31.5.2009 | 02:42
Þjóðlendumál Stafafells í Lóni
Efinn
Lög um þjóðlendur voru sett árið 1998 með það markmið að eyða réttaróvissu og skýra eignarhald á hálendinu. Ástæður þeirrar lagasetningar voru að niðurstöður dóma í Hæstarétti höfðu skilið lönd inn á miðhálendi landsins eigendalaus. Hvorki sveitarfélög né ríkið gátu sannað réttmætt tilkall til landsins. Helsta svæðið sem hafði þessa óvissu stöðu var Landmannaafrétt en dómur um hann féll í Hæstarétti árið 1981.
Útfærslan varð síðan allt önnur og alvarlegri og ekki tókst á Alþingi að snúa af þeirri braut. Með kröfum niður í sjávarmál á þinglýstum eignum sáðu lögmenn ríkisins inn efasemdum um eignarhald sem enginn hafði véfengt öldum saman. Meginviðmið um að þinglýst skjöl séu rétt ef þeim hefur ekki verið mótmælt snúast við. Þannig verður hin nýja lína í meðferð mála að ef einhvers staðar er feilnóta í samhljómi við Landnámu er kominn vafi. Gert ráð fyrir þjófseðli þess sem skrifaði landamerkjalýsinguna.
Með Geirlandsdómi Hæstaréttar var fyrst tekin upp sú dómahefð um stórjarðir að láta þúsund ára sagnir Landnámu hafa vægi í rökstuðningi fyrir niðurstöðu. Síðan hefur þetta orðið viðurkennd þjóðerniskennd stefna æðsta dómsvaldsins í landinu að taka Landnámu sem opinberunarbók og helstu heimild. Skiptir þá engu máli þó að helstu sérfræðingar um áreiðanleika og réttmæti bókarinnar dragi sannleiksgildi hennar í efa.
Einn helsti ráðgjafi við gerð þjóðlendulaga var Tryggvi Gunnarsson núverandi Umboðsmaður Alþingis. Á þeim árum sem lögin voru í undirbúningi spurði ég hann hvort að það væri möguleiki að krafa væri gerð inn á land Stafafells. Taldi hann það algjörlega útilokað. Lögin væru sett fram til að leysa úr réttaróvissu og ákvarða um einskismannslönd. Stafafell væri landfræðilega vel afmörkuð eining og þinglýst eignarland.
Öræfi
Það sem var einnig talið draga úr líkum á því að ríkið hefði hugrekki í að ásælast þetta land var sú staðreynd að árið 1913 selur það Jóni Jónssyni prófasti jörðina Stafafell með öllum gögnum og gæðum eins og stendur í afsalinu. Öll eldri gögn og vatnaskil sem eru hefðbundin landfræðileg viðmið um eignarhald styðja við þinglýst landamerkjabréf Stafafells. Elsta heimildin um eign Stafafells er úr vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar þar sem segir að Stafafell eigi "Víðidal allan".
Skari ríkislögmanna leituðu uppi orðalag eða vísbendingar um að einhver mörk lægju á milli heimalanda og afréttarlanda. Þannig fór hugtakið "afréttur" að hafa mikla lagalega merkingu. En í hefðbundnu máli í minni sveit var það einkum notað um sumarhaga sauðfjár og hefur ekki meiri lagalega merkingu en að hreindýr leita í Kringilsárrana yfir sumartímann. Skipting jarðarinnar í einingar var eingöngu landfræðileg. Helstu kennileiti Eskifell, Kollumúli og Víðidalur.
Vegur var lagður inn til fjalla á Illakamb 1965, en göngubrú verið byggð við Kollumúla 1953. Skyndidalsá var farartálmi. Við þær aðstæður fóru ferðamenn að upplifa að hér væri að nokkru um sjálfstæða einingu að ræða. Landeigendur sömdu síðan um að friðlýsa þann hluta jarðarinnar árið 1976 undir nýirðinu Lónsöræfi en Stafafellsfjöll sett í sviga. Ef tilvísunin hefði verið Friðlandið Stafafelli, þá hefði fræjum efans ekki verið sáð, né gefnar forsendur til að búta niður þessa sögulegu og náttúrulegu heild.
Dómar
Nú er tíu ára skeiði vegna þjóðlendumála Stafafells lokið. Fyrst kom ósvífin krafa ríkisins, síðan niðurstaða óbyggðanefndar sem var eins og köld gusa, síðan kom niðurstaða Héraðsdóms Austurlands sem efldi trú á skynsemi og að setja fyrirliggjandi gögn í rökræna heildarmynd án þess að leggja sækja röksemdir um óvissu á landnámi eða heilindi séra Jóns Jónssonar sem lét allar aðliggjandi jarðareigendur skrifa upp á bréfið og engin hefur véfengt í heila öld. Landamerki sem að eiga sér fjögur hundruð ára sögu.
Ákveðið var að vísa niðurstöðu Hæstaréttar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þessu var ekki unað að ríkið með sinn fjármálaráðherra teldi sig geta fengið frítt helming jarðar sem annar ráðherra ríkisins hafði 1913 selt með gögnum öllum og gæðum. Því var ekki unað að frásagnir fornrita hefðu meira vægi en fjögur hundruð ára eignarsaga. En því miður vísaði dómstóllinn málinu frá þann 20. janúar á þessu ári.
Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstólinn segir í viðtali í Morgunblaðinu í gær; "Síðan eru önnur mál sem þurfa ítarlegri rökstuðning, jafnvel þó að þeim sé á endanum vísað frá. Íslensku þjóðlendumálin sem tekin voru fyrir fyrr á þessu ári eru gott dæmi um slíkt. Einu þeirra mála var til að mynda vísað frá eftir mjög rækilega athugun. Frávísunarákvörðunin er löng og ítarlega rökstudd og var tekin af sjö manna dómi". Veit ekki til að annað þjóðlendumál en Stafafells hafi verið tekið fyrir hjá dómnum snemma á þessu ári.
Það hefur því skort hjá dómnum til að fara gegn hinni ótrúverðugu fornsagnadýrkun sem þjóðlendumálin eru standa og falla með. Því stendur niðurstaða Hæstaréttar. "Nyrsti hluti "Lónsöræfa" úrskurðaður og í afréttareign Stafafells". Það er skondið að þessir aðdáendur Landnámu bera meiri virðingu fyrir nýyrðinu Lónsöræfi heldur en hinu þúsund ára gamla jarðarnafninu Stafafelli. Það hefði ekki hljómað eins trúverðugt ef talað væri um að nyrsti hluti Stafafellsfjalla hefði verið úrskurðuð þjóðlenda.
Hverju skilaði öll þessi vinna lögfræðinga og dómara? Hún hefur valdið miklum óþægindum fyrir landeigendur að þurfa að hafa þessi mál í gangi. Eyddi hún óvissu eins og er megintilgangur þjóðlendulaga? Nei, þvert á móti. Hinni landfræðilega og sögulegu einingu hefur verið skipt upp í hluta þ.e. eignarland og þjóðlendu, sem að jafnframt er einkaafréttur Stafafells. Þetta hugtak einkaafréttur er nýtt og virðist hafa verið fundið upp í þessu máli.
Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur segir að hinar misvísandi niðurstöður dóma í héraði og fyrir hæstarétti muni gefa af sér nýja öldu málaferla til að fá túlkun á dómsforsendum. Þannig munu landeigendur Stafafells líta svo á að einkaafréttur merki að landeigendur jarðarinnar fari með þennan hlut eins og um eignarland sé að ræða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2009 kl. 00:04 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnlaugur
Ég hitti í gær mann sem þekkir vel til þessara mála. Hann segir að áður fyrr hafi "eignarrétturinn" verið nýtingarréttur. Bændur hafi fengið svo og svo mikið land til eigin afnota en ekki til ævarandi eignar. Eignarrétt á landi í dreifbýli megi því ekki skilja í þröngum skilningi hins kapítalíska eignarréttar. Svo mörg voru þau orð!
Sigrún P (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 13:08
Síðustu tvo áratugi eða svo hefur þessi hugsun um að það land sem að hafi verið notað til beitar hafi eitthvað veikari eignastöðu.
Aðalmálið er að tilteknir aðilar kaupa jörð af ríkinu og það er ekki gerður neinn greinarmunur á eignarrétti eftir hæð yfir sjávarmáli. Jörðin er einfaldlega seld með gögnum öllum og gæðum.
Það er versta niðurstaða að kljúfa slíkt fjalllendi niður sem hefur verið eining um aldir á illskiljanlegum og hæpnum forsendum.
Markmiðið um að draga úr réttaróvissu hefur síður en svo náðst og þjóðlendumálin öll hafa kostað ríkið gífurlega fjármuni.
Þetta er dýrasta atvinnuskapandi verkefni fyrir lögfræðinga sem farið hefur verið af stað með í sögu landsins.
Auðvelt hefði verið að semja við þinglýsta eigendur um kaup á hálendismelum ef ríkinu vantar land. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 2.6.2009 kl. 01:08
Varðandi tilvísun Davíðs Þórs þá er hann að vísa til málsins er varðaði Fjall og Breiðármörk í Öræfum. Það var fyrsta þjóðlendumálið sem MDE tók til úrskurðar, en vísaði frá í nokkuð ýtarlegu máli. Það voru mikil vonbrigði að MDE skyldi ekki sjá hversu óhóflega sönnununarbyrði dómstólar hafa lagt á jarðeigendur til sönnunar beinum eigarrétti á landi.
Ég er sammála því að orðin "afréttareign" og "einkaafréttur" hafi fremur óljósa merkingu að lögum, og því ekki ólíklegt að reyni á það síðar fyrir dómstólum hvert sé inntak þess eignarréttar sem þessi hugtök eiga að afmarka.
Er að fara flytja mál Valþjófsstaðar í Fljótsdal á morgunn í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í því máli varð niðurstaða ÓN sú að þessi ein stærsta jörð landsins væri að mestum hluta þjóðlenda, og það þrátt fyrir að máldagi Valþjófsstaðar frá 1397 lýsti merkjum allt til Vatnajökuls. Ekki gott að segja hvernig héraðsdómarinn metur þessar fornu eignaheimildir, en spyrjum að leikslokum.
Ólafur Björnsson, 4.6.2009 kl. 00:36
Sæll Óli - Gangi þér vel í baráttunni. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 8.6.2009 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.