Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
11.6.2007 | 13:48
Tengsl við náttúru í þéttbýli
Margt bendir til að Mosfellsbær sé að glutra niður þeirri sérstöðu sem felst í nánum tengslum við náttúruna. Þeir eru áreiðanlega margir sem fluttust í "sveitina" einmitt til þess að blanda saman tækifærum þéttbýlis og tengslum við sveitastemmingu og náttúru. En bæjaryfirvöld virðast orðin þreytt á sveitamennskunni og innleiða nú hraða og mikla uppbyggingu húsnæðis í anda þess sem átt hefur sér stað í Kópavogi. Niðurstaðan er að farið er fram af meira kappi en forsjá. Áform eru uppi um að byggja á grænu svæðunum, sem flest eru tún í einkaeign, á næsta áratug. Á sama tíma er ekki gætt að því að tryggja verndun og útivistarmöguleika á Varmársvæðinu. Þar á að leggja tengibrautir í Helgafellshverfi og Leirvogstungu sem munu skerða verulega þessi lífsgæði Mosfellinga. Með réttum áherslum í skipulagsmálum hefði verið hægt að tryggja fullnægjandi vegtengingar við nýju hverfin og að vernda þessa lífæð bæjarins.
Ef til vill er öllum sama, svo lengi sem við höfum nýlegt grill á pallinum og góðan jeppa og hestakerru á planinu. Að þessu leyti finnst mér Mosfellsbær vera að þróast í svipaða átt og Garðabær. Stórt samansafn af fólki sem leggur aðaláherslu á hreiðurgerðina, en litlar á mannlíf og menningu í bænum. Vonandi viljum við meira. Fór nýlega á laugardegi út að borða og á öldurhús í Hafnarfirði. Það var virkilega gaman að sjá allt þetta fólk að skemmta sér og njóta lífsins. Skynja þennan bæjarbrag og samfélag. En eitt er það sem Garðabær gerir betur en Mosfellsbær þessa dagana. Það er að móta skipulagsstefnu og uppbyggingu þannig að hún sé í sátt við umhverfið. Meðan Mosfellsbær siglir Kópavogsleiðina, að uppbygging og framfarir séu mældar í flatarmáli af malbiki og rúmmetrum af steypu, þá hefur Garðabær markað stefnu sem leggur áherslu á að halda góðum tengslum við náttúruna.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur snúið sér til íbúa bæjarins við að kanna framboð, eftirspurn og notkun náttúrutengdra útivistarsvæða í nágrenninu. Stefnt er að friðlýsa tiltekin svæði svo öllum sé ljóst að við þeim verði ekki hróflað. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ segir í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn; "Við finnum að fólk tekur þessu vel og það er aukinn áhugi, sérstaklega hjá ungu fólki sem flytur í bæinn og er áhugasamt um náttúruna í nánasta umhverfi. Það er mjög ánægjulegt að verða vitni að þessari vakningu." Þetta er lofsvert framtak hjá bæjarstjórninni. Það er augljóst að aukin eftirspurn er eftir hverfum sem skipulögð eru fyrir þá sem vilja njóta kosta þéttbýlis en halda nánum tengslum við náttúruna, t.d. hið nýja Urrriðaholtshverfi í Garðabæ, sem virðist metnaðarfullt verkefni og Tjarnabyggð í nágrenni Selfoss.
Ætlar Mosfellsbær að glata ímynd sinni á meðan flestir aðrir reyna að innleiða slík tengsl íbúa og náttúru? Fyrir um áratug var Mosfellsbær verðlaunaður af Sambandi íslenskara sveitarfélaga fyrir uppbyggingu göngustíga, en síðan hefur öll hugsun og heildarsýn í umhverfismálum verið veikburða. Það getur verið ágætt fyrir Mosfellsbæ að sækja kraft framkvæmda í Kópavoginn, anda mannlífs í Hafnarfjörð og fyrirhyggju í umhverfismálum til Garðabæjar. Blanda síðan í réttum hlutföllum við sögu sveitarinnar, hestamennsku, listalíf, endurhæfingu og útivist í Mosfellsbænum. Njótum dagsins í framsýnu og öflugu bæjarfélagi með kraftmiklu mannlífi og útivistarmöguleikum. Á forsendum náttúrutengdrar uppbyggingar þéttbýlis og aðkomu almennings að skipulagsvinnu hafa Varmársamtökin staðið vaktina. Þau lengi lifi!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.6.2007 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2007 | 14:33
Geir Waage eða Hjörtur Magni?
Prestar hafa lengi verið vinsælt umræðuefni. Þátttaka í slíkri samræðu stendur mér að nokkru nærri því ég er uppalin á kirkjustað og á móður með mikinn áhuga á prestum. Afi hennar var prestur og forfeður í sjö ættliði. Geir Waage minnir mig á karaktera í ljósmyndasafni séra Jóns Jónssonar langafa míns á Stafafelli. Hann er fyrir mörgum tákn stöðnunar í trúarlífi landsmanna, en fyrir öðrum er hann tákn staðfestu. Hjörtur Magni er fríkirkjuprestur og er tákn nútímans, frjálsræðis og að mannnkærleikur sé útgangspunktur kirkjustarfs. En fulltrúar kerfis og bókstafs upplifa ógnun af framgöngu hans og viðhorfum.
Hjörtur Magni skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag. Þar sem að hann rekur þætti er snúa að kæru átta presta til siðanefndar, aðstöðumun frjálsra trúfélaga og Þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan hefur sína hjörð embættismanna út um allt land á launum frá ríkinu. Hann bendir á að í sinni sókn séu 8000 sóknarbörn en í sókn þess prests sem gengur harðast fram í kærumálum og er á Hofsósi séu eingöngu 500 manns og í Skagafjarðarprófastdæmi séu 6 prestar með 6000 manns. "Hér er íslenska ríkið að sóa almannafé".
Eitt stykki prestur í hverjum bæ og byggðarlagi hefur sennilega verið eðlilegt fyrirkomulag þegar kirkjustaðir voru eini farvegur menntunar og fræðslu. Yfir jökulár og vegleysur að fara. Síðan er það spurning hvort að núverandi fyrirkomulag embættismannakerfis í trúmálum landsmanna sé úrelt. Að það sé tímaskekkja. Fólk vilji finna trúarþörf sinni farveg á frjálsari máta en að hlýða á "sinn prest" á sunnudögum.
Það er ljóst að krafan um aðskilnað ríkis og kirkju mun fá aukna vigt á næstu árum. Merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn, Heimdallur og hvað þeir nefnast helst sem telja sig talsmenn einkavæðingar og frelsis hafa ekki viljað einkarekstur á þessu sviði. Ekkert hik var á sömu aðilum að selja einkaaðilum grunnkerfi samskipta í landinu, en þeir vilja viðhalda einfaldri ríkislínu í fjarskiptum við almættið.
Blöð og tímarit leggja oft spurningar fyrir einstaklinga sem eiga að varpa ljósi á persónu viðkomandi t.d. Bítlarnir eða Rolling Stones? Jeppa eða fólksbíl? Britney Spears eða Madonna? Það mætti alveg bæta við Geir Waage eða Hjörtur Magni? Myndi svara Hjörtur Magni, en hvað með þig?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2007 | 17:32
Landnáma og landnám ríkisins
Fyrir kosningar töluðu þingmenn og ráðherrar um nauðsyn þess að endurskoða þjóðlendulög og aðferðafræði við meðferð þjóðlendumála. Meðal annars var rætt um að ríkið gerði ekki kröfur inn á þinglýst eignarlönd, sem að sátt hefur ríkt um að tilheyri tilteknum lögaðilum áratugum eða árhundruðum saman. Að landeigendur verði ekki látnir þurfa að sanna eignarrétt sinn allt aftur til landnáms. Einnig í ljósi þess að umfang málsins er margfalt meira í dómstólum heldur en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur verið staðfest af þingmönnum að þeir álitu að tilgangur laganna væri að skera úr um eignarhald á afréttum og almenningum eða svonefndu einskis manns landi.
Margt bendir til að þingmenn muni ekki hafa hugrekki til að taka á þessu máli. Þar ræður mestu ákveðin lögfræðingakúltúr sem er ríkjandi í þjóðfélaginu. Málið er orðið það flókið og umfangsmikið að fáir ná að hafa fullan skilning á forsendum þess. Því veltur ábyrgðin yfir á sérfróða menn í dómskerfinu. Framkvæmd þjóðlendulaga þróaðist frá markmiðinu um að úrskúrða um einskis manns lönd fyrir Óbyggðanefnd í að ríkið gerir kröfur inn á meginþorra allra jarða landsins, sem eiga eitthvað fjalllendi. Þar að auki er raunin sú að stórum hluta af niðurstöðum Óbyggðanefndar er vísað til æðri dómstiga, sem kallar á umfangsmikið málavafstur fyrir héraðsdómi og hæstarétti. Þessu fylgja gríðarleg útgjöld sem að ríkið hefði getað keypt margan hálendismel fyrir og forðast öll þau leiðindi sem málinu hafa fylgt.
Ef við gerum ráð fyrir að út úr öllu málavafstrinu komi einhver sameiginlegur skilningur, þá er rétt að spyrja hvert sé hið einfalda meginþema um mörk eignarlands og þjóðlendna sem lesa má út úr öllu saman. Hæstiréttur virðist fara fram hjá öllum þinglýsingum, nýtingu, sölusamningum og öðru sem styður beinan eignarrétt og lætur spurninguna um landnám hafa mesta vigt. Þar hafa frásagnir Landnámu verið þeirra haldreipi. Það er með ólíkindum að sögusagnir úr fornritum verði meginviðmið við uppkvaðningu dóma á 21. öldinni. Þrjú til fjögur hundruð ára eignar- og nýtingarsaga verður léttvæg í samanburði við frásagnir af landnámi. Það er þó afstaða okkar helstu sérfræðinga í Landnámu s.s. Sveinbjörns Rafnssonar og Einars G. Péturssonar og fleiri að hún sé fyrst og fremst sögusagnir sem voru skrifaðar upp 200 árum eftir landnám. Auk þess tók texti Landnámu breytingum og sagnaritararnir voru á Vesturlandi og Suðurlandi, sem rýrir mjög áreiðanleika frásagna í öðrum landshlutum.
Í nýlegri dómum er ekki eingöngu miðað við frásagnir Landnámu, heldur reynt að meta líkindi á að landið hafi verið numið. Tímapunktur og áhugi dómara beinist sem sagt enn að mestu að því hvað gerðist fyrir rúmum þúsund árum, frekar en skjalfestri eignarsögu og nýtingu í fleiri hundruð ár. Í úrskurði Hæstaréttar varðandi Stafafell í Lóni segir; Staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar voru þó ekki talin styðja að stofnað hefði verið til beins eignarréttar á fjalllendinu milli hásléttanna og Vatnajökuls með námi. Þarna tel ég nú að viðmiðið sé fyrst og fremst sporleti ríflega miðaldra dómara í vettvangsferðum, en þeir fóru aldrei inn á það land sem þeir dæmdu þjóðlendu. Hinsvegar er í fjölda vísitasía tiltekið að Stafafell eigi Kollumúla og Víðidal, sem er meginpartur umrædds svæðis. Auk þess er það athyglisvert að dalir sem skerast þarna langt inn til lands eru ekki nema í um tvö hundruð metra hæð og Víðidalur er gróðursæll dalur.
Eðlilegt er að gera þá væntingu til dóma að þeir stuðli að aukinni sátt. Í sveitum landsins hefur ríkt ákveðinn skilningur í fleiri hundruð ár varðandi eignarrétt á landi, þó landeigendur hafi tekist á um mörk milli jarða, þá hafa í flestum tilfellum myndast meginviðmið sem afmarkast oftar en ekki af ám og vatnaskilum. Staðir eða kirkjujarðir voru oft landmiklar og lönd þeirra hafa myndað sögulegar heildir um langt skeið. Með Þjóðlendulögum og hinum umfangsmikla málarekstri þeim tengdum er verið að innleiða nýja hugsun og forsendur fyrir umfangsmikið endurgjaldslaust eignarnám á landi. Ríkið, Óbyggðanefnd og Hæstiréttur hafa sett öll viðmið um eignarlönd í uppnám sem mun leiða af sér viðvarandi ósætti. Annarsvegar er fleiri hundruð ára eignarsaga, en hinsvegar ævaforn viðmið Landnámu og óljósar forsendur gróðurúttektar til mats á líkindum þess að land hafi verið numið. Þarna hefði Alþingi þurft að koma inn í og færa vægið yfir á sögu eignarhalds og nýtingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.6.2007 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)