Engin ný framboð?

Rúmu korteri fyrir kosningar bendir fátt til að ný stjórnmálasamtök bjóði fram. Hið nýja kvennaframboð er sprungið á limminu, framboð um séráherslur til úrbóta á lýðræðisskipan er ekki líklegt ef persónukjör og stjórnlagaþing eru á dagskrá, ekki er líklegt að nema tveir til þrír fyrrum Framsóknarmenn séu viljugir til framgöngu undir merkjum andstöðu við samband Evrópuríkja.

Þá er spurningin hvort að Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn geti náð til sín auknu fylgi í komandi kosningum. Þrátt fyrir mikla virðingu sem þjóðin ber fyrir Ómari Ragnarssyni þá eru engar líkur á að hreyfingin nái árangri. Fyrst að þeim gekk ekki betur meðan að virkjanamálin voru raunverulegt hitamál, þá er ólíklegt að fylgið verði meira á samdráttarskeiði 2009.

Sjálfseyðingarhvötin virðist vera það sterk í Frjálslynda flokknum að honum virðist ætla að takast það hjálparlaust að þurrkast út af þingi. Jón Magnússon er kominn heim og líklegt að Guðjón Arnar fari sömu leið. Fáir vita hvort Kristinn H. Gunnarsson er í flokknum eða ekki. Guðrún María tilkynnti framboð en ætlar ekki fram skömmu síðar. Spámiðill er á vettvangi og leitar að lífsmarki, en það liggur fyrir að Grétar Mar er greindastur og Sturla Jónsson efnilegastur. 

Það er því margt sem bendir til að fjórflokkurinn standi einn eftir. Það verða ekki tveir turnar og því mögulegt að mynda ríkisstjórnir til hægri eða vinstri. Það er stærsti galli okkar kosningafyrirkomulags að geta ekki kosið ríkisstjórn. Það auðveldaði málið ef að ljóst væri á kosninganótt að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsókn næðu meirihluta að þá yrði mynduð borgaraleg stjórn og að ef Samfylking og Vinstri grænir næðu meirihluta væri mynduð félagsleg og lýðræðisleg stjórn.

Ég tel það mikilvægt fyrir Samfylkingu og Vinstri græna að bera fram lista með mögulegu persónukjöri. Sjálfstæðisflokkur hefur vísað því frá sér og pabbadrengirnir í Framsóknarflokknum þora ekki að taka áhættuna. Röðun þarf að byggja á trausti kjósenda frekar en tengslamyndun flokksforystu. En öflugur listi þarf mannaval og ég hef áhyggjur af Samfylkingunni, því að þar er meiri umfjöllun um þá sem ekki ætla að bjóða sig fram heldur en þá sem eru að melda sig til þátttöku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er að koma fram framboð sem kallar sig Borgarsfylkinguna (minnir mig) Það eru einhver 3 samtök eða hópar sem standa að henni. Lýðræðisbyltingi og meira.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.2.2009 kl. 23:26

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þar er líka eitthvað sem kallar sig Samstöðu hópinn. Formaður framboðsins er Herbert Sveinbjörnsson. Þetta er víst komið á mbl.is. Það eru alltaf einhverjir sem halda að framboð þeirratil Alþingis bjargi málunum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.2.2009 kl. 23:32

3 identicon

Sæll, Gunnlaugur.  Ágæt greining atburðarrásar sem átti að vera öðruvísi.   Gamla dæmið blasir við, vinstri, hægri í boði framsóknar.  Einhver von þó um að vinstri flokkarnir nái meirihluta og sjálfur tel ég þann kost vænlegastan eins og sakir standa.  Kveðja, LÁ   

lydur arnason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 04:14

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Hvað um Álversflokkinn?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 24.2.2009 kl. 21:31

5 Smámynd: Smjerjarmur

Ben.Ax. hvaða flokk kallar þú Álversflokkinn?  Eitt stórt álver hefur risið á austurlandi og ég ætla að leyfa mér að þakka Framsóknarflokknum fyrir það, enda hafði Reykjavíkuríhaldið takmarkaðan áhuga á þeirri framkvæmd.  Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson voru áhugasamastir um þessa framkvæmd og mesta frumkvæðið og margir Austfirðingar þakka þeim fyrir að ekki þurfti að pakka saman fyrir Austan og hætta þessu.  Í dag er verð á áli lágt.  Flestir yrðu þó fegnir að sjá álver rísa í Helguvík, þó endalaust megi deila um arðsemi til lengri tíma. 

Við íslendingar verðum að nýta okkar auðlindir.  Við erum ekki í aðstöðu til þess að arðræna þróunarríkin eins og stóru löndin í evrópusambandinu sem suma langar svo mikið í eina sæng með. 

Smjerjarmur, 24.2.2009 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband