Meyjanna mesta yndi

Mín bernskujól eru tengd tilhlökkun vegna jólaballsins í Fundarhúsinu, en það nefnist samkomuhús Lónmanna. Byggt 1911 og er eitt af elstu steinsteyptu húsunum á svæðinu. Það var eftirvænting að hitta á alla hina krakkana úr sveitinni í sparífötum, sjá stóra jólatréð og hitta jólasveininn, sem gaf öllum eitt epli. Það sem var þó sérstakt við þetta jólaball var að þar voru stignir sagnadansar. En hugtakið er notað yfir kvæði sem segja frásögn með viðlagi og voru sungin fyrir dansi. Kvæðin eru gjarnan um tilfinningar karla og kvenna. Þetta voru því dægurlög þess tíma. Sum þeirra eru þekkt í mismunandi útgáfum milli landa. Dansað var í Lóninu bæði parað og hringdansi fram á nótt. Það er áhugavert að sjá að orðin hafa breyst bæði í tímans rás og milli svæða. Einn vinsælasti söngdansinn var "Meyjanna mesta yndi".

Byrjunin er svona í texta úr Skagafirði;  

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar2

það er að eiga vin.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga vin.

Svo rétti ég þér höndina á mér

og tek þig blítt í armana á mér

og dansa við þig sérhvert sinn,

það saklaus skemmtun er. 

Í Árneshreppi á Ströndum er hún svona; 

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar

það er að eiga svein.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga svein.

Svo tek ég blítt í hendina á þér

 og legg hana í arminn á mér

svo dansa ég við þig sérhvert sinn,

það saklaus skemmtan er. 

Minnir að austur í Lóni hafi textinn verið svona; 

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar3

það er að eiga vin.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga vin.

Nú rétti ég þér höndina á mér

legg þig ljúft í faðminn á mér

og dansa við þig sérhvert kvöld,

það saklaus skemmtan er.

Sýnist að á þessu megi sjá að Lónmenn hafi haft djarfa og fumlausa framgöngu. Föðmuðu dömurnar en voru ekki með þær einhvers staðar upp á örmum. Langar að henda nokkrum af þessum söngdönsum inn á blogið yfir hátíðirnar. Fínt að nota það sem tilefni til upprifjunar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að þessu. Ekki man ég eftir þessu hvorki á jólaböllum á Húsavík eða í Reykjadal. En mikið var samt gaman á bernskujólaöllunum.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 09:38

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Skemmtilegt að fylgjast með breytingum á textum í mismunandi landshlutum.

Annars held ég að meyjanna mesta yndi í dag sé að eiga vín  Ætli við mundum ekki kveða það þannig á Suðurlandinu....

Hrönn Sigurðardóttir, 11.12.2007 kl. 10:40

3 identicon

Blessaður,

Skemmtilegt blogg hjá þér, þú ert duglegur að blogga. Er ekki prófatímabil núna, brjálað að gera?
 

Vala (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 21:47

4 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Gulli manstu þetta virkilega? Ég man vel eftir þessum jólaböllum en ekki söngtextunum. Steini á Reyðará var nokkuð góður jólasveinn, og alltaf trúði maður því að Sveinki kæmi niður um strompinn. Þetta voru góðir og skemmtilegar tímar.

Hallgrímur Guðmundsson, 14.12.2007 kl. 00:55

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæl Vala, jú það er mikið að gera, stafli að fara yfir. Síðan stendur maður upp og gerir eitthvað allt annað smá stund, eins og t.d. að henda inn einni færslu.

Halli, ég man ekki textana vel. Ef til vill var ég lengur að mæta á þessi böll en þú og ég rifjaði eitthvað af þessu upp með mömmu. Skafti í Hraunkoti var líka öflugur sem sveinn.

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.12.2007 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband