Hangir allt á sömu spítunni?

Sennilega er frelsið, það að vera úthlutað valdinu að eiga val, stærsta gjöf Guðs. Það sem meira er að hann virðist ætla okkur að fara vel með þetta vald, þannig að afleiðingarnar af gjörðum okkar verði til góðs fyrir sál, líkama og lífríkið í heild. Á hvaða forsendum tökum við ákvarðanir? Bara af því að ég vil verða meiri í dag en í gær, þá hegg ég skóginn eða stífla lækinn. Hugsa ég eitthvað um lífsskilyrði komandi kynslóða eða hvernig mitt framlag getur haft áhrif á umhverfi og samfélag? Á Íslandi eru lífskjör þannig að við eigum alveg að geta leyft okkur að hafa hefðir, menningu, siðferði og mannlíf sem að er skemmtilegt og skapandi. Að við þorum að lifa fyrir fleira en framleiðslu á kjöti, fiski og áli. paradise

Við óttumst skortinn, en miðað við alla neysluna þá getum við sett hluta af veltunni í að bæta innviði samfélagsins. Að færa okkur frá því að meginafl þjóðarinnar og efnahagsstjórn snúist um hráfrumframleiðslu á matvælum og málmum í átt að hugviti og sköpun. Þar getum við lært af frændum vorum Finnum, sem nýttu vel markaðstækifæri og menntunarmöguleika sem opnuðust með inngöngu í Evrópusambandið. Íslendingar virðast vera fastir á einhverri "síldarvertið". Hvað tryggir okkur gjaldeyrir fram að næstu jólum? Hvaða álver þarf að vera komið í byggingu þegar hægir á framkvæmdum við Kárahnjúka?

Eiga menningarsjúkdómar heimsins og umhverfisvandamál eitthvað sameiginlegt? Má rekja ójafnvægi í mannslíkama og náttúru til sama vandans, að græðgin sé sterkara afl en kærleikurinn? Að við öxlum ekki þá ábyrgð sem okkur hefur verið úthlutuð, að lifa lífinu á gjöfulan og nærandi hátt, í stað þess að vera sjálflæg í leit að stundargróða? Í gegnum aldir var það ríkjandi viðhorf að Guð tryggði jafnvægi í náttúrunni og tilvist allra tegunda. Nú lifum við í heimi þar sem ójafnvægi vistkerfa stuðlar að örum útdauða tegunda og minnkandi líffræðilegum fjölbreytileika. Guð ætlar ekki að sjá um þetta, heldur leggur ábyrgðina hjá þér og mér, að nýta frelsið til að skapa framtíð í sátt við eðli manns og náttúru. Það er ánægjulegt verkefni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband