Færsluflokkur: Tónlist

Fairytale Helgarlagið

Ein af mörgum ánægjulegum afurðum samstarfs þjóða í Evrópu er söngvakeppnin. Margir láta þannig að þetta sé fyrir neðan þeirra virðingu og vissulega má öllu ofgera. Til dæmis fannst mér forkeppnin hér á landi vera alltof umfangsmikið sjónvarpsefni. En þegar á hólminn er komið þá laumast allir fyrir framan imbakassana eða flatvörpurnar og horfa á keppnina. Líkt og allir horfðu á Dallas þó að sumir hefðu ekki hátt um það.

Þó Íslendingar séu með mjög gott lag í keppninni, þá finnst mér það vanta meiri neista, geggjun, orku, líf. Út frá þessu viðmiði er ég búin að velja mér sigurvegara. Það er Noregur með hinn mikla gleðigjafa og tónlistarsnilling Alexander Rybak. Hann er að nokkru á heimaslóð því hann fæddist í Minsk í fyrrum Sovétríkjum. Hann flutti fjögurra ára gamall með foreldrum sínum til Noregs, en þau eru þekkt tónlistarfólk þar í landi.

Ísland, Rússland og sennilega Noregur eig það sameiginlegt að þar eru flestir eru að eltast við ástina sem þeir misstu eða ekki fengu. Í textanum lýsir Alexander því að hann ætli halda ást sinni á  "fairytale" þó að hann gæti misst vitið. Þetta er maður að mínu skapi, með góðan smell inn í sumarið. Sagt er að Norðmenn séu það stoltir af þjóðerninu að á tyllidögum segist þeir vera norskir norðmenn, en ég ætla að vera stoltur íslenskur norðmaður þegar piltur stendur með pálmann í höndunum í Moskvu.


Oye Como Va Helgarlagið

Tito Puente samdi lagið Oye Como Va en hann flytur það hér ásamt hljómsveit sinni. Lagið er þó einkum þekkt í flutningi gítarsnilklingsins Carlos Santana. Tito Puente fæddist í Harlem 1923, sonur suður-amerískra hjóna frá Púertó Ríka. Það varð hlutverk hans í lífinu sem lagahöfundar, hljómsveitarstjóra og skapandi listamanns að útbreiða áhuga á suðrænnri tónlist. Hjá honum mætast ólíkir straumar, hann sló fyrst í gegn með mambó tónlist og Kúbanskri danssveiflu, en gerist síðan útsetjari fyrir stórsveitir og blandar danssveiflunni inn í spuna. Rekja má til Puente eitthvað sem kallast gæti suður-amerískur jazz (latin jazz).


Hallelujah

SönghópurMótlæti og sigrar eru lífsins gangur. Lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen er óður þakklætis til skaparans. Við útskrift í Borgarholtsskóla nú í desember flutti sönghópur Borgarholtsskóla tvö lög og annað þeirra var þetta lag. Samviskusöm stúlka sem ég var nýlega búin að gefa fullt hús stiga í líffræði var forsöngvari. Flutningurinn hafði meiri vigt vegna hinnar einlægu trúar og vitneskju um að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðleikum á tímabili. Naut þess að hlusta á hana syngja lagið ásamt bakröddunum.

Tajabone Helgarlagið

Ismael Lo hefur verið kallaður "Bob Dylan Senegals". Auk söngsins leikur hann á gítar og munnhörpu og textarnir hafa mikla tilvísun í hans samfélag. Þekktasta lag hans er Tajabone sem varð frægt í myndinni All about my mother með hinum spænska Almadovar.

Það er sérstök blanda af þjáningu, hreinleika og bjartsýni sem maður upplifir við að hlusta á þetta lag. Mikilvægi mannlegrar samkenndar. Slíkar tilfinningar eru viðeigandi á jólum.

 


Zorba Helgarlagið

Alexis Zorba er sögupersóna í bók sem að myndin Zorba the Greek er byggð á. Aðalhlutverk myndarinnar ar leikið af Anthony Quinn. Mekis Theodorakis gerði hinsvegar hljómlistina í myndinni og lokalagið gerði gríska þjóðlagahefð þekkta um allann heim. Theodorakis hefur blandað saman stjórnmálum og tónlist á lífsferlinum. Hann hefur barist gegn kúgun og misbeitingu valds eins og hún birtist í margvíslegum myndum.

Grískir þjóðdansar eru ekki bara stignir á sagnakvöldum heldur eru þeir lifandi þáttur í þjóðlífinu. Dansinn sem varð til 1964 með myndinni Zorba the Greek kallast syrtaki og er blanda frá hægum og hröðum þjóðdönsum. Það er ekki bara þjóðdansahefðin sem gerir lagið Zorba svo grískt og þjóðlegt. Þar er einnig spilað á hið gríska fjögurra strengja hljóðfæri bouzouki, sem á reyndar uppruna sinn að rekja til Tyrklands.

 


Kysstu mig, kysstu mig mikið - Helgarlagið

Hin mexikanska Consuelo Velazques samdi árið 1940 eitt þekktasta lag allra tíma Besame mucho áður en hún varð sextán ára og áður en hún hafði verið kysst. Margir þekktir tónlistarmenn hafa síðan glímt við lagið. Þó allar þessar útgáfur hafi sinn áhugaverða karakter þá finnst mér sérstaklega hugljúf stemming yfir flutningi hins blinda ítalska stórsöngvara Andrea Bocelli. Hann var hér í Egilshöll fyrir ári síðan með tónleika.

 


Ellen og Eiríkur

EricEllen

Eric Clapton mætti með öfluga og þétta hljómsveit í Egilshöllina í gærkvöldi. Flott hljómsveit, gítarleikurinn snilld, frábær trommu- og píanóleikur. En samt náði hann ekki að hrista svo upp í minni sálarkytru að tónleikarnir gæfu sterka upplifun. Fannst hann ekki leggja sig fram við að ná góðum tengslum við salinn. Clapton var bara í vinnunni og á leiðinni á nýjan stað næsta dag.

Ánægjulegt var að heyra í Ellen Kristjáns sem hitaði upp með hljómsveit sem var að mestu skipuð meðlimum úr eigin fjölskyldu. Eiginmaður, bróðir og dætur. Öll lögin voru frumsamin og með enskum textum. Þar var hið þekkta og hugljúfa englalag, en líka nýir verðandi smellir eins og Sweetheart í kántrístíl og svo var líka eitt skemmtilegt blúsað lag "you are moving out, while I´m moving on".

Helsti galli á tónleikahaldinu var óbærilegur hiti. Það var merkilegt að þessi mikli hiti var strax í byrjun þegar húsið var opnað. Var þetta af ásettu ráði til að auka sölu á bjór, víni og vatni? Vatnið var ekki gefins, kostaði 300 kr. Mjög langar biðraðir mynduðust við vökvasöluna.


Helgarlagið Magalenha

Samba er þjóðardans Brasilíu og þar blandast áhrif frá Portúgal, Afríku og innfæddum indjánum. Portúgalir vildu á nýlendutímanum nýta hlýtt loftslag landsins til akuryrkju meðal annars framleiðslu á sykri og kaffi. Innfæddir gengust ekki undir þessi skilyrði og voru að mestu þurrkaðir út með hervaldi og sjúkdómum hvíta mannsins. Í stað þeirra fluttu portúgalir svertingja til að vinna á ökrunum. Út úr þessum suðupotti kynþáttablöndunar varð til Brasilísk menning. Dansinn er í hugum fólks nátengdur kjötkveðjuhátíðinni í Ríó og víðar um landið.

Einn frægasti tónlistarmaður Brasilíu er Sergíó Mendes en hann ætlaði sér ungur að verða klassískur píanóleikari, en varð snemma fyrir jazz áhrifum og lenti inn í upphafi bossa nova tónlistar í Brazilíu, sem að má segja að sé samba undir jazz áhrifum. Mendez spilaði með mörgum bandarískum tónlistarmönnum bæði í Brasilíu og Bandaríkjunum, þar á meðal iðulega með Herb Alpert og síðar með Stevie Wonder. Þekktasti smellur hans með hljómsveit sinni Brasil 66 var Mas Que Nada sem að var endurútgefin 2006 með Black Eyed Peas.  Þekktasta lag hans flutt af öðrum er trúlega  I´m never gonna let you go.

Látum lag hans Magalenha með hljómsveitinni Elektra vera helgarlagið.

 


Helgarlagið Como Quieres Que Te Quiera

Held hér áfram að setja inn tengingu á myndbönd með lögum sem að hafa gripið mig í leit að suðrænni sveiflu á síðustu tveimur árum. Lagið þessa helgi er Como Quieres Que Te Quiera með Rosario Flores. Móðir hennar var þekkt á Spáni sem "flamenkó drottningin" fyrir söng sinn og faðir hennar innleiddi katalónska blöndu af rúmbu- poppi í þeim anda sem gert var alþjóðlega frægt af hljómsveitinni Gipsy Kings.

Rosario hefur unnið til verðlauna fyrir tónlist sína, sem er með áhrifum frá sigaunastíl og flamenkó tónlist, en hún er einnig þekkt fyrir leik sinn í kvikmynd Pedro Almadovar Talaðu við hana frá 2002.

 


Helgarlagið Ishq Kameena

Indversk kvikmyndagerð er stundum kennd við Bollywood, enda sumar kvikmyndir þeirra með svipuðum glamúr og í vestrinu. Hef stundum hrifist af lögum með orkumiklum og óreiðukenndu yfirbragði. Rakst á lagið Ishq Kameena fyrir fimm árum síðan og tók ég stundum orku og gleðidans með syni mínum og vinum hans. Í Furubyggðinni þar sem við bjuggum þá var mikið pláss í stofu og holi. Þar var slett úr klaufunum undir þessu lagi með hátt í tíu gaurum úr hverfinu.

Prófaði svo að leita upplýsinga um lagið og þá kom í ljós að það var úr kvikmyndinni Shakti; The Power. Þetta lag er sagt vera sett sérstaklega inn til þess að "sykra" myndina, þar dansar einn þekktasti Bollywood leikarinn, hjartaknúsarinn Shah Rukh fremst í hópi karla á móti hinni glæsilegu Karisma Kapoor. Ef við slökum á okkar eigin viðmiðum hvað sé menning og setjum okkur í Bollywood stellingar nokkrar mínútur, þá má hafa gaman af flottum dansi og krafti tónlistarinnar. Tímamótaverk!?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband