24.3.2007 | 22:47
Heilbrigðiskerfi og veikindakerfi
Það vekur nokkra athygli að engin flokkur er með nýjungar eða áherslubreytingar sem snerta almannatryggingar eða heilbrigðiskerfið. Allavega hefur það ekki fengið athygli fjölmiðla. Þessi málaflokkur er þó stærsti útgjaldaliðurinn í ríkisbúskapnum. Hef haft þá skoðun til nokkurra ára að það eigi að umbuna fólki fyrir heilbrigði og heilsueflingu, ekki síður en sjúkdóma og veikindi. Nú er kerfið hvetjandi á að fólk sanni lasleika sinn og örorku til að fá greiðslur úr opinberum sjóðum. Þannig gildir prinsip Saxa læknis að þeir séu lélegir sjúklingar, sem að er aldrei neitt almennilegt að. Þannig fær t.d. "sjúklingur" borguð lyfin sín, sem hefur nógu marga áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Til þess að tryggja greiðslu gæti dugað að byrja reykingar.
Það gæti verið æskilegt að greina í sundur stefnu og rekstur heilbrigðiskerfis og veikindakerfis til að ljóst sé hvar áherslurnar liggja. Annað kerfið byggir upp og styrkir einstaklinginn í átt að hámarks heilbrigði, jafnvægi og lífsfyllingu, en hitt bregst við þegar ójafnvægi er farið að koma niður á starfsemi. Það er þörf á nýjum hugmyndum og áherslum í heilsueflingu. Afhverju ekki að gefa skattaafslátt fyrir að ganga á Esjuna? Á Íslandi er hægt að búa til heilbrigðiskerfi sem stendur undir nafni, með áherslum á heilsueflingu. Bjóða upp á þjálfun, mælingar og leiðir sem vinna gegn margvíslegum menningarsjúkdómum. Slíkir sjúkdóimar eru lengi í þróun en veikindakerfið grípur ekki inn í atburðarásina fyrr en að insúlinið er hætt að tempra blóðsykurinn eða að kransæðin er orðin það stífluð að hjartavöðvinn lendir í súrefnisskorti.
Við höldum að þessi mál séu í góðum farvegi lækna og sérfræðinga. En það eru fáir sem að hafa heiildarsýn og auðvitað er stefnumörkun á þessu sviði hápólitísk. Ef við ætlum að setja alla milljarðana í hátæknisjúkrahús en leggjum ekki sömu rækt við að meðhöndla rót vandans, sem oft á tíðum má rekja til lífsmynsturs, þá eru áherslur með öfugum formerkjum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.3.2007 kl. 10:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.