21.11.2007 | 22:16
Gönguferðir STAFAFELLI sumarið 2008
Strax fyrir áramót eru gönguhópar farnir að velta fyrir sér ferðum á komandi sumri. Ég fór til Færeyja í haust á VestNorden og kynnti Stafafell í Lóni sem útivistar- og verndarsvæði (Park of recreation and conservation). Svæðið vakti athygli margra sem skipuleggja ferðir til Íslands, en þó má vænta þess að það þurfi að hamra járnið og fylgja kynningu eftir á komandi ferðakaupstefnum. Þó er ljóst að ferðaskrifstofur í Kaupmannahöfn munu selja í gönguferðir tengt beinu flugi til Egilsstaða næsta sumar. En komið er þangað vikulega seinni part laugardags með Iceland Express.
Línur eru því nokkuð að skírast og verður boðið upp á fjórar fimm daga gönguferðir næsta sumar. Ferðirnar eru tvenns konar. Tilhögun annarar er að ferðaópurinn safnast saman á Hallormsstað seinni hluta dags. Síðan ekur rúta hópnum meðfram Snæfelli, yfir brú hjá Eyjabakkafossi og eftir nýjum vegi að Sauðárvatni. Þar fer hópurinn inn á hina fornu þjóðleið sem víða er vörðuð yfir og niður í Lón. Gengið er síðan milli skála og náttúruperlur Stafafells skoðaðar á leið til byggðar. Í þessari göngu næst einstaklega fagurt og fjölbreytilegt þversnið af íslenskri náttúru.
Hin útfærslan er að hópurinn hittist að morgni dags við Stafafellskirkju og leggur þaðan af stað til fjalla og gengur í nýjan skála við Eskifell. Farangur fluttur með bíl og gist þar tvær nætur og gengið út frá skála. Síðan er gengið inn með Jökulsárgljúfri í skála við Kollumúla. Farangur fluttur þangað og gist þar tvær nætur og gengið út frá skála. Á fimmta degi er hópnum ekið frá Illakambi til byggða yfir Skyndidalsá. Þessi ferð er miðuð á göngur út frá skálum og trúss á farangri, ásamt því að njóta mikillar náttúrufegurðar og merkilegrar sögu Stafafells í Lóni.
Þetta eru endurnærandi ævintýraferðir sem ég hef verið að þróa sem skipuleggjandi og leiðsögumaður. Nú þegar eru tveir hópar Íslendinga búnir að sýna áhuga og jafnframt er ég í viðræðum við stéttarfélag um gönguferðir sem hluta af orlofsmöguleikum. Það er án efa kærkomið hjá mörgum að fá tilbúin slíkan pakka með göngu og dvöl í skálum. Ekki síður en að vera úthlutað sumarhúsi og eiga þá eftir að skipuleggja hvað á að gera á svæðinu.
Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim ....
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.