Fljúgandi innanlands

Ernir

Sú var tíðin að Fokker vélar fullar af fólki með flugfreyju um borð svifu um loftin fram og til baka til Hornafjarðar. Ýmist þvert yfir hálendi og jökla stystu leið eða meðfram ströndinni. Þetta var algengast ferðamáti fólks. En síðan eftir að malbikað varð alla leiðina og vegurinn gerður greiðfærari með því að taka af beygjur og útúrdúra þá fara flestir á sínum einkabílum.

En í gær tók ég flug að austan í góðu veðri. Vignir Þorbjörnsson og frú standa vaktina í afgreiðslunni og halda því við heiðri ættarinnar í flugrekstrinum. Faðir hans Þorbjörn var ljúfur karl sem að notalegt var að hitta áður en maður steig sín fyrstu skref upp í flugvélar sem barn. Flugfélagið Ernir hefur haldið uppi áætlunarflugi austur síðustu misserin og virðist standa sig vel.

Það voru hinsvegar bara fjórir farþegar suður í morgunfluginu í gær í nýlegri 19 sæta vél félagsins. Flugfarið kostar 11.600 krónur. Til samanburðar kostar rútufar frá Höfn 11.200. Kostnaður við bensín í akstur til Reykjavíkur miðað við frekar neyslugranna bifreið væri nálægt kostnaði við flug eða rútu. En það verður hagstæðara eftir því sem fleiri eru samferða.

Miðað við að ekki sé meiri verðmunur á rútu og flugi er það áhugavert að velta því fyrir sér afhverju fleiri nýta sér ekki þægindin að vera komin þessa löngu vegalengd á klukkustund í stað þess að nýta lungað úr daginum í ferðina. Ég held að flugið eigi eftir að verða vinsælli ferðamáti að nýju. Það þarf hugsanlega að úthugsa einhverja gleðipinna fyrir kúnnann.

Þar er hægt að auka skemmtun eða fróðleik bæði í flugstöðinni. Hægt væri að hafa margmiðlunarefni um svæðið í flugstöðinni eða aðgang að netinu, svo maður þurfi ekki að hanga og horfa á myndina af Ólafi Ragnari meðan beðið er eftir tilkynningu um brottför. Það er líka nauðsynlegt að hafa eitthvað lesefni í flugvélinni. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir flugfélagið að henda nokkrum eintökum af Fréttablaði morgunsins svo farþeginn hafi eitthvað að gera á meðan fluginu stendur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Þetta snýst um það að vera sjálf síns herra. 

Ef þú keyrir þá ræður þú sjálfur hvert þú ferð.

Og svo hef ég frétt af  ókristilegri verðlagningu á bílaleigubílum.  Fyrir venjulegt fólk sem á bíl borgar sig að keyra, hinir þurfa að notast við flugið. 

Myndi samt gjarnan vilja upplifa að sjá landið mitt úr lofti, en það bíður betri tíma og bústnari buddu.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 15.8.2009 kl. 02:04

2 Smámynd:

Kannski er ástæðan fyrir fámenninu í fluginu sú að ekki eru margir heimamenn á ferðinni suður og austur og ferðamennirnir eru að skoða landið og keyra því frekar. En eigi maður leið til Hafnar einvörðungu er ekki spurning að það borgar sig að fljúga. Vonum bara að flugfélagið Ernir haldi áfram þessu góða starfi.

, 15.8.2009 kl. 07:35

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það liggur í loftinu sú trú að það sé jafndýrt að fljúga innanlands og flugferð til algengustu áfangastaða erlendis ( Kaupmannahöfn, London). Það kom mér því þægilega á óvart að þetta stenst alveg samanburð við kostnað með rútu og bíl. Held að þetta með að fólk vilji vera sínir eigin herrar og að ferðamenn velji hringveginn til að skoða landið sé vissulega rétt.

En ég hef verið umsjónaraðili með sumarleyfisgöngum (4-6 daga) að Stafafelli í Lóni í fjölda ára. Fyrir um 20 árum komu flestir með morgunflugi fyrsta dags og fóru með síðdegisflugi lokadags. Síðustu þrjú árin kemur engin með flugi, þó stærstur hluti sé að keyra 500 km austur frá Reykjavík og fram á nótt síðasta daginn. Þarna væru þægindi að fljúga. Tíminn er líka peningar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.8.2009 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband