2.2.2009 | 10:23
Hvenær veiðir maður hval og hvenær veiðir maður ekki hval?
Leyfi til hvalveiða voru gefin korteri fyrir stjórnarslit af fyrrum sjávarútvegsráðherra. Hraustir sægarpar víða um land fagna og segja að þetta hafi verið eina vitið. Gamla viðhorfið um að við látum nú ekki hvern sem er segja okkur fyrir verkum heyrist bergmála í auglýsingum og heitu pottunum. Með því fylgir röksemdin um að það þurfi að tryggja jafnvægi í lífríki sjávar. Hvalir borði svo mikið af þorski og öðrum nytjafiskum mannsins.
Ef öruggt er að markaðir séu fyrir hvalaafurðir þá kemur til greina að heimila hvalveiðar, þó gjörningur Einars K Guðfinnssonar hafi verið valdníðsla og stendur þar sem eitt af minnismerkjum Sjálfstæðisflokks af þeirri sortinni. Hinsvegar áttu Norðmenn mjög erfitt með að selja afurðir sinna hvalveiða. Þessir konungar hafanna safna upp ýmsum þrávirkum mengunarefnum í umhverfinu í vefi kjötsins og því hefur það orðið óvinsælt til manneldis.
Því hefur verið haldið fram að alltaf sé hægt að nýta þetta sem loðdýrafóður. Ég hef ásamt fleirum staðið fyrir veiðum á útsel í sellátri fyrir austan síðastliðin haust. Útilokað er að selja selinn til manneldis og síðustu haust hefur ekki einu sinni verið hægt að láta hann frítt til loðdýrabúanna. Þau hafa ekki hakkavélar eða frystigeymslur fyrir miklar birgðir eða að veiðarnar eru ekki á réttum tíma miðað við hvenær þeir eru í mestri fóðurþörf. Hef trú á að svipað verði ástatt með hvalaafurðir og þá eru hvalveiðar bara þráhyggja.
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor skrifar ágæta grein í Moggann um nauðsyn þess að endurskoða umrædda reglugerð þó ekki væri nema út frá sjónarmiðum um jafnræði einstaklinga til sjósóknar. Það væri í anda athugasemda mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er eðlilegt að slíkar heimildir fari á uppboð en standi ekki eingöngu til boða fyrir einhverja flokksgæðinga Sjálfstæðisflokksins. Þá væri meira segja hægt fyrir þá sem að eru verndunarsinnaðir að kaupa leyfin án þess að nýta þau. Afrakstur sölu þessara veiðiheimilda færi í bjargráðasjóð heimila landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnlaugur.
Mig langar til að deila smá sögu, svona til gamans.
Presturinn í Ásum í Skaftártungu, séra Valgeir, hafði eitt sinn fregnir af því að Meðlendingar væru í sel. Presturinn var mjög nýtinn maður og skrapp á fjöru til að athuga hvort ekki væri selur afgangs.
það var mikið af sel í þetta skiptið og karlarnir voru leng að flá hann og selurinn farinn að þrána í hitanum. Hann spurði hvort hann mætti ekki taka dálítinn sel í jeppann, hann gæti gefið rollunum selinn og sparað með því hey. Það var sjálfsagt.
Á leiðinni heim, var lyktin í jeppanum orðin slík, að hann tímdi ekki lengur að gefa rollunum selinn, heldur ákvað að éta hann sjálfur. Eftir 3 daga var hann kominn með þvílíka steinsmugu að hann sá að þetta gekk ekki lengur og ákvað að rollurnar fengju selinn.
Daginn eftir voru 3 rollur dauðar úr fóðureitrun og séra Valgeir gróf þá loks selinn..... og sauð rollurnar.
HP Foss, 2.2.2009 kl. 10:45
Góð pæling Gunnlaugur. Einnig er tillaga Þórólfs athyglisverð.
Ég safnaði upplýsingum um hvali árið 2003 og velti fyrir mér spurningunni hvort hvalveiðar og hvalveiðar ættu saman. Niðurstaða mín var sú að hægt væri að veiða hrefnur með sjálfbærum veiðum og skilgreina nógu stór griðasvæði fyrir þær.
Talið er að 81 hvalategund sé í höfum heimsins og talið er að 13 tegundir séu í einhverri hættu á að deyja út. Í hafinu í kringum Ísland hafa sést 23 tegundir og 12 eru nokkuð algengar.
Stærðin “óþekkt” eru nokkur hundruð þúsund dýr en ekki hefur náðst að meta stofninn. Sýnir það okkur hvað þekking okkar á hvölum í heimshöfunum er lítil. S/T stendur fyrir skíðishvalur og tannhvalur. Athyglisvert er að skoða ævilengd þessara merkilegu skepna.
Ef heildarstofnstærð hvalategunda er skoðuð þá sést að steypireyður og hnúfubakur eru fáliðaðir og skilgreindir í útrýmingarhættu. Góðu fréttirnar eru þær að stofnarnir eru í vexti. Langreyður, sandreyður, búrhvalur og hnísa falla einnig undir þessa útrýmingar skilgreiningu. En það er umdeildara.
Vandamál okkar er að ef við förum að veiða stórhvelið langreyði, þá eru hún skilgreind í útrýmingarhættu. Því geta árásir á okkur Íslendinga orðið beittar.
Hvalir eru mikilvægir í jafnvægi vistkerfi hafsins. Fiskifræðingurinn Daniel Pauly greindi frá nýlegum rannsóknum sem bentu til þess að samkeppni hvala og manna um fæðu væri ekki eins mikil og margir fiskifræðingar vildu vera að láta. Ennfremur segir hann: "Þó hvalir éti til að mynda umtalsvert magn af þorski, auki þeir líkur á betri afkomu þorskstofna, vegna þess að þeir éti einnig tegundir sem éti þorskseiði."
Sigurpáll Ingibergsson, 2.2.2009 kl. 10:50
Málið er að Kristján og félagar setja þetta upp eins og allt eriði selt til Japans - gjaldeyristekjur o.s.frv.
Eg á eftir að sjá það. Eg vildi td. sjá yfirlýsingu frá japönskum fyrirtækjum sem gæfu til kynna að þeir ætluðu að kaupa. Verð og sona. Hversu góðar markaðsaðstæður væru etc. En nei, þá er bara sagt eitthvað áþá leið að það eigi bara að taka orð Kristjáns um það sem tryggingu.
Það hefur oft komið fram að japanir metta sinn markað með vísindaveiðum. Afhverju ættu þeir að vilja að kaupa þá hvað alla leið frá Íslandi. Skil það ekki alveg.
Svo fer ískyggilega í taugarnar á mér hve þetta er keyrt í gegn og flestir taldir vitleysingar bara sem hreifa andmælum. Boðar ekki gott.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.2.2009 kl. 11:03
Helgi það virðast til nokkuð margar sögur af sparsemi séra Valgeirs. Frændi minn var eitt sinn á leið austur á Djúpavog. Síðan þegar komið er austur í Skaftártungu þá tekur hann eftir því að lítið vatn er orðið á bílnum. Bankar upp á hjá klerki og fær vatn í lítinn 5L mjólkurbrúsa úr málmi. Hann fer og fyllir á vatnskassann og þá er um helmingur eftir í brúsanum. Hann færir Valgeiri brúsann með restinni. Karl verður mjög ánægður að fá vatnið til baka og segir; "Mér sýnist þetta duga fyrir kartöflurnar". Þannig að hann var meira að segja sparsamur á vatnið.
Sigurpáll þú leynir á þér að vera "hvalasérfræðingur" til viðbótar við tölvuþekkingu og annað. Þetta er áhugavert. Góður punktur að halada sér við tegundir sem að eru ekki merktar í útrýmingarhættu. Við getum fengið miklu harðari andstöðu ef við látum eins og fílar í postulínsbúð og virðum ekki alþjóðlegar stofnstærðarmælingar.
Ómar það er ekki nóg að Kristján Loftsson segist geta selt afurðirnar. Það þarf að liggja fyrir að hægt sé að selja og ef það er hægt þá er eðlilegt að greitt sé fyrir leyfin. Þetta snýst um hagsmuni fleiri en eins hvalfangara, eins sjávarútvegsráðherra eða eins flokks.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.2.2009 kl. 07:55
Samkvæmt þessu þá mætti enginn veiða fisk nema vera búinn að finna kaupanda og gera samning um sölu afurðana, það mætti enginn setja upp hvalaskoðun nema vera búinn að gull tryggja sér ákveðinn fjölda ferðamann á viku og svo framvegis.
Það yrði líka að bjóða upp allar jarðir á landinu sem hafa einhverjar auðlyndir þar sem við eigum jú landið saman og hver og einn einstaklingur hlýtur að eiga sinn rétt.
Þetta hjómar ekkert voðalega vel, en þið viljið samt setja orðið hvalur í staðinn fyrir jarðir og hvalaskoðun. Ef það tekst ekki að selja hvalkjötið þá er sjálf hætt og þessi 20% þjóðarinar ætti þá að geta brosað.
Ég er ekki sammála að hvalveiðar séu hagsmunir eins hvalfangara. Hvernig geta t.d. 200-300 störf verið hagsmunir eins manns.
Stefán Gunnlaugsson, 3.2.2009 kl. 16:17
Trúið þið því að Kristján ætli að stunda hvaladráp sem sport? Það yrði dýrt sport, ég segi ekki annað.
Víðir Benediktsson, 3.2.2009 kl. 16:34
Stefán veit ekki hvort það hjálpar að rugla öllu í sama grautinn. Húsnæði og land eru búnar að vera skrásettar og þinglýstar eignir sem að hafa gengið kaupum og sölum í hundruði ára.
Lengstan hluta byggðar á Íslandi hafa einstaklingar hinsvegar átt jafnan rétt til veiða úr sameiginlegum auðlindum sjávar. Slíkt sjónarmiðvar áréttað með niðurstöðu mannréttindanefndar SÞ og íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að kerfinu yrði breytt til að taka tillit til þeirra sjónarmiða.
Krafan um að staðfest sé að verðmæti fáist fyrir afurðirnar er réttlætanleg af því að veiðarnar munu skapa okkur vandræði á alþjóðavettvangi. Einnig í ljósi þess að Norðmenn hafa átt í erfiðleikum með að selja sinn hval. Er það nægjanlegt að láta þessar heimildir að mestu í hendur eins manns og láta þá hagsmuni raska mun meiri hagsmunum?
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.2.2009 kl. 16:38
Víðir ég hef trú á að Kristján Loftsson geri sér ekki grein fyrir því hversu tímarnir eru breyttir. Hann veit ekki að sóun og græðgi í auðlindir jarðar hefur gefið af sér þrávirk mengandi efni efst í fæðupíramíta sjávarfangs þannig að neytendur vilja ekki lengur þær afurðir. Þannig er veiðunum að mestu sjálfhætt. Verða tákn um einhverja þjóðrembu og þráhyggju.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.2.2009 kl. 16:49
Mitt viðhorf kemur fram hér: http://altice.blog.is/blog/altice/entry/787471/
en raunar tel ég að fleirra mæli gegn þessari heimsskulegu ákvörðun Einars.
Kveðja.
Loftur Altice Þorsteinsson, 3.2.2009 kl. 17:24
Mjög góð færsla. Ég hef það einmitt á tilfinningunni að þessi þráhyggja varðandi hvalveiðar snúist að miklu leyti um að sýna "þessum helvítis dýraverndarsinnum úti í heimi að við hlustum ekki á neitt svona tilfinningavæl".
EF það er einhver markaður fyrir þessar afurðir þá get ég svo sem skilið að fólk segi: Af hverju má ekki nýta hvali eins og annað í sjónum? En þá skal líka gera það á réttan hátt og ALLS EKKI vera að veiða tegundir sem eru skilgreindar í hættu á heimsmælikvarða.
Einnig verður að tryggja það að hagsmunir hvalaskoðunar (fjöldi fyrirtækja) og hvalveiða (þessa eina fyrirtækis) rekist ekki á, þ.e. að þessi starfsemi fari ekki fram á sömu svæðum.
Sigurpáll, þú kemur inn á mjög mikilvægan punkt, vistfræði sjávar. Fæðuvefir sjávar eru mjög flóknir og, eins og þú kemur inn á, þá er ekki hægt að fullyrða að ef einhverjum einum afræningja er fækkað að það valdi fjölgun hjá ákveðinni bráðartegund. Hlutirnir eru yfirleitt flóknari en svo og á það við jafnt í sjónum sem á þurrlendi.
Bella (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 18:22
Þú ert enn kaldrifjaðri en ég hélt:
"Ég hef ásamt fleirum staðið fyrir veiðum á útsel í sellátri fyrir austan síðastliðin haust. Útilokað er að selja selinn til manneldis og síðustu haust hefur ekki einu sinni verið hægt að láta hann frítt til loðdýrabúanna."
Munurinn á þér og hvalveiðiföngurum er sá, að þú drepur án þess að geta selt afurðirnar, sem varla telst góð nýting. Á meðan að hvalveiðifangarar hafa það skjalfest að afurðirnar séu seldar, allt að því fyrirfram og þessvegna er auðvitað veitt uppí eftirspurn.
Á eingöngu að hlusta á þjóðina þegar koma á VG og Samfylkingu í stjórn, eða boða eigi til kosninga. Eða á að hlusta á þjóðina alltaf ?
Eða er þetta bara svona velja hafna situation.
Ingólfur Þór Guðmundsson, 3.2.2009 kl. 18:25
Góður vinkill hjá þér Loftur um hversu undarlega ákvörðunin bar að og er að nokkru myrkraverk í takt við hvítþvottinn á Árna Johnsen.
Ingólfur nú telurðu að feitri smjörklípu hafi verið kastað og ég er "enn kaldrifjaðri" en þú hélst. Elsku bangsinn minn, er ég búin að vera eitthvað vondur við þig? Ertu ekki einhvers staðar fyrir vestan þannig að ég á erfitt með að bæta þetta upp með góðu knúsi, en elsku karlinn ég óska þér alls hins besta .
En varðandi selveiðarnar þá er borgað fyrir að fækka þeim per kíló af Hringormanefnd. En í haust var samt ekki farið, meðal annars af því að okkur fannst ekki verjandi að henda kjötinu, þó skinnið sé nýtt og greiðslur fyrir veiðar. Hefur þú eitthvað meira en orð Kristjáns Loftssonar fyrir því að salan sé tryggð? Ef þetta er milljarðabransi á hann þá ekki auðvelt með að bjóða í veiðiheimildirnar?
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.2.2009 kl. 20:02
Ég þakka hlý orð í mín garð... :)
Það er í sjálfu sér allt í lagi að Kristján eða aðrir bjóði í veiðiheimildirnar...
Án þess að ég þekki Kristján neitt, þá finnst mér ólíklegt að hann sé að þessu af hreinni villimennsku, þ.e.a.s. engin gróðasjónarmið. Það hlýtur að liggja fyrir.
Ingólfur Þór Guðmundsson, 3.2.2009 kl. 20:09
Til að forðast misskilning Gunnlaugur, vil ég taka fram að ég veit ekki betur en að forsetinn sjálfur hefði veitt Árna uppreisn æru, ef handhafarnir hefðu ekki hlaupið til.
Að mínu mati, eiga einstaklingar með skammtíma umboð ekki að taka aðrar ákvarðanir en þær sem eru nauðsynlegar. Þetta er mín skoðun, en ég veit að henni deila ekki allir.
Ég bið þá menn, að íhuga hvers konar ástand kæmi alltaf öðru hvoru upp, ef ráðherrar dældu út reglugerðum á síðustu dögum í starfi. Sama á við ef handahafar af ýmsu tagi færu að leika konunga, í hvert skipti sem umboð þeirra yrði virkt. Þetta er álíka hegðun og Litli Kláus sýndi þegar hann fekk lánaða hesta Stóra Kláusar. "Hott hott allir hestarnir mínir".
Loftur Altice Þorsteinsson, 3.2.2009 kl. 20:27
Sælir piltar.
Mér finnst merkilegt hvað mönnum dettur í hug mörg rök gegn hvalveiðum. Ég er veiðimaður og hef verið til sjós hér áður fyrr. Mér finnst aðalatriðið að nokkrir hvalastofnar eru stórlega vannýttir, og við erum í beinni samkeppni við hvalinn um sjávarafurðir. Ég er mjög smeikur um að hvalurinn sé að éta okkur út á gaddin og klára til dæmis loðunna sem virðist minnka með hverju árinu. Vonandi hef ég á röngu að standa, en eitt er á hreinu að hvalurinn étur mun meira af loðnu og þorsk en íslenski flotinn.
En það er alveg á hreinu að það er til nóg að hval, það er ekkert mál að selja hvalkjöt (það sannaðist þegar flutt var út í fyrra), og ferðamönnum fækkar klárlega ekki þrátt fyrir hvalveiðar. Það er alltaf sama tuggan um að þetta skemmi allan ferðamannaiðnað og sölutækifæri út í heimi, en dæmi sanna annað.
Ég er bara mjög ánægður ef einhver getur og vill (eins og Kristján Lofts) nýta þessa auðlynd og skaffa atvinnu. Við þurfum bara fleiri kraftmikla menn eins og Kristján Lofts.
Loftur hefur kannski eitthvað til síns máls varðandi ákvörðunina, hún átti að koma miklu fyrr og alls ekki í starfsstjórn. Það gefur bara pólitískt skotleyfi á hann.
Stefán Gunnlaugsson, 3.2.2009 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.