkert með virðingu að gera Gulli. Það ættuð þið Hannes Hólmsteinn að vita og vera ekki að fleipra með svona helgislepju. Þetta er lenska í Bandaríkjunum. Meira að segja "ég" sem er ekki einu sinni Bandaríkjamaður, ferðaðist nokkra daga með sama rútubílstjóranum vestur þar. Enskan ekki mín allra sterkast hlið, en að ferðalokum réðist blessaður kallinn á mig og sýndist mér alla í hópnum, faðmaði þá og snýtti sér í axlir okkar. Þetta er eins og ég segi bara lenska hjá Bandaríkjamönnum og hefur nákvæmlega ekkert með virðingu að gera.

Annað verð ég að benda þér á Gulli. Að sjálfsögðu studdi Steingrímur J kvótakerfið enda er þetta besta kerfi í heimi. Hins vegar, og taktu vel eftir, studdi Steingrímur ekki framsalsheimildina sem er lykilatriði því hún eyðileggur kvótakerfið.

En til hamingju með gærdaginn. Ég má til að segja þér að ég var að koma af Hótel Höfn. Þar var ég að spila á þorrablóti eldri borgara á Hornafirði. Góð mæting og fólk skemmti sér vel.

Þórbergur Torfason, 24.1.2009 kl. 02:41

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Líst vel á Nýtt lýðveldi, mínus Ólínu..

hilmar jónsson, 24.1.2009 kl. 10:43

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ógnar viðkvæmni er þetta Gulli minn!

Ég sé ekkert að því að velta upp þeirri spurningu hvers vegna sumir þurfi að fara í geislameðferðir út þegar þjóðin er fullvissuð um það, aftur og aftur, að hér sé fullkomnasta heilbrigðiskerfi í heimi og hvort algengt sé að Íslendingar séu sendir utan í slíkar eftirmeðferðir.

Ég sé heldur ekkert að því að velta því fyrir sér, nú þegar komið hefur í ljós að báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna glími við alvarleg veikindi, hvort þessi ríkisstjórn sé ekki enn vanhæfari en talið var.

Vitaskuld óska ég þeim báðum og fjölskyldum þeirra alls hins besta í baráttunni við sína sjúkdóma það hefur bara ekkert með það að gera að ég stend enn bjargföst á þeirri skoðun minni að ég vil þessa ríkisstjórn burt. Það hefur heldur ekkert með það að gera að ég vil breytingar í seðlabankanum og fme!

Hrönn Sigurðardóttir, 24.1.2009 kl. 11:16

5 identicon

Þórbergur.

Ég er ósammála um lensku Bandaríkjamanna og að það sé ekki virðing.  Ég bjó þar mikinn hluta lífs míns og er bandarískur ríkisborgari.  Og veit að þar er mikið meiri virðing sýnd fólki yfir höfuð en á Íslandi.  Það er akkúrat það sem mér fannst ólýsanlega erfitt við að koma hingað.  Enginn stoppar fyrir neinum, enginn víkur fyrir neinum, keyrt nánast á gangandi fólk. 

EE (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 15:27

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Lýður mér finnst því miður að vinstri grænir séu oft ofan og utan við hversdagslega hagsmuni heimila og fyrirtækja. Þannig fannst mér stuðningur við eftirlaunafrumvarpið með ólíkindum. Kannast ekki við einhverja fyrirvara Steingríms við ákveðna þætti kvótakerfis, enda átti hann hlutabréf í útgerð fyrir norðan og þar með eignatengda hagsmuni. 

Þórbergur minn kæri sýslungi er sannfærðari en ég í trúnni og vill ekki taka undir þennan litla sannleiksmola frá honum HHG. Mér finnst það stundum sameiginlegt með Sjöllum og VG að hugsa í svart - hvítu. Öll viðhörf þessa eða hins eru slæm af því að hann er í þessum flokki. En Halamenn eiga virðingu mína alveg heila og einlæga.

Ég hef búið heil fjögur ár í henni Ameríku. Tillitsemi og virðing eru mun sterkari þættir mannlífsins. Brosa og bjóða góðan daginn. Við erum hinsvegar þumbaralegir sagnamenn, en kunnum ekki að setja okkur inn í aðstæður fólks. Það er þessi mannskilningur og áhugi á að kynnast fólki sem að er þeirra tryggingakerfi á meðan að við teljum að ríkið eigi að úthluta flest öllum gæðum.

Tek undir með EE að menn setja hér undir sig hausinn og láta eins og þeir sjái mann ekki í umferðinni. Algengara er að mæta frekjulegu flauti og andúð heldur en að einhver hægi á sér, gefi manni séns, blikki ljósum til að hleypa manni inn á akgrein. Mbk, G

Hrönn, ég hélt að þú vissir að ég væri viðkvæmt strá sem ekki má neitt viðkvæmt sjá eða birtingu lægri hvata mannsins. Gefum mótmælum inntak á þessum vatnaskilum þegar búið er að ákveða kosningar og sameinumst um áherslur Nýja lýðveldis.

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.1.2009 kl. 15:52

7 identicon

Gunnlaugur, takk fyrir þetta.

Þórbergur, ætla að segja þér bara 2 dæmi af mannkærleik og mannskilningi Bandaríkjamanna, þó Íslendingar oft haldi að í Bandaríkjunum vanti kærleik milli fólks og samhjálp:

Einn dag um vetur leit ég út um gluggann minn og að bílnum mínum sem var kaffærður í snjó.  Gamall nágranni minn á níræðisaldri stóð þar í kulda og óveðri með skóflu og var að moka bílinn minn upp úr snjónum.  Hann stoppaði ekki fyrr en hann hafði lokið verkinu.  Nágrönnum mínum á Íslandi dytti ekki þetta í hug.  Þeir moka ekki einu sinni sameiginlegar tröppurnar.

Fólk þar var gott við ungan son minn.  Nágrannar komu fram við hann af elskulegheitum og virðingu.  Hann var heppinn.  Hann átti fullt af "fósturforeldrum" sem honum þótti vænt um.  Hann kom hingað og fári yrtu á hann.  Og þótt þeir heilsuðu mér og hann stæði við hlið mér.  Það var grátlegt.

EKki það að ég viti ekki að fullt er af góðum Íslendingum.  Það vantar þó hjálpsemi og virðingu.  Börn eru ekki virt.  Einu sinni sagði Sigmundur Ernir að Ísland væri "barnfjandsamlegt land" og vissi hvað hann meinti. 

EE (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 16:47

8 identicon

Það átti að vera: fáir yrtu á hann.

EE (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 16:50

9 identicon

Á Karólínska var fundin upp aðferð til að beita háum geislaskammti á heilaæxli.  Leksell gamma knife, hægt að athuga á wikipedia.   Finnst alls ekki á íslandi. Nokkuð algengt að íslendingar séu sendir út, óháð stöðu eða efnahag.

 Veit ekkert um tilfelli Ingibjargar.

Jón (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 21:36

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk kærlega EE fyrir þessa frásögn. Ég man að slegið var upp "welcome party" í götunni þegar við fluttum á Avondale Road í Pittsburgh. Þar voru síðan hinir og þessir fúsir að leiðbeina og hjálpa til. "Ef þig vantar notað hjól þá er fín búð niður á Oxford Street, ég gæti komið með þér þangað" o.s.frv. Svona gerist ekki á Íslandi.

Jón í færslunni hennar Heiðu var ekki bara efast um læknisfræðilegar ástæður, heldur íjað að hún væri að fara í einhverja sérmeðferð sem öðrum biðist ekki og þar að auki að hún myndi ekki borga sinn skerf heldur líka hljóta einhverja sérmeðferð varðandi greiðslur. Þetta var svo smásálarlegt og ætlað til að strá fræjum andúðar og tortrygni.

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.1.2009 kl. 21:59

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það vonast allir eftir skjótum bata.  Það er líka ósmekklegt að vera með  aðdróttanir sem tengjast veikindum. Á hinn bóginn er ekki er hægt að ætlast til þess af almenningi að hann hætti að hugsa um stjórnmál og beini allri athygli að veikindum tveggja einstaklinga. ISG verður að eiga það við sig hvort hún treystir varaformanni sínum.

Sigurður Þórðarson, 24.1.2009 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband