Góðir landar

Pembina1Frændur okkar í Manitoba eru margir áhrifamiklir og ætla að styðja við bakið á Íslendingum í atvinnuleysinu. Það er góð tilbreyting fyrir til dæmis ungt fólk að fara vestur um haf, kynnast heiminum, ná góðum tökum á enskunni, eignast nýja vini. Muna bara að koma aftur til landsins. Þrengingarnar nú mega ekki leiða til varanlegs landflótta. Árið 1983 fór ég til háskólanáms við Manitobaháskóla. Það var mjög skemmtileg reynsla. Var fréttaritari útvarps og sendi þó nokkuð af pistlum. Einnig var gerð þáttaröð sem kallaðist "Af Íslendingum vestanhafs". Það voru tíu þættir. Þá keypti ég mér mótorhjól og fór alla leið til Churchill við Hudson Bay.

BoggiGulliFljótlega eftir komuna hófum við Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur á Akureyri búskap í "townhouse" við Pembina Highway. Þetta var glæsileg íbúð og ég var "strákurinn" meðal hóps okkar frá Gamla landinu. Ég var bara 22 ára. Leigði einnig með Borgþóri Magnússyni (við erum á myndinni) plöntuvistfræðingi og Jónasi G Halldórssyni sálfræðingi. Þarna voru um tíu Íslendingar í námi sem héldu vel hópinn. Einnig voru nokkuð mikil tengsl við aðra Íslendinga sem höfðu flust þangað og svo auðvitað Vestur-Íslendinga. Fyrri veturinn minn þarna var Baldur Hafstað að leysa Harald Bessason af sem yfirmaður Íslensku deildarinnar við háskólann.

Haraldur var miðpunktur alls starfs meðal Vestur-Íslendinga, þekkti betur sögu, ættir og þræði fólksflutninga heldur en flestir aðrir. En Íslendingar höfðu víða komist til áhrifa innan fylkisins og í Kanada. Þar má nefna Kristjánsson bræður frá Gimli sem að mig minnir voru fimm og allir luku doktorsprófi. Ég kynntist einum þeirra Albert Kristjánssyni af tilviljun á leið í banka. Við stóðum fyrir utan dyrnar upp úr klukkan níu og hann var enn lokaður. Hann horfir á mig snöggt, kankvís maður um sextugt og segir "I thought the bank opened at nine  o'clock". Ég svaraði "I thought so too!". Hann vatt sér þá snöggt að mér og rétti út höndina og sagði "Komdu sæll og blessaður, Albert Kristjánsson heiti ég". Þekkti framburðinn. Jafnvel afkomendur íslenskra innflytjenda í þriðja lið höfðu sín framburðareinkenni.

GunnlBaldurHringdi í hann seinna varðandi þáttagerð og vildi fá hann í viðtal vegna þáttana um Vestur-Íslendinga. Hann var snöggur til svars og sagðist ekki vera nógu gamall, ég ætti að tala við Baldur bróður hans (við mótorhjólið). Það varð raunin og fór ég á mótorhjólinu upp að Gimli og gisti hjá honum í húsi fjölskyldunnar. Hann hafði um langt skeið verið hagfræðiprófessor, mikilsmetin ráðgjafi víða um heim. Þessi maður var sérlega hlýlegur og greindur. Urðum við ágætir vinir á stuttri dvöl. Hann sagði mér frá því þegar hann var rekinn frá háskólanum í North-Dakota á McCarthy tímabilinu. Hann sagðist ekki hafa tilheyrt neinu stjórnmálastarfi en einungis verið að kenna nemendum gagnrýna hugsun. Ég gat síðan ekki notað hljóðupptökuna fyrir útvarp því þættirnir urðu að vera íslensku. En hef alltaf haft þá tilfinningu síðan að ég ætti eftir að gera þessum merka manni betri skil.

BjossiBombEftir dvölina hjá Baldri fór ég til Björns Jónssonar læknis í Swan River, "Bjössa bomb". Gisti þar og tók áhugavert viðtal við hann. Bjössi hafði á tímabili átt í baráttu við áfengishneigð og því greinilega haft þörf á að beina virkninni í annan farveg. Hann var skurðlæknir, flugmaður, bátamaður og síðast en ekki síst tileinkaði hann sér fræði sem hann skrifaði bók um og kallaði "Stjarnvísi í Eddum". Þar heldur hann því fram að Askur Yggdrasils, Mímisbrunnur og fleiri hugtök norrænnar goðafræði hafi verið kennileiti víkinga til að þekkja stjörnur himinsins. Hann rölti með mér út í skóg þegar að kvölda tók benti til hægri og vinstri af mikilli ástríðu til að útskýra samsvörun við kennileiti víkinga á himinhvolfinu.

Í viðtalinu sagði hann mér frá sérstæðri læknisvitjun lengst út í skóg með uxakerru til úkraínskrar fjölskyldu. Þar tók hann þá ákvörðun að brjóta læknaeiðinn og aflífa mann sem hrópaði af angist og kvölum vegna langvinns krabbameins. Hann sagðist hafa skynjað úr augnsvip allra, kröfuna um að leysa manninn frá þrautum. Ákvað að gefa of stóran lyfjaskammt. Skömmu síðar var honum boðið að borða með stórfjölskyldunni. Kvöldið þróaðist þannig að dreginn var fram einhver heimagerður úkraínskur mjöður og þar hófst á endanum kappdrykkja. En Bjössi sagði að hann hefði haft þá alla nema húsfreyjuna. Hún hefði drukkið hann undir borðið.

JohnsonGeorge Johnson hét læknir frá Gimli sem hafði verið heilbrigðisráðherra í fylkinu og varð á þessum árum gerður að fylkisstjóra. Kona hans var Doris Blöndal (Gillian dóttir þeirra teiknaði myndina) Þau voru bæði miklir Íslendingar og var Doris meðvituð um að það gæti talist fínt að vera Blöndal. Kynntist fjölskyldunni í gegnum dóttur þeirra í háskólanum, en við urðum nánir vinir. Önnur dóttir var Janis Johnson öldungadeildarþingmaður í Ottawa. Hún var skemmtileg blanda af íhaldi og kvenréttindakonu. Bæði glæsileg og skemmtileg, hörð og hlýleg. Hún var kosningastjóri Brian Mulroney þegar að hann sigraði og varð forsætisráðherra íhaldsmanna 1985. Hringdi í hana klukkan fimm að morgni þegar úrslitin lágu fyrir og viðtal kom við hana í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Síðar árið 1993 fór ég með Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands til Winnipeg að vetri til í vísindaleiðangur vegna samanburðarrannsóknar á Vestur-Íslendingum og Héraðsbúum. Þá var heilsu George mikið farið að hraka, en hann leit við á rannsóknarhópinn. Man að ég var í lungnamælingum og það voru einmitt lungun sem voru að angra hann. Bað hann mig að fá mælingu og spurði svo með tóni sem að sagði mér hvert svarið ætti að vera "It´s not so bad is it?". Hann var dáin rúmu ári síðar.

HaroldFinnurÁður en ég fór vestur um haf vissi ég af frændfólki í móðurætt og föðurætt. Frændi minn Harold Bjarnason hafði verið einn fyrsti Vestur-Íslendigurinn til að fá eins árs námsstyrk til dvalar á Íslandi. Þegar ég kom út hafði ég fljótlega samband við hann, en hann var þá framkvæmdastjóri fyrir kanadískum hveitiútflutningi (Canadian Wheat Board). Áður hafði ég kynnst systrum hans frá Vancouver þegar þær komu til landsins. Við áttum ágæt samskipti og gaman að því þegar Finnur föðurbróðir, Anna María kona hans og Martha dóttir þeirra komu í heimsókn til okkar til Winnipeg (myndin er af Harold og Finni á göngu fyrir framan Fort Garry safnið).

Harold varð aðstoðarlandbúnaðarráðherra í landstjórn Mulroney, en síðar sneri hann aftur til Winnipeg og varð rektor landbúnaðarháskólans (School of Agriculture, University of Manitoba). Hitti hann fyrir nokkrum árum þegar hann kom í stutta heimsókn með fyrirlestur, ásamt þvi að fara á Hvanneyri og Hóla með viðræður um samstarf. Fengum okkur að borða í Perlunni. Hann sýndi mér teikningu af fyrirhuguðum glæsilegum sumarbústað við Winnipeg vatn. Rætur hans lágu til Gimli og Íslands

Landnám Íslendinga vestanhafs er merkileg saga. Þarna á milli liggja enn strengir og sterk tengsl. Þökkum löndum okkar og frændum fyrir stuðninginn.


mbl.is Samkomulag um atvinnumöguleika í Manitoba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Jedúddamía hvað þú ert ungur þarna..........

Hrönn Sigurðardóttir, 5.3.2009 kl. 12:43

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

.... ég er ungur enn ...    

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.3.2009 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband