3.3.2009 | 00:34
Út með verðtryggingu af íbúðalánum
Var að koma úr Kópavogi af fyrsta opna fundi vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Það jaðraði við að það væri sviðskrekkur í mér. Óttaðist hanaslag þar sem hver ætti að selja sig og sitt á úthlutuðum þremur mínútum. Hamraborgin með sínum ferköntuðu útlínum er heldur ekki mjög ljóðræn og slökunarhvetjandi. Þá kom lagið "Undir regnbogann" inn á rásina í Pöndunni minni og bræddi upp klakaböndin í sálartetrinu.
Mikið var talað um nauðsyn þess að leysa úr vanda heimilanna í landinu. Aðferð Framsóknarmanna um að gefa nammi á línuna með loforðinu um niðurfellingu 20% af skuldum var gagnrýnd sem ódýr kosningabrella. Hinsvegar finnst mér persónulega að Samfylkingin þurfi að vera þarna meira afgerandi. Það er ekki nóg að bjóða upp á greiðsluaðlögun og vaxtabætur á meðan verðtryggingin er alltaf að hækka heildartöluna.
Menn hafa orðið fyrir misjafnlega miklu tjóni af völdum bankahrunsins. Hornsteinn jafnaðarstefnu er ævinlega leitin að hinum hreina tóni réttlætis. Eigendur hlutafjár töpuðu miklu. Þeir vissu að þeir væru að taka áhættu. Þeir sem tóku myntkörfulán vissu af gengisáhættunni. Þó ég vilji sjá okkur vera hluta af stóru myntsvæði til lengri tíma litið þá mun krónan styrkjast og gefa okkur olnbogarými. Á meðan króna styrkist, þá er jen og franki að sogast inn í vandamál.
Sparifjáreign var tryggð, en verðtryggingin á þessum verðbólgutímum er að éta upp eignarhluta okkar í fasteignum. Við þessu þarf að bregðast og finna einhverjar leiðir til að miða við vísitölu á einhverri dagsetningu fyrir hrun og afskrifa það sem bæst hefur við. Það er grátlegt að horfa á eftir þeim fjármunum sem voru okkur mikilvægastir og útheimtu dýrmætustu svitadropana við að eignast húsnæði eyðast á báli, ásamt öðrum vanda.
Til að fá fleiri spil á hendi þarf að stórauka framleiðslu í landinu, innleiða að nýju verkmenningu, efla nýsköpun og sprotafyrirtæki. Mikilvægt er að þeim sem hafa fjárhagslegt svigrúm verði gert mögulegt að borga fyrir opinbera þjónustu. Hluti þess hóps sem að á óskertan sparnað vill hugsanlega leggja sitt af mörkum í endurreisnarstarfinu með því að afþakka stuðning ríkisins vegna tryggingagreiðslna, námskostnaðar barna og annarrar samfélagsþjónustu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég hel Gunnlaugur að það sé jafn mikið að mara þessi 20% og þegar framsókn kom með 12.000 störf allir gerðu grín þá af framsóknarmönnum hvað urðu störfin mörg nærri 20.000 það er búið að skoða þessa tillögu af mjög mörgum virtum hagfræðingum og er þeirra álit að þetta sé mjög góður möguleiki og vel framkvæmanlegt það er ekki boðlegt að hjálpa bara skussunum eins og alltof oft hefur verið gert á Íslandi. Við erum búinn að setja nokkra miljarða til sparifjáreigenda með því að dæla peningum í peningamarkaðssjóðina og að tryggja innistæður á sparisjóðsbókum umfram 3 miljónir og við eigum líka að hjálpa fyrirtækjum og búðareigendum í sama mæli að minnstakosti.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 3.3.2009 kl. 09:46
Hugmyndin um að fella niður eða frysta verðbætur á íbúðalánum frá einhverjum ákveðnum tímapunkti t.d. ársbyrjun 2006 er líklega skynsamlegasta leiðin. Það er ekki einfalt að henda myntkörfulánum inn í íbúðalánasjóð nema hægt sé að styrkja hann að sama skapi. Við höfum alls ekki séð fyrir endan á þeim kostnaði þar sem gengið er mjög óljóst.
Varðandi snilldina hjá Framsókn sem Jón hér að ofan er með. Á undan tölunni 12.000 vantar mjög mikilvægt formerki. Það er semsagt - eða mínus. Steininn tekur úr þegar vitnað er í hagfræðinga. Þeirra laun byggja að mestu leyti á því að fá greitt fyrir að gefa rétt svör í anda fyrirspyrjandans.
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 10:15
Þannig að þú vilt að sá sem að skuldsetti sig með einkaneyslu fyrir 100 milljónir í góðærinu fái 20 milljónir úr ríkissjóði, en sá sem var skynsamur í fjármálum og tók 10 milljóna lán vegna húnæðiskaupa fái tvær milljónir?
Þarna er eðlismunur sem þarf að taka á með sértækum hætti en ekki svona ódýrt og innihaldslítið loforð um að lofa öllum nammi. Varðandi störfin þá var það nú frekar tilviljun heldur en útpæld áætlun. Þenslan reddaði þessu máli Framsóknar. Þú gætir líka tiltekið loforðið um 100% húsnæðislán þar sem vottaði ekki fyrir skynsemi en var ætlað að kaupa fylgi. --> Varist mútur Framsóknar.
Þetta snýst fyrst og fremst um að slá skjaldborg um heimilin. Annar fjárhagsvandi fær greiðsluaðlögun og ávinning almennra aðgerða. Þar þarf að hagræða, selja stóru hestakerruna ef þörf krefur. Verðtrygging húsnæðislána er alvarleg meinsemd sem verður að taka á. Stjórnvöld sýndu staðfestu að vernda sparífé og verða að taka á þessum vanda að kolrugluðar forsendur verðtryggingar éti ekki upp eignarhluta fólks í fasteignum.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 10:18
Það er engum til gagns að lánastofnanir fari að safna íbúðum.
Sigurður Þórðarson, 3.3.2009 kl. 10:19
("þú" hér að ofan vísar til félaga Jóns, en svo kom sveitungi Þórbergur með góða færslu meðan ég var að skrifa)
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 10:21
Ég er þér hjartanlega sammála. Það er ekki hægt að láta fólk burðast með þann hluta verðtryggingarinnar sem hrun efnahagslífsins orsakaði beint, þegar parametrar efnahagslífsins eru komnir í "jafnvægi". Þetta er mikið jafnréttismál. Það er óheyrt, þegar sparifjáreigendum er komið til bjargar en ekki þeim sem þurfa að þola verðtryggingu sem er byggð á þeim óeðlilega grunni, sem efnahagshrunið orsakaði. Ég er því sammála einnig að ekki eigi að vera með flatan niðurskurð á lánum þar sem þeir "hagnast mest" sem græðgi sýndu mesta.
Kveðja, Jónas Rafnar
Jónas Rafnar Ingason, 3.3.2009 kl. 10:25
Gunnlaugur, smá komment.
Það er sama hve miklu fé er veitt inn í banka eða fyrirtæki, ef massinn (þ.e við almenningur) höfum ekki pening til að kaupa vörur og þjónustu, þá fer hagkerfið aldrei í gang. Fólk og fyrirtæki sem eru að drukkna í skuldum munu ekki taka ný lán. Eina og fljótlegasta leiðin til að koma hjólunum af stað aftur að auka ráðstöfunarfé almennings. Það verður ekki gert í bili með skattalækkunum svo þá stendur eftir niðurfærsla skulda. Hve mikið eða hvernig geta menn rifist um en staðan er augljós. Þeir sem hafa séð gríðarlega hækkun á afborgunum húsnæðislána eru pikkfastir og eyða engu þessa dagana. Ef enginn eyðir þá gerist ekkert nema að fleiri og fleiri fyrirtæki fara á hausinn og atvinnuleysi eykst. Lykillinn að endurreisn er neysla og til þess þarf almenningur lausafé, ekki lán.
Það ætti hins vegar að vera þeim sem reka fyrirtæki umhugsunarefni að verðbólga er m.a. afleiðing af óhóflegri álagningu. Há álagning og verðbólga auka svo við vanda allra í formi hárra vaxta. Ef þeir sem selja vörur og þjónustu vilja fá viðskipti þá er nærtækast að fara að lækka verð. Ekkert fyrirtæki mun lifa án viðskiptavina.
Svona einfalt er þetta nú.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 10:47
Verðtrygging var sett á lán í apríl 1979 með svokölluðum Ólafslögum. Þetta er því séríslenskt fyrirbæri. Verðtrygging er óhagstæð lántakendum og ósanngjörn þar sem þeir bera einir áhættuna af verðlagsbreytingum.
Rétti tíminn til þess að afnema verðtryggingu á lánum til almennings er einmitt núna þegar stokka þarf upp í fjármálakerfi þjóðarinnar.
Áfram Gunnlaugur!
Sigurpáll Ingibergsson, 3.3.2009 kl. 11:14
Ég vil einungis tiltaka verðtryggð lán til húsnæðiskaupa.
Með því að frysta verðbætur frá ákveðnum tímpunkti vinnst eftirfarandi.
Hægt er að sýna fram á það fjárnám sem viðgengst með verðtryggingunni í mörgum myndum. T.d. sem heildarupphæð á öllu landinu eða upphæð hvers einstaklings.
Verðtryggingin verður aldrei tekin af nema við sem byrðarnar berum, rísum upp sem einn maður og getum sýnt svart á hvítu fram á það rán sem fram fer á hverjum einasta degi í formi verðbóta. Sárast er þetta gagnvart þeim sem eru í þeirri stöðu að hafa veðsett eignir undanfarin ár og markaðsvirði er ekki orðinn svipur hjá sjón.
Gulli, ég verð að segja að JBH er ekki trúverðugur fulltrúi fyrir þeim hópi.
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 11:53
Tilögur Framsóknar er smámunir miðað við að taka verðtrygginguna af þá sjá menn fyrst hvað hlutirnir kosta og þá eru 20% ekkert. Gunnlaugur þú talar um 100 miljóna hjónin þau eru önuglega til og ég er líka viss um að þau hafa haft greiðslumat frá bankanum um að þau gætu greitt þá upphæð það var til fólk sem gat staðið undir 70 miljónkróna láni en í dag er hrunið búið að gera það lán að 100 miljónum því frá því hrunið var eru komin 18% hvað er hækkunin á einu ári ætla að það sé ekki nálægt 30% það get ég ímyndað mér.
Við verðum að vera raunsæ það er alveg sama hvað stabbinn er stór ef hann lækkar um við skulum seigja 20% framsóknarmanna þá eru einhverjir sem sleppa en það verða margir sem lenda samt í vandræðum og þá þarf að taka á þeim stabba hvernig sem það er gert, en af almana fé verðum við að gæta réttlætis og meðalhófs það er ekki verið að tala um bílalán eða önnur neyslulán eingöngu húsnæðislán og ákveðin lán fyrirtækja.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 3.3.2009 kl. 12:01
Jón það er ekki endilega nauðsynlegt að fella verðtrygginguna af heldur er nauðsynlegt að skilgreina í hvað öll þessi fúlga fer.
Tillaga Framsóknarmanna er í einu orði sagt fáránleg. Hún er jafnfáránleg og þegar Framsókn og Íhald ákváðu að gefa hvor öðrum ríkisbankana hér um árið og skipa svo sjálfa sig yfirstjórnendur yfir öllu batteríinu svo þeir yrðu ósnertanlegir.
Gerir þú þér einhverja grein fyrir því hvað svona flöt niðurfelling þýðir í raun?
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 12:14
það verður að gæta jafnræðis....en burt með fjandans verðtrygginguna
Hólmdís Hjartardóttir, 3.3.2009 kl. 12:37
Rétt Hólmdís - en samkvæmt prósentuleið Framsóknar græða þeir mest sem að gengu djarfast fram. Þeir verða að hagræða og selja. Við þurfum að forgangsraða og verja íbúðarhúsnæði.
Mikilvægur punktur hjá Jóhanni varðandi þörfina á að fjármagn sé í umferð og hjólin snúist. Því þarf hver einasti Íslendingur að huga að því hvað hann getur gert til framleiðniaukningar, iðnaðar, útflutnings.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 13:00
Nákvæmlega Gulli. Hér þurfa allir að leggjast á árar. Varast skal að hygla einum umfram annan.
Ég segi eins og áður. Fólkið í forgang, svo má flokkurinn koma á eftir.
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 13:37
Burt með verðtrygginguna,og átti hún ekki að vera bara einhvern smá tíma á .
Ólöf Karlsdóttir, 3.3.2009 kl. 14:22
Þorbergur var það þá ekki vitleysa að tryggja allar innistæður í bönkunum átti ekki að tryggja innistæður upp á bara 10 til 15 miljónir aflverju var ríkistjórnin að tryggja allar innistæður en getur ekki hjálpað þeim sem tóku lán til húsnæðiskaupa miðað við sína greiðslugetu og fyrirtæki tóku fasteignalán til rekstrar og það var vitað að reksturinn bæri þau þar til hrunið kom.
Mér fyrnst útúrsnúningar að geta ekki komið með lækkun á skuldum á móti því sem rétt var að fjármagnseigendum það er ég ósáttur við og kalla ríkistjórnina ríkistjórn fjármagnseigenda, sem hagar sér svona þessi prósent framsóknar er ekki nein heilög tala heldur einkvað til að ræða útfrá.
En að greiða einhverjum sem er í vanskilum upphæðir til að hann lifi á meðan öll fjölskyldan er að hjálpa sínu fólki að standa í skyllum og sparar allt við sig allt verður ekki talin þurfa á hjálpa að halda sætti ég mig aldrei við. það skal jafnt yfir alla ganga.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 3.3.2009 kl. 15:16
"það skal jafnt yfir alla ganga". Það er einmitt kjarninn í því afhverju prósentuleið Framsóknar er arfavitlaus. Þeir græða mest sem skuldsettu sig mest. Þá væri betra að gefa skattfríðindi af launum upp á fasta upphæð per einstakling eins og t.d. 500 þús. per mann. En það er auðvitað pólotísk ákvörðun að koma í veg fyrir að eign fólks í fasteignum verði ekki látin brenna upp á báli verðtryggingar.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 16:20
Ertu þá að tala um hækkuð skattleysismörk tímabundið eða bara svolítið ríflega hækkun. 500.000 eru nokkuð há skattleysismörk en 200.000 eða þar um bil gætu verið nær lagi. Þetta eru allt dæmi sem auðvelt er að reikna út og sjálfsagður hlutur að skoða þau. Flatur afskurður Framsóknar getur aldrei gengið. Ef sú leið er farin að hausa skuldir, þarf að fara í öll gögn sem varða fjárhag hvers einstaklings svo sæmilegs jafnræðis sé gætt. Það er engin glóra að sá sem greiðir yfir 100 milljónir í fjármagnstekjuskatt fái sömu niðurfellingu og sá sem greiðir einungis 300.000 í tekjuskatt. Þetta hljóta jafnvel blindustu framsóknarmenn að sjá í hendi sér.
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 16:59
Sammála um uppstokkun og athugun á verðtryggingunni...hún er þvæla.
En í umræðunni kemur aldrei fram nákvæmt hver á að taka á sig kostnaðinn á niðurfellingu 20%. Þetta er með veði í flestum tilvikum og hægt að ganga að þeim. Einhver tapar peningum er það ekki??
Vildi gjarnan fá skýringu á þessu?
itg (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 17:06
Gunnlaugur. Því miður er augljós rökvilla að halda því fram að það sé "óréttlæti" að niðurfæra skuldir allar jafnt - það er hlutfallslega og jafnvel um 20%. Sams konar hlutfallsleg niðurfærsla er eina leiðin sem við eigum til jafnræðis: Minni á að við tryggingu á bankainnistæðum og eignum í peningamarkaðsreikningum datt engum í hug að spyrja um aðrar eignir sparifjáreigendanna . . .
Við notum síðan auðvitað skattkerfið til að skattleggja þá sem hafa háar tekjur og eiga miklar eignir; - við verðum t.d. að setja á hækkaða og stighækkandi skatta +5% og 10% og jafnvel 15% á hæstu tekjur - - með því sækjum við 10-15 milljarða á ári . . . . og svo er algerlega nauðsynlegt að leggja stóreignaskatt á næstu 3-5 árin . . . sennilega stighækkandi líka - - og réttlætisrökin eru auðvitað einkum þau að á síðustu árum loftbóluhagkerfisins voru gríðarlega miklir fjármunir færðir í gegn um fjármagnstekjur með 10% skattlagningu - og yfir í eignir . . . . . Forsendur þessa lága skatthlutfalls voru auðvitað villusýnir og Pótemkíntjöld hins fallna hagkerfis öfga-frjálshyggjunnar . . .
Niðurfærsla skulda heimilanna - þarf ekki að kosta neina einustu nýja og staðgreidda krónu . . . . . en flytur byrðina og tjónið af hruninu frá einstökum fjölskyldum og yfir á sameiginlega sjóði og efnahag fjármálafyrirtækjanna ti næstu 25 ára.
Markaðshvetjandi aðgerðir með niðurfærslu höfuðstóls - eru alger forsenda þess að fólk geti sjálft selt sig frá ofþþungri byrði - og án nauðasamninga eða þrotameðferðar og tiheyrandi niðurlægingar . . . .
Benedikt Sigurðarson, 3.3.2009 kl. 19:26
Það er óboðlegur útúrsnúningur og að uppnefna hugmyndina um niðurfærslu lána heimilanna - þó hún komi frá Framsóknarmönnum.
Meðan forsætisráðherra og frambjóðandi til varaformanns ÁPÁ - - hafa enga efnislega tillögu að gera til bjargar heimilinum . . . . þá eiga þau að minnsta kosti að halda slagorðum og ósönnum fullyrðingum til hófs . . það er t.d. bara beint skrök eða heimska að halda því fram að Íbúðalánasjóður fari "lóðbeint-á hausinn" ef niðurfærslu verður beitt . . . .
Benedikt Sigurðarson, 3.3.2009 kl. 19:29
Benedikt. Ef tekjur Íbúðalánasjóðs af útlánum lækka hlýtur það að þýða að fjármögnunarkostnaður hans hækkar. Íbúðalánasjóður á ekkert alla þessa peninga sem hann hefur lánað á undanförnum árum. Þetta eru endurlán, þú verður að gá að því.
Þórbergur Torfason, 3.3.2009 kl. 20:17
Þakka þér fyrir innleggið Benedikt. Ég er laus við alla flokkslega stýringu í hugmyndum. Þess vegna gagnrýndi ég það í minni færslu að það væri ekki gengið lengra en greiðsluaðlögun og vaxtabætur. Rökstuddi að líka þyrfti að klippa af skuldahalanum og þar væri verðtryggingin stærsta meinsemdin sem að er víða að bæta við um 500 þús. við lánin á mánuði.
Finnst það kosningatengt yfirboð, hvort sem það er borið fram af þér eða öðrum, að lofa niðurfellingu 20% skulda sama hvers eðlis þær eru, ef ég skil þig rétt. Stend við að það sé óréttlátt að ríkið taki á sig (og þar með við aftur sem skattgreiðendur) að borga sama prósentuhlutfall af neysluskuldum og fasteignalánum.
Stend við það líka að þá er betra að hækka persónuafslátt þannig að það gefi einstaklingum t.d. á næsta ári um 500 þús. í viðbótartekjur. Það er jafnræði í slíkri nálgun. Hún er ekki veltutengd redding. Fólk með umsvif þarf að draga saman segl og hagræða til að ná endum saman. Selja stóru hestakerruna eða fellihýsið. Svo er auðvitað mjög brýnt að ná vöxtum verulega niður á næsta vaxtabreytingardegi.
Sammála með að það þarf að samræma skattlagningu á fjármagnstekjur og launatekjur. Hinsvegar er ég ekki sannfærður um þrepatengt skattkerfi þar sem prósentuhlutfallið fer hækkandi . Slíkt er vinnuletjandi og stuðlar að aukinni svartri starfsemi. Fólk sem að er í greiðsluerfiðleikum á þá erfitt með að vinna sig út úr þrengingum því að því yrði refsað fyrir dugnað. Hinsvegar finnst mér að aftur megi innleiða eitthvað form eignarskattar.
Síðast en ekki síst stend ég fastur á fullyrðingunni; "Varist mútur Framsóknar". Það væri fróðlegt ef að sagnfróður aðili gæti tekið slík yfirboð saman. Hann fer alltaf í þennan gír að lofa öllum allt. Stóriðjuverum, störfum, lánum og hverju sem hugurinn girnist. Helsta orsök þenslunnar. Ég held að hér séu ennþá til pennar, strokleður, yfirstrikunarpennar sem var góss úr síðustu eða þar síðustu herferð.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 21:10
Sammála þér, Gunnlaugur, um að 20% flöt niðurfelling allra skulda er ekki málið. Gildir einu hvaða hópur eða flokkur hefði fundið upp á því. Verðtygginarlögunum þarf að eyða og ná ranglátustu verðbótunum af lánum um það bil 1 ár aftur í tímann nú. Þetta er erfitt - en hægt -20% "tilboðið" sýnist mér vinsældaveiðar og væri óréttlátt.
Hlédís, 3.3.2009 kl. 22:19
Því miður er öll umræða um raunhæfar aðgerðir að færast í skotgrafa og smjörklípustíl nú í aðdraganda kosninga.
Sennilega væri affarasælast að geyma umræðuna um raunhæfar aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum þar til eftir kosningar, því nokkuð ljóst má vera að hvað sem stungið verður upp á í kostningabaráttunni verður ekki uppi á borðum eftir kosningar.
Eins og svo oft áður sýnist mér Benedikt Sigurðarson koma með málefnalegustu rökin máli sínu til stuðnings og get ég ekki annað en tekið undir hans málflutning hér.
Ég vil gjarnan spyrja síðuhöfund hver hann telji að munurinn sé í raun á eðli þeirrar aðgerðar að færa niður skuldir um 20% eða færa vísitöluna aftur eins og hann stingur upp á í þessum orðum sínum: "Við þessu þarf að bregðast og finna einhverjar leiðir til að miða við vísitölu á einhverri dagsetningu fyrir hrun og afskrifa það sem bæst hefur við." Hefur hann reiknað út hvað það er í raun mikil niðurfærsla á skuldunum í prósentum talið? 20 prósentin eru bara ekkert langt undan með þeirri aðferð, tel ég mig geta upplýst hann um.
Það sýnir best fáranleika verðtryggingarinnar og ósanngirni að nú eru ríkisstofnanir og fyrirtæki sem gert hafa verðtryggða þjónustu- og leigusamninga að krefjast lækkunar á þeim samningum. Ég er með fjármuni frá bankanum mínum á leigu og ég krefst þess að leigan sem ég er að greiða verði líka lækkuð!!! Sumir hér kjósa að kalla þetta niðurfellingu á skuldum, en ég minni á að þessi 20% sem Framsókn hefur stungið upp á er ekki einu sinni nærri því að vera verðtryggingin sem fallið hefur á mitt lán frá því 2006 þegar ég tók lánið. Og enn minni ég á að þessi verðtrygging sem fallið hefur á lánið mitt er peningur sem ekki var til í hagkerfinu og er því bein peningaprentun sem ég er látinn um að framkvæma. Ég get það ekki við núverandi aðstæður.
Verðtryggingin verður að fara og það strax. Við VERÐUM að staðgreiða vexti! Ef við getum það ekki þá getum við ekki tekið lán, eða við verðum að taka lægri lán sem við höfum efni á og kaupa því ódýrari íbúðir og ódýrari bíla. Svona einföld er sú hagfræði. Hættum að taka verðtryggð lán!
Karl Ólafsson, 3.3.2009 kl. 22:32
Sýnist að við séum sammála Karl um að verðtryggingin sé alvarlegasta meinsemdin. Hinsvegar held ég að greiðsluvandi sem tengist heimilum og og leiðrétta upphæðir vegna verðtryggingar á fasteignalánum þurfi að hafa forgang. Það er eðlismunur milli lána og loforð um 20% niðurfellingu á allar skuldir, sama hversu háar þær eru eða vitlausar forsendurnar voru fyrir þeim, er kosningabrella.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 22:45
Takk fyrir svarið Gunnlaugur, en ég vil þá gjarnan halda því fram að Samfylkingin og Framsókn (og aðrir) geti alveg unnið sameiginlega úr hugmyndum sínum framkvæmanlega og raunhæfa leið sem raunverulega hjálpar upp á stöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Til þess þarf að fara úr kosningagírnum og í samræðu og samningagírinn! Framsókn lagði fram útspil sem menn tapa sér yfir í stað þess að vinna út frá þeim hugmyndum aðrar útfærslu sem e.t.v. mætti ná samkomulagi um. Önnur útspil hafa ekki komið frá neinum! Ekki neinum flokki! Það er það alvarlega í þessu.
Karl Ólafsson, 3.3.2009 kl. 22:58
Ég set það líka í mína færslu að Samfylkingin þurfi að vera meira afgerandi í þessu máli og að eignaupptaka íbúðahúsnæðis sem hlýst af verðtryggingunni, verði að leiðrétta.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 23:07
Verðtryggingin er algert þjóðarmein. Hvað kostar að afnema hana? Á hvaða kjörum fengu nýju bankarnir íbúðalán gömlu bankanna? Heyrt um 50% afslátt. Er ekki rétt að láta fólkið njóta einhvers af þeim kjörum?
Verðtryggingin er ekkert annað en neysluskattur af verstu gerð.
Njörður Helgason, 4.3.2009 kl. 09:23
Gunnlaugur
Hvernig stendur á því að þú ert svona bitur út í fólk með myntkörfulán?
Og hvers vegna ertu svo viss um að allir þeir með þessi lán hafi verið að spreða um efni fram?
Hvarlar ekki að neinum ykkar sem óttist að fólk með myntkörfulán græði eitthvað við aðgerðir, hverjar sem þær verða, hafi verið að fara eftir ráðleggingum fasteignasala og bankanna?
Ég er á móti verðtrygginguni, hef alltaf verið það, en mikið verð ég reið þegar ég les og heyri fólk tala um að það meigi sko ekki mismuna og þeirra lán hjá íbuðalánasjóð hafi líka hækkað.
Það er bara ekki hægt að bera saman 2 milljón króna hækkun og 20 miljón króna hækkun. Engin þeirra sem ég þekki og er með myntkörfulán var að taka óeðlilega há lán, engin tók íbúðarlán yfir 20 miljónir. Sá sem var með hæðsta lánið akkurat 20 milljónir stendur frammi fyrir því núna að skulda nærri 40 millur.
Óskhyggjan að krónan komi til með að lagast og fólk með myntkörfulánin þá fara að græða er bull, krónan er dauður gjaldmiðil og mun það sannast um leið og höftin verða tekin af.
Það þarf að hjálpa öllum fasteigna eigendum, hættið því að röfla um að fólk vissi áhættuna og láta það ligga milli orða að það geti sjálft um sér kennt, þið sem voruð "skynsöm" bla bla
Og svona að lokum, bara varð að hella úr skálum mínum við ykkur, er orðin svo langþreytt á þessu tuði um fólk með myntkörfulán.
Farið bara að standa saman og krefjast þess að verðtryggingin verði afnumin, það er hvort sem er verið að brjóta á ykkur þar sem það átti að afnema hana innan ákveðins tíma eftir að hún var afnumin af launum.
A.L.F, 4.3.2009 kl. 14:38
A L F! Það er gott þú kemur inn á "körfu"-lánin! Þau voru nú í mörgum tilfellum beint afbrot og verið að kanna hvort þau standíst yfirleitt LÖG um verðrtyggingu.
Afbrot segi ég því ráðgjafar hjá stofnunum sem sjálfar veðjuðu gegn krónunni fyrir rúmu ári töldu kúnnum trú um að körfulánin væru hagkvæm.
Hér talar ein sem "tapar" á að verðtrygging verði afnumin, en veit þó að tap okkar er mest ef yngsta fólkið í landinu verðu hengt í verðtyggingargálga sem við eldra fólkið sluppum við. Á minni síðu endar hver pistill á orðunum:
"Auk þess legg ég til að verðtryggingar-ólögunum verði eytt!"
Hlédís, 4.3.2009 kl. 15:55
"Hvernig stendur á því að þú ert svona bitur út í fólk með myntkörfulán?"
Einhver misskilningur. Við keyptum hús í Mosfellsbænum fyrir tveimur árum. Lán á húsinu skiptast til helminga KB lán verðtryggt með 4,2% vöxtum og myntkörfulán Frjálsa fjárfestingabankans óverðtryggt með ríflega 3% vöxtum. Myntkarfan er að stærstum hluta japanskt jen og svissneskur franki, en fjórðungi evrur.
KB lánið hækkar að ég held um 300 þúsund á mánuði, höfuðstóllinn vegna verðtryggingar. Þar er hún kominn til að vera nema að eitthvað sé gert. Þar eru þættir sem éta upp eignarhlutann og ekkert fæst við ráðið.
Myntkörfulánið var tekið þegar krónan var veik, en þó ekki eins veik og hún er núna. Hinsvegar er það lán enn á lágum vöxtum, óverðtryggt og með tiltekinni heildarupphæð í myntkörfunni. Eina vandamálið er þegar myntkarfan er reiknuð yfir í krónur.
Gengisáhættan hækkaði lánið mikið við hrunið sem að hefur gengið að verulegu leyti til baka. Auk þess hef ég ákveðna möguleika á næstu misserum að selja gönguferðir í Evrópu sem greiddar yrðu í evrum. Þær get ég lagt beint inn á lánið.
Það eru því möguleikar bæði að gengisbreytingar verði hagstæðar, krónan styrkist eða myntkarfan veikist og hægt er að komast fram hjá vandamálinu ef hægt er að fá greitt fyrir vörur eða þjónustu í erlendri mynt.
Með góðri kveðju, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2009 kl. 17:04
Það er málið Gunnlaugur! - Væru laun á Íslandi gengis-tryggð og lán launa-vísitölu-tryggð litu dæmin talsvert öðruvísi út. Það bjargar ekki öðrum með myntkörfu-lán að þú sért svo heppinn að fá skemmtilega gönguvinnu greidda í Evrum :)
Gangi þér vel!
Hlédís, 4.3.2009 kl. 17:58
Akkurat Gunnlaugur, ég mun seint skilja hvernig 3,5 miljón króna lán hjá Íbúðalánasjóð sem greitt er af samviskusamlega í 17 ár geti staðið í 9 millum, þetta er skít. Og það að þau séu en við líði er ekkert annað en lögbrot og þversögn við það sem lofað var þegar hún var sett á og þegar hún var afnumin af launum.
Reyndar var verðtryggin á launum skítleg líka, var aftur ávirk eins og margir muna svo fólk græddi voðalítið á henni samanber að verðtryggingin var ekki aftur á virk með lánin. Enda hafa stjórnvöld "EINS SPILLT OG ÞAU ERU" aldrei gert neitt með hin almenna þegn í huga, þetta snýst allt um rassgatið á þeim og afkomendum þeirra sem svo til fæðast inn á þing.
Körfulánin eru ömurleg lía því eins og Hlédís segir þá er eitthvað stórlega athugavert við það að tala viðskiptavini sína inn á dásemdar körfulán og vera á sama tíma að tala krónuna niður.
En annað sem mér finnst að ætti að skoða.
Sé það rétt sem framsóknarflokkurnn segir að 50% skulda gömlu bankana "körfulánin" voru afskrifuð við fall þeirra, hvers vegna skuldar þá fólk nýju bönkunum fulla upphæð á láninu? er ekki eitthvað stórlega athugavert við þessa útreikinga.
Annars er ég ein af þessum fíflum sem treysti þeim sölumanni sem seldi mér bílinn minn sem dæmi. Skoðaði bara útreikningana á afborgununum og spáði ekkert meira í því. Svo fellur krónan og lánið mitt rýkur upp.. jú ég hafði án þess að vera sagt það og án þess að skoða skilmála verið með helming í kröfu... lol ;) sit uppi með það núna að hafa tapað þeim 900þús sem ég borgaði út í bílnum. Samt vil ég ekki láta gera eitthvað fyrir mig eða fólk í minni stöðu "körfulán á bílnum" því bíll er munaðarvara annað en heimilið.
A.L.F, 5.3.2009 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.