Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
13.8.2009 | 15:13
Skipulag spillingar - Iðnó í kvöld kl. 8
Mætti til borgarinnar með morgunfluginu. Eitt af því fyrsta á dagskránni er að fara á fund íbúasamtaka og áhugafólks í Iðnó kl. 8 í kvöld. Markmiðið er að skoða skipulag og þróun höfuðborgarinnar í ljósi hrunsins. Hver ber ábyrgð og með hvaða hætti höfðu verktakar áhrif á ákvarðanir, hugmyndavinnu, aðkomu almennings og lýðræðisleg vinnubrögð?
Þann 12. júní skrifaði ég færslu þar sem ég benti á að hrunið hefði leitt í ljós hinn sterka málstað sem Varmársamtökin hafi barist fyrir, verðmæti náttúru og mannlífs í bæjarfélaginu. Enn er mörgum spurningum ósvarað um ábyrgð stjórnmálamanna í þessu ferli. Hvers vegna gengu þeir í einu og öllu undir hagsmuni verktaka og landeigenda?
Eðlilegast hefði verið að byrja á því að byggja upp Blikastaðaland þannig að samfelld byggð væri milli Mosfellsbæjar og Grafarvogs. En slíkri samfellu í byggðaþróun spillti hagsmunapotið. Komið hefur fram hjá Íslenskum aðalverktökum að þeir hafi ekki fengið eðlilega fyrirgreiðslu hjá Mosfellsbæ. Hún hafi einkennst af seinagangi og óljósum kröfum á verktakann um byggingu skóla.
Á sama tíma er Leirvogstunga tekið fram fyrir aðra sem byggingarland og drifið í skipulagi byggðar og lóðasölu. Þáverandi bæjarstjóri Ragnheiður Ríkharðsdóttir og forystukona Sjálfstæðisflokksins græðir um hundrað milljónir á þessari flýtimeðferð sem þessi bæjarhluti fær þar sem hún átti þar landspildu sem breytt var í húsalóðir.
Haraldur Sverrisson núverandi bæjarstjóri og formaður skipulagsnefndar hefur einnig verið bendlaður við mál þar sem óljósar línur verða milli einkahagsmuna, skipulagsvalds og lóðabrasks. Þannig að í heildina má það teljast eðlilegt að bæjarfulltrúar meirihluta bæjarstjórnar hafi ekki treyst sér til að mæta á neinn af fjölmennum íbúafundum Varmársamtakanna um skipulag Helgafellsvegar.
Vinnuaðferðirnar fólust einfaldlega í því að byrja á því að stilla strengi með verktökum og landeigendum. Nota síðan stóru sleggjuna til að berja málin í gegnum kynningar og skipulagsferli. Þessir lögboðnu þættir verða því bara sýndarmennska og ekkert svigrúm á hugmyndavinnu eða aðkomu almennings í mótun eigin umhverfis og byggðar.
Undarleegastur er hlutur Karls Tómassonar í öllum þessum málum. Hann er forystumaður Vinstri grænna og ætti að vera manna líklegastur til að berjast gegn peningahyggju og græðgi. En þar verður hlutur hans sérlega rýr. Hann dansar við gullkálfinn en tekur ekki þátt í opnu fundahaldi íbúasamtaka. Fyrir kosningar taldi hann þó það stærsta umhverfisslys að leggja Helgafellsveg í gegnum Álafosskvos og þar að auki á hann hús sem lendir nánast ofan í tengibrautinni.
Nauðsynlegt er að gera stjórnsýslulega úttekt á því hvernig það gat gerst að málin þróuðust með þeim hætti sem raun varð í Mosfellsbæ. Þar ber að sjálfsögðu að rannsaka allar styrkveitingar til stjórnmálamanna. Að hve miklu leyti liggur skýringin í persónulegum tengslum og fyrirgreiðslu til verktakafyrirtækja?
Fyllum Iðnó í kvöld!!!