Stafafell á Víðidal allan

Á þessum orðum endar landamerkjalýsing Stafafells í Lóni í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641. Vatnaskil voru eðlileg viðmið út frá landnýtingu um mörk milli jarða, hreppa og sýslna. Þau mynda í aðalatriðum mörk Stafafells að vestan við Nes, norðan við Fljótsdal og austan við Álftafjörð. Þessi mörk eru einnig hreppamörk og að hluta sýslumörk. Engar heimildir eru uJokusargljufurm hver ákvað eða hvernig hreppa- og sýslumörkin urðu til, en svo er ætlast til að landeigendur Stafafells geti rakið skýra og samfellda lýsingu á mörkum jarðarinnar allt til landnáms. Í síðari vísitasíum biskupa er ítrekað og endurtekið að Safafell eigi Kollumúla og Víðidal.  Þessi hluti jarðarinnar liggur lengst frá byggð og var í haust úrskurðaður sem þjóðlenda af Hæstarétti. Rétturinn virðist ekki skilja í dómi sínum til hvers  er verið að vísa með örnefnunum tveimur. Kollumúli er fjalllendið milli Jökulsár og Víðidalsár, samanber Kollumúlaheiði sem liggur að vatnaskilum. Austurhluti Kollumúla myndar vesturhlíðar Víðidals, en eystri hluti dalsins myndast af hlíðum sem liggja að vatnaskilum við inndali Álftafjarðar og Víðidalsdrög liggja að vatnaskilum við Fljótsdal. Þessi lýsing passar við lýsingu Sveins Pálssonar úr ferðum 1792-1794, en þar segir hann að Kollumúli sé “hátt fjall fjórar mílur norður af prestsetrinu Stafafelli og gengur austasta tota jökulsins fram á múlann”. Hér er vísað til þess að Kollumúli liggi inn að jökli sem er framan við Geldingafell nálægt vatnaskilum. Í frásögn Þorvalds Thoroddsens frá 1882 segir “Víðidalur er fjalladalur upp af Lóni, milli Hofsjökuls að austan og Kollumúla að vestan. Dalurinn er alllangur 15-20 kílómetrar alls”. Hann lýsir ferð sinni og að riðið hafi verið “upp á hraunin upp af Víðidalsdrögunum efstu. Þar sem Víðidalsá fellur niður af hálsþrepinu er sameinar Hnútu og Kollumúla er í henni foss ...”. Hér er glögg lýsing á því hvernig Víðidalur og Kollumúli sameinast upp á grýttum melum sem á Austurlandi nefnast “hraun”. Jafnframt samræmast þessar lýsingar og skilningur á örnefnunum skrifum Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormsstað, sem lýsir þessu svæði og miðhálendi Íslands. 

Nákvæmari útfærsla  Upplýsing og áhersla á menntun varðaði leiðina inn í nýja öld um aldamótin nítján hundruð. Jafnframt voru sett lög um nákvæma skráningu landamerkja. Séra Bjarni Sveinsson prestur á Stafafelli skráði nákvæma lýsingu á mörkum jarðarinnar 1886, sem að er samstíga lýsingu séra Jóns Jónssonar frá 1914. Jarðamörk voru síðan samþykkt og uppáskrifuð af aðliggjandi jörðum, en að sjálfsögðu ekki að norðan og austan þar sem að ekki var hefð fyrir að fá staðfestingu jarða í öðrum sýslum. Mörk jarðarinnar falla að lýsingu á Kollumúla og Víðidal hér að ofan, vatnaskilum, hreppa og sýslumörkum. Séra Jón Jónsson var annálaður nákvæmnismaður og vandvirkur um alla skjalavörslu prestsetursins. Hann setti sig mjög vel inn í alla sögu jarðarinnar og svæðisins. Hann var tengdasonur séra Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað sem var manna fróðastur um hálendi Íslands um miðja nítjándu öldina. Með breytingum á lögum árið 1907 verður heimilt að selja kirkjujarðir. Skömmu síðar er ákveðið að leggja af prestsetur á Stafafelli. Í framhaldi sækir séra Jón Jónsson um að kaupa jörðina. Skipaðir eru matsmenn til að gæta hagsmuna ríkisins og sala Stafafells í Lóni með gögnum öllum og gæðum á 25.000 kr. er undirrituð af ráðherra árið 1913. Rétt er að taka fram að hið mikla fjalllendi jarðarinnar varð aldrei afréttur annarra en kirkjustaðarins, hjáleiga á Stafafellstorfunni og fjallabýla. Því er jörðin landfræðileg og söguleg heild. Þessa heild ber að varðveita, óháð því hver er eigandi að landinu.

                            

Seljandi og sækjandi  Árið 2001 gerir Geir H. Haarde þáverandi fjármálaráðherra eignarkröfur í mestan hluta jarðarinnar, hátt í 300 ferkílómetra. Þetta gerist tæpum hundrað árum eftir að áðurnefndur ráðherra ríkisins hafði undirritað samninginn um sölu jarðarinnar til séra Jóns. Á þessu tímabili höfðu verið gerðir margir samningar, gerð fjallskil og greiddir skattar af jörðinni þar sem tilteknir lögaðilar voru ætíð óvéfengdir eigendur landsins. Hluti af þessum samskiptum voru við ríkið, sem stjórnsýslulega viðurkenndi margsinnis einkaeignarrétt á því landi sem það hafði selt. Opinberir aðilar viðurkenndu rétt landeigenda við brúargerð, skálabyggingar, náttúruvernd, hreindýraveiðar, miðhálendisskipulag, aðalskipulag og stefnumörkun um heildaruppbyggingu jarðarinnar sem útivistarsvæðis. Í greinargerð með friðlýsingu á hluta jarðarinnar segir að friðlandið fylgi jarðamörkum Stafafells. Ljóst er að af friðlýsingu hefði ekki getað orðið nema með velvild eigenda landsins. Reyndar óttaðist einn aðili að friðlýsingin gæti falið í sér tilhneigingu ríkisins til eignaryfirtöku og var því sett ákvæði í samninginn um endurskoðun að tuttugu árum liðnum. Að þeim tíma liðnum óskuðu landeigendur eftir endurskoðun á friðlýsingunni en því miður hefur 103-0338_IMGríkið ekki staðið við friðlýsingarsamninginn frekar en sölusamninginn frá 1913. Ef ríkið hafði áhuga á að eignast landið að nýju, þá hefði verið sæmandi að óska eftir beinum viðræðum við landeigendur um möguleg kaup. Í stað þess er sótt að þessu eina formi eignarréttar í landinu af ríkisstjórn sem hefur þá opinberu stefnu að selja ríkisjarðir. Það má áætla gróflega að kostnaður ríkisins af málarekstri um eignarhald á umræddri jörð, sem það hafði áður selt, nemi yfir tuttugu milljónum. Þar er mikill kostnaður í heimildaleit, til starfsmanna óbyggðanefndar, ferðalög, vettvangsskoðanir, málflutning fyrir óbyggðanefnd, héraðsdómi og hæstarétti, þar með talin kostnaður dómara og verjenda. Eftir allan þennan málatilbúnað ríkisins kemst Hæstiréttur upp með að tala um “þrætuland” í dómi sínum. Þræturnar takmörkuðust þó algjörlega við ósvífnar kröfur ríkisins. Engin hafði nokkurn tíma áður efast um eignarrétt Stafafells á því landi sem var dæmd þjóðlenda.

Landnáma eða mannréttindi   Málavafstur ríkisins og niðurstaða Hæstaréttar eru óskiljanleg. Það sem upp úr stendur er að við ákvörðun eignarréttar á landi er viðhaldið ákveðinni tegund af þjóðrembu sem felst í því viðhorfi að æðsti sannleikur um jarðeignir liggi í frásögnum af landnámi. Því er það mikilvægara við ákvörðun eignarlands hvort og hverjir kveiktu elda eða fóru um með kvígur í taumi fyrir rúmum þúsund árum, heldur en að ríkið virði eigin samninga um sölu lands. Hæstiréttur virðist fastur í að elta skottið á sjálfum sér, sem rekja má til Geirlandsdóms og fleiri dóma. Því sitjum við uppi með dóm sem að er ekki réttlátur og langt frá því að vera rökréttur. Dregur ekki úr réttaróvissu heldur eykur hana. Stafafell skiptist nú í eignarland, friðland, þjóðlendu og einkaafrétt. Fyrir utan eignarlandshugtakið þá er staða hinna mjög óljós. Landeigendur unnu málið fyrir héraðsdómi en töpuðu því fyrir Hæstarétti. Allir áhugamenn um textagerð geta skoðað þessa tvo dóma og kannað hvorn þeir skilja betur. Flæði í rökfærslum og tengsl þeirra við niðurstöðu dómsins. Niðurstaða Hæstaréttar er; “Hvað varðar land norðan og austan Jökulsár var komist að þeirri niðurstöðu að ekki fengi stoð í eldri heimildum að það hefði verið innan landamerkja Stafafells fyrir gerð landamerkjabréfsins 1914”. Niðurstaða héraðsdóms var; “Með hliðsjón af framangreindum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum um staðhætti, Sumar04 042gróðurfar og nýtingu, telur dómurinn að árið 1913 hafi kaupandi Stafafells haft réttmæta ástæðu til að ætla að það svæði sem lýst er í landamerkjabréfinu 1914 væri fullkomin eign hans”. Ljóst er að Hæstiréttur setti vafa um landnámið sem útgangspunkt og tortryggir síðan aðra þætti málsins sem benda til beins eignarréttar. Eignarsaga Stafafells í fleiri hundruð ár og sala ríkisins er afbökuð til að bakka upp röksemdina um skort á heimildum um landnám. Jafnvel er gengið svo langt að þjófkenna séra Jón Jónsson á Stafafelli. Því er haldið fram að hann hafi útfært mörk jarðarinnar mjög frjálslega og komist þannig yfir stórt land. Þessi einstaki og óvænti skilningur á eignarsögu Stafafells byggir ekki á neinum heimildum, en gefur Hæstarétti svigrúm í niðurstöðu sinni til að dæma ríkinu ríflega helming lands (200 ferkílómetra lands) sem ríkið hafði áður selt! 

 Fyrir nokkrum dögum hófst för með þetta mál til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Sex árum eftir að ríkið kom fram með sínar ágengu kröfur, þurfa þinglýstir eigendur Stafafells að fara með málið nýja slóð í leit að réttlæti. Ljóst er að landeigendur hafa heiður að verja og allt skal gert til að hin landfræðilega og sögulega heild verði ekki sundurslitin. Jafnræðisregla hefur verið brotin við meðferð þessa máls, því margar jarðir með mun veikari sögulegar heimildir um eignarrétt hafa verið dæmdar eignarlönd. Stafafell sem kirkjustaður með sínar vísitasíur, hefur óvenju mikið af skjölum sem styðja beinan eignarrétt, ásamt samningnum um sölu ríkisins á jörðinni. Hin milda ásjóna hugtaksins ´”þjóðlenda” er einungis pólitískt útspil, réttara er að tala um “ríkislendur”. Samanber þá staðreynd að fyrir liggja tillögur um að ríkið selji Landsvirkjun hluta af þjóðlendu á suðurlandi. Það er von okkar að skilningur í Strassborg á réttindum einstaklinga snúist um eitthvað bitastæðara en frásagnir af eldstæðum og ferðum með kvígur úr íslenskum fornbókmenntum.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband