Máttlitlir vinstriflokkar í Mosfellsbæ

Í Reykjavík eru miklar líkur á að hægt verði eftir komandi sveitarstjórnarkosningar að mynda hreinan meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingar. Síðasta könnun benti til að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking væru álíka stórir flokkar og fengju sex menn hvor, en Vinstri grænir fengju þrjá menn. Hefðin fyrir samstarfi félagshyggjufólks í háskólanum undir merkjum Röskvu og samstarf þess undir merkjum Reykjavíkurlista hefur stuðlað að því að vinstri gerjun hefur fest sig í sessi í borginni. Telja má mjög ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur nái hreinum meirihluta þetta vorið. Það sem áður gat talist næstum því regla er nú að verða fjarlægur draumur í Valhöll.

Garðabær, Seltjarnarnes og Kópavogur eru bæjarfélög þar sem að Sjálfstæðisflokkur hefur lengi haldið um stjórnartaumana. Þetta eru að verulegu leyti svefnbæir þar sem að íhald hefur sótt fylgið út á framkvæmdir í bæjarfélaginu. Vísað er til Kópavogs í því samhengi. Að á tímum meirihluta vinstri manna þar í bæ hafi ríkt stöðnun. Engin uppbygging og holóttar götur. Síðan reið í hlað tími malbiks og steinsteypu. Nú er Kópavogur dæmi um bæ sem leggur litla áherslu á græn svæði og tengslin við náttúruna, ef frá er talin Fossvogsdalurinn. Þannig að sennilega gildir um þann bæ líkt og Mosfellsbæ að betur hefði farið á því að ganga fram í uppbyggingunni af meiri yfirvegun, frekar en að gróði á byggðan fermeter væri eina leiðarljós og drifkraftur.

Mosfellsbær er að mörgu leyti með allt annan bæjaranda heldur en áðurnefnd sveitarfélög. Þar býr fólk sem að vill vera í góðum tengslum við náttúruna, heilsueflingu og útivist. Þar má Sjálfstæðisflokkurinn ekki festast í sessi sem hryggjarstykkið í bæjarmálapólitík. Vissulega tókst þeim prýðilega að innleiða steinsteypukultúrinn. Haraldur Sverrisson fyrrum formaður skipulagsnefndar og núverandi bæjarstjóri taldi flokkinn hafa uppgötvað mikið undarverk, að láta landeigendur og verktaka sjá um uppbyggingu stórra svæða eins og Helgafells og Leirvogstungu. Það væri stórkostlegt að láta þá sjá um uppbyggingu skóla og annars sem vanalega var á ábyrgð sveitarfélagsins.

Hlutverk sveitarfélagsins breyttist frá því að úthluta lóðum í það að úthluta hverfum til uppbyggingar. Tónninn var gefinn með sölu á Blikastaðalandinu. En í stað þess að tempra framboð íbúðarhúsnæðis í takt við þörf var innleitt allsherjar græðgivæðing og verktakalýðræði. Drifið var í skipulagningu Helgafellshverfis og byrjað á uppbyggingu þar. Ekki nóg með það heldur var uppbygging í Leirvogstungu sem samkvæmt aðalskipulagi átti hugsanlega að koma inn upp úr 2020 líka sett af stað. Hver er eftirtekjan. Kjánaleg skella er í byggðinni milli Grafarvogs og Reykjavíkur í landi Blikastaða. Helgafellslandið er að mestu óbyggt af því að Leirvogstungu var hleypt samtímis af stað. Leirvogstungan er í pattstöðu, víða með hálfbyggð hús og grunna.

Eru samfélags- og lýðræðissinnuð öfl í Mosfellsbæ að standa fyrir einhverju uppgjöri á þessu og öðru sem misfarist hefur undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu tvö kjörtímabil? Nei. Er hægt að sjá trúverðugan valkost sem að hefur greint sig frá stefnu Sjálfstæðisflokksins. Nei. Framsóknarflokkurinn hefur klárlega verið beittasta stjórnarandstaðan, en í ljósi sögunnar þá þarf mikið að gerast til að félagshyggjufólk sameinist um þann valkost. Samfylkingin hefur tvo bæjarfulltrúa og fólk í nefndum. Erfitt er að benda á öfluga málefnavinnu þar sem fulltrúar flokksins hafa sett fram aðra sýn heldur en meirihlutinn. Þeir taka þátt í nefndarstarfi um að velja verðlaunatillögu að kirkju, en vita ekki hvort þeir vilja byggja kirkju á umræddum stað. Þeir taka þátt í fjárhagsáætlun með meirihlutanum, þannig að þar koma ekki heldur fram séráherslur. Þegar spurt er um áherslur í nefndum þá er sagt að það sé "enginn málefnalegur ágreiningur".

Vinstri grænir í Mosfellsbæ eru sérkapítuli. Þeir náðu einum fulltrúa í síðustu kosningum. Hann gekk ljúflega í sæng með íhaldinu og kokgleypti einu helsta kosningamáli sínu um að það yrði "stórslys í umhverfismálum" ef að breiðstræti væri lagt um Álafosskvos að hinu nýja Helgafellshverfi. Enginn möguleiki var að innleiða vitræna umræðu eða faglega úttekt. Þó það sé almenn viska úr skipulagsfræðum að betra sé að tengja stofnæðar í jaðri byggðar heldur en að leggja þær um miðbæ eða nálægt útivistarsvæðum. Bæjarfulltrúinn hefur síðan ekki greint sig frá Sjálfstæðisflokknum í neinu máli nema ef vera skyldi að fara í ófrægingarherferð gegn íbúa- og umhverfissamtökum í bæjarfélaginu. Nú berast þær fréttir að erfiðlega gangi að manna lista VG í Mosfellsbæ. Þar vill samfélagssinnað og umhverfisvænt fólk ekki lúta forsæti hins öfluga liðsmanns Sjálfstæðisflokksins.

Nú þarf eitthvað að gera til að vinda ofan af þessum vanda. Brýnt er að félagshyggjufólk í hvaða flokki sem þeir eru komi saman og hefji málefnavinnu. Breiðan vettvang sem setur sér það skýra markmið að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki þriðja kjörtímabilið við stjórnartaumana. Trúlega er of seint að vinna að framboði sameinaðs lista félagshyggjufólks, M-lista. Þörfin er til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnlaugur þetta er mjög góð grein hjá þér og er ég þér sammála í mörgu.

Við félagshyggjufólk verðum að láta heyra meira í okkur.

X M = ?

Sveinbjörn Ottesen (IP-tala skráð) 3.3.2010 kl. 20:29

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er óásættanleg staða að á meðan íhaldið eflist sem ljón í eigin sjálfumgleði að þá sé ekkert sem að sé líklegt til að skapa stemmingu meðal félagshyggjufólks.

Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2010 kl. 22:06

3 Smámynd: Smjerjarmur

Góð grein, eins og flest sem frá þér kemur. 

Ég verð þó að segja að ég minnist þess ekki að neinn hafi mótmælt þessari uppbyggingu þó að um síðir hafi komið í ljós að hér var alltof geyst farið.  Það voru fleiri en Mosfellingar blindaðir af þeim rassaköstum sem einkenndu tímabilið. 

Smjerjarmur, 4.3.2010 kl. 03:29

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er alveg rétt að það var ekki verið að mótmæla "góðærinu". Ég man eftir að ég talaði einmitt um það fyrir þremur árum að hið mikla byggingarmagn sem væri að koma inn á amrkaðinn væri glórulaust. Það var ekki fyrirhyggja að nýta stóran hluta af öllu aðgengilegu fé í húsbyggingar sem standa núna meira og minna tómar.

Þó að krafan um framkvæmdir hafi komið frá samtökum atvinnulífs og iðnaðarmönnum þá eru það einmitt iðnaðarmenn sem að eiga að tryggja að þetta sé í passlegu magni fyrir vinnumarkað og sölumöguleika. Það græðir enginn á því að hafa þenslu með miklum fjölda af erlendum iðnaðarmönnum sem að fara svo úr landi þegar harðnar á dalnum. Þá er betra að fara hægar og tryggja íslenska smiðnum stöðuga vinnu og ganga fram af jafnvægi.

Vona að við höfum lært af þessu og að nýr spítali, álver o.fl. losni ekki úr pípunum allt á sama tíma og innleiði nýja þenslu og eltingarleik við gullkálfa. Man eitt dæmi sem undirstrikar í huganum að maður tók svo sannarlega þátt í þenslu góðærisins. Auglýst var í blaði að BT búðin væri með kynningu á laugardagsmorgni klukkan tíu. Þeir 50 fyrstu fengju að mig minnir iPod og allæir fanta.

Eldri gaurinn minn sannfærði mig um að við yrðum að drífa okkur og missa ekki af þessu stóra tækifæri skyndigróðans. Við rifum okkur á fætur og vorum komnir vel fyrir kl tíu. En þar var þá kominn löng röð. Þar biðum við næstu 40 mínútur og fengum nóg af fanta en ekkert annað. Það eru ekki allar ferðir til fjár.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2010 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband