Skilningsleysi Sighvats Björgvinssonar

Helsti kostur stjórnmálamanns hlýtur að vera ef honum tekst að halda auðmýkt gagnvart því hlutverki að vera fulltrúi fólksins. Ganga fram með heildarsýn sem skilar sem flestum viðunandi úrbótum og lausnum, grundvöll til framtíðar. Með bankahruninu kipptu gengisbreytingar og verðtrygging fjárhagslegu öryggi stórs hluta heimilanna í landinu.

Hagsmunasamtök heimilanna og nú talsmaður neytenda hafa talað fyrir leiðréttingu á þessum hluta húsnæðislána. Íbúðarhúsnæðið sé kjölfesta fjölskyldulífs og útgangspunktur í sparnaði. Yfirvinna til margra ára hefur safnast í eignarhluta í húsnæði, sem gengi og verðtrygging hafa brennt upp að verulegum hluta á síðasta ári.

Um þetta vandamál talar Sighvatur Björgvinsson ekkert í grein sinni í Fréttablaði dagsins. Greinin er andsvar til Benedikts Sigurðarsonar á Akureyri. Sighvatur heldur þeirri staðreynd ekki til haga að það var pólitísk aðgerð að veita 200 milljörðum í peningamálasjóði og 600 milljörðum til að tryggja tapað sparifé að fullu.

Megininntak greinar hans fer í að verja verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hann rekur réttilega þann vanda sem að var á verðbólgutímanum þegar bæði sparifé og lán urðu að engu á litlum tíma. En hann virðist ekki átta sig á því að ungt fólk og á miðjum aldri stendur nú frami fyrir vandanum með öfugum formerkjum. Höfuðstóllinn rýrnar hratt í verðbólgu síðustu mánaða.

Sighvatur segir; "Mér er ljóst, að margt fólk á nú við erfiðleika að etja vegna skuldsetningar. Þeim þarf að bjarga, sem hægt er - en sumum er einfaldlega ekki hægt að bjarga. Þeim, sem farið hafa offari í að reyna að lifa á sparnaði annarra verður ekki bjargað". Það er enginn að biðja um ölmusu heldur leiðréttingu. Réttlæti að eignir þessa hóps séu verndaðar líkt og sparifjáreigenda.

Því miður hefur trú mín á skilningi Sighvats Björgvinssonar á kjörum alþýðunnar minnkað með þessari grein. Svo virðist vera að hann vilji eingöngu tryggja hlut sparifjáreigenda og lífeyrissjóða í efnahagskerfi landsins. Hann skynjar ekki vandann og að það er betri leið að gera slíka leiðréttingu á húsnæðislánum frekar en að stefna hinum mikla fjölda í þrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sighvatur bendir réttilega á að ef það á að gefa einhverjum eitthvað, verður það frá einhverjum tekið. Hver röddin á fætur annarri hefur komið fram og sagt að niðurfærslur lána kosti ekkert. Engin bókhaldsbrella getur framkvæmt slíkan gjörning hvort sem menn nota orðið leiðrétting eða eitthvað annað. Svo illa er einfaldlega fyrir okkur komið. Hafa menn ekki sopið hveljur yfir afkomu lífeyrissjóðanna? Er á það bætandi?

Gáfaður (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 14:10

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það hugsaði engin um afkomu lífeyrissjóðanna þegar sjóðir og sparífé voru bættir í topp. Þetta snýst um jafna stöðu milli mismunandi eigna. Persónulega finnst mér að þar eigi íbúðarhúsnæði að hafa sérstöðu miðað við annað en raunin er að eignarhluti fólks í fasteignum er að brenna upp.

Það er ekki hægt að skrifa þetta á óábyrga skuldsetningu fólks. Gengi og verðtrygging hafa tekið sveifluna annars vegar vegna stefnu stjórnvalda síðustu ára og ævintýramennsku útrásarinnar. Verðbréfa og flottræfilsyllerí einhverra kommissera í lífeyrissjóðum síðustu ára eru orsök slakrar afkomu lífeyrissjóða.

En væntanlega verður því velt yfir á aldurshópinn 25-55 eins og öðru.

Gunnlaugur B Ólafsson, 6.5.2009 kl. 19:05

3 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Já félagi.  Sighvatur "skilur ekki vandann" og misskilur auk þess tillögu eða hugmynd Talsmanns neytenda varðandi "eignarnám" veðskulda.   Auðvitað gengur hugmyndin um gerðardóm út á að tjóninu af leiðréttingu á vísitöluyfirskotinu og/eða forsendubrestinum fyrir lánakjörum - sé deilt á milli lántakanda og lánveitanda/fjármálfyrirtækja.   Með því væri ekki verið að gjaldfella neinn reikning beint á ríkissjóð og jafnvel heldur ekki óbeint.   Hins vegar eins og þú bendir á er búið að rétta myndalega hlut sparifjáreigenda í innistæðutryggingu og peningamarkaðsreikningum - með vöxtum og fullum verðbótum.  

Með því að ríkisvaldið tryggir amk. 900 milljarða af efnahag bankanna á ábyrgð ríkissjóðs til handa sparifjáreigenda -- langt umfram skyldur Innistæðutryggingasjóðs - þá var einkum verið að rétta stórar fjárhæðir til þeirra ríkustu - - því lágmarkstryggingar dugðu langflestum almennum sparifjáreigendum.

Með ákalli um leiðréttingu á skuldum heimilanna er verið að biðja um jafnræði milli lántakenda annars vegar og sparifjáreigenda hins vegar.  Fjármagnseigendur eru búnir að fá sitt. . . . . en skuldararnir bíða.

Svo misskildi Sighvatur líka alveg hvar í kerfinu Talsmaður Neytenda starfar og sullaði allt í kring um sig. . . .

Af grein hans í dag má ráða að hann er fyrst og fremst í vörn fyrir verðtryggingun og vísitöluna sem slíka - - en ekki að glíma við jafnræðissjónarmið í anda jafnaðarmanna allra alda og landa.

Benedikt Sigurðarson, 6.5.2009 kl. 20:01

4 identicon

Það að látast skilja hvað málið snýst um er ekki það sama og að skilja. Flestir ráðamenn skilja hvorki upp né niður í þessum málum og þeim er bara stjórnað. Ekki af okkur almenna kjósenda, heldur af þeim sem eiga peningana (hverjum er búið að hjálpa? Þeim sem eiga peningana) Þegar ég fer í banka og lána pening, þá eru þeir búnir til á staðnum úr engu. Reyndar er ekkert á bakvið upphæðina sem ég lána. Þetta eru bara tölur í tölvukerfi með ekkert á bakvið sig. Afhverju má ekki gera þetta EKKERT aðeins minna?

Alex (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:51

5 identicon

Þegar gamlir "draugar" úr pólitískri fortíð eins og Sighvatur rumska, þá brosi ég bara útí annað og hugsa til baka.  Hvað og hvenær gerði Sighvatur eitthvað annað en að "rífa kjaft" hér á árum áður.  Hann átti það til að reyna að vera "rólegur og yfirvegaður" einstaka sinnum en það fór honum afar illa.

Ég tek lítið mark á blessuðum manninum og það sama gerði ég oftast hér áður fyrr.  Sighvatur, njóttu lífsins á þínum "ríflegu" ríkiseftirlaunum þú hefur ábyggilega efni á því, enda vafalítið látið verðbólguna éta upp húsnæðislánin þín á sínum tíma og "ríkistryggði sparnaðurinn" þinn er í höfn.  Ég á ekki von á því að þú getir sætt þig við að "jafnrétti" fái þrifist í þjóðfélaginu, þrátt fyrir að þú hafir reynt að telja þínum gömlu kjósendum trú um "jafnaðarmanninn" hér á árum áður.  Þú hefur sannað að það varstu ekki með þínum síðustu blaðagreinum og verður varla úr þessu.   

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband