Áttum við val?

Mosfellsbaer Perlur

Nú, þegar komið er að áramótum, langar mig að gera samantekt um þann ágreining sem kom upp við lagningu tengibrautar úr Helgafellshverfi, um Álafosskvos að Vesturlandsvegi og verið hefur áberandi á árinu. Eftir að andstaða við áformin varð ljós svöruðu yfirvöld iðulega á þeim nótum að staðsetning tengibrautar á þessum stað væri búin að vera á aðalskipulagi frá 1983. Aðalskipulag er þó ekki annað en heildarsýn hvers tíma og opið til breytinga, en ekki eitthvað meitlað í stein. Sagt var að fyrirhuguð leið tengibrautar um Álafosskvos væri niðurstaða fjölda sérfræðinga. Þegar loks fékkst aðgengi að gögnum um hina sérfræðilegu niðurstöðu, þá var ekki til neinn samanburður eða rannsóknir.  Jafnframt var því haldið fram að ef breytt væri frá fyrirliggjandi stefnu og samningum við verktaka, þá gætu þeir átt kröfu á bæinn um háar bætur vegna vanefnda. Það var því frá upphafi eins og skipulagsferlið með öllum sínum orðum um lögvarið áhrifavald íbúa væri sýndarmennska. Það hlýtur að vera óeðlilegt að byrja á því að tryggja hagsmuni verktakans með samningum og keyra síðan skipulagsferlið með hnefanum í gegnum þá hluta þess sem lúta að innleggi og áhrifum íbúa.

Perlur_05

Með tilkomu Varmársamtakanna tók við margþætt atburðarás, þar sem bæjarstjórn brást endurtekið til varnar með því að villa um fyrir fólki og spilla heilnæmi umræðunnar. Samtökin höfðu ákveðið í ljósi þess að engin gögn voru til um faglegan samanburð að fjármagna hlutlausa úttekt á möguleikum við tengingu byggðarinnar við Vesturlandsveg. Þar sem samtökin leggja áherslu á íbúalýðræði þá var það mat stjórnar að nauðsynlegt væri fyrir okkur öll að hafa fastara land undir fótum, hverjir væru kostir og gallar hverrar leiðar. Samtökin lýstu því yfir að þau myndu sætta sig við niðurstöðu slíkrar úttektar, ef að fyrirliggjandi áform væru talin best að loknu slíku mati. Með sérstökum hætti, sem ekki verður rakið hér, tókst verktaka og bæjaryfirvöldum að hræða verkfræðistofuna frá slíkri vinnu. Þá voru góð ráð dýr til að koma með útspil sem gæti gert umræðuna faglegri. Farið var í að útfæra með aðstoð sérfræðinga annan valmöguleika. Tillagan fólst í því að tengingin væri í jaðri byggðar í stað þess að þrengja að söguminjum og útivist á Varmársvæðinu. Í ljósi þess ótta sem bæjaryfirvöld höfðu komið inn hjá fagfólki þá urðu samtökin að tryggja nafnleynd þeirra sem veittu ráðgjöf við tillögugerðina. Í ljósi þeirrar áherslu að það beri að fylgja aðalskipulagi  um lagningu þessa vegar frá hverfinu að Vesturlandsvegi, þá var eðlilegt að gera réð fyrir að haldið verði áfram með veginn samkvæmt skipulaginu og stefnumörkun Vegagerðarinnar um að tengibrautin fari í stokk undir Vesturlandsveg, yfir aðalgöngustíg bæjarins, vinsæla reiðgötu og í gegnum miðbæ Mosfellsbæjar.

Tengibraut um kvos

Þegar þessar forsendur lágu fyrir, þá snérist samanburður um leið A um miðbæ, meðfram Brúarlandi, um Álafosskvos og upp brekkuna inn í hverfið og hinsvegar leið B, að fara að mislægum gatnamótum ofan byggðar og krók inn í hverfið. Með þessu hefði unnist mikið og verðmætt land til útivistar á Varmársvæðinu, en mótrökin voru einkum að það þýddi ekki að láta fólk fara "hálfa leiðina á Þingvöll". En tenging í jaðri byggðar hefur í raun vinninginn líka á vegtæknilegum forsendum. A: Beygt af fyrirhuguðum mislægum gatnamótum við Hafravatnsveg í átt að miðbænum, keyrt meðfram Brúarlandi, ekið í stokk undir Vesturlandsvegi, um Álafosskvos, upp brekkuna fyrir ofan Kvosina og inn í Augað, það mældust 40 cm á stækkaðri loftmynd. Ekið allt á 30 km hraða vegna hljóðmengunar og slysahættu. B: Ekið yfir væntanleg gatnamót Hafravatnsvegar, yfir brú á Varmá, í mislæg gatnamót ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis og inn í Augað, það mældust 44 cm. Þarna væri ekið að meðaltali þessa vegalengd á 80 km hraða (Vesturlandsvegi 90 km/klst og 50-70 km/klst að auganu). Það munar sem sagt 10% í vegalengd, en þú ert meira en helmingi fljótari á áfangastað sem að jafnar út mun í eldsneytisnotkun. Auk þess sem 30 km/klst umferð í gegnum Kvosina og miðbæinn mun vera meira og minna stífluð um átta leytið á morgnana og spúa yfir íþrótta- og skólasvæðið.

vs_utjadar_till

Með úrskurði Skipulagsstofnunar þurfti bærinn að láta vinna skýrslu vegna umhverfismats áætlana. Í þeim lögum er kveðið á um að gera skuli samanburð á milli valkosta. Einmitt á þeim nótum sem að samtökin höfðu barist fyrir og ætluðu að fá áðurnefnda verkfræðistofu til að vinna. Þetta var því fagnaðarefni í sjálfu sér, en hyggnar konur lásu það úr stöðunni að þessu vinnuferli væri ekki treystandi. Enda reyndist ráðgjafafyrirtækið sem vann skýrsluna afskaplega húsbóndahollt. Lét veginn enda í hringtorgi á Vesturlandsvegi samkvæmt einhverjum óljósum bútasaumi, en fylgdu ekki aðalskipulaginu um áframhald tengibrautar um miðbæinn. Við meðhöndlun á tillögum Varmársamtakanna þá skrifar ráðgjafarfyrirtækið þverun Varmár við Álanes á tillögur samtakanna og kemst á þeim forsendum að því að þær hafi meiri umhverfisáhrif og gildi Varmársvæðisins til útivistar fær enga vigt. Á fundi með fyrirtækinu var ítrekað að okkar tillögur gengju eingöngu út á að mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis kæmu í stað tengibrautar um Álafosskvos, en hinsvegar væri gert ráð fyrir safngötu við Álanes á aðalskipulagi og einnig í þriðja áfanga deiliskipulags Helgafellsbygginga og svari bæjaryfirvalda. Þarna tekur fyrirtækið upp sama tón og fulltrúar bæjaryfirvalda um að nota útúrsnúning um þverun Varmár við Álanes sem forsendu í samanburði. Það er alvarlegt mál í ljósi þess að þeim hafði verið gerð grein fyrir inntaki tillagna samtakanna.

Samningur

Það sem að gerir málið enn sérstæðara er að nýlega fengu samtökin loksins afhentan samning Helgafellsbygginga og Mosfellsbæjar vegna Helgafellsbrautar. Þar er samningur um skiptingu kostnaðar til helminga, milli verktakans og Mosfellsbæjar við byggingu brúar og lagningar safnbrautar yfir Varmá við Álanes. Í tillögum sínum höfðu Varmársamtökin ákveðið að gefa eftir í baráttunni gegn þessari safnbraut við Álanes og einbeita sér að fá tengingu í jaðri byggðar í stað tengingar um Álafosskvos og meðfram Varmá. Að hugsa sér að bæjaryfirvöld og ráðgjafafyrirtækið skuli hafa leyft sér að eyðileggja vitrænan samanburð með þessum hætti og vitandi af uppáskrifuðum samningi um verkið í skúffunni. Fyrrverandi bæjarstjóri sagði Varmársamtökin vilja fara með brautina í "gegnum Reykjalundarskóg" til að ná að rugla umræðuna og forseti bæjarstjórnar kannaðist ekkert við að þetta væri á aðalskipulagi og reyndi að ná í tromp út á að bendla þessa hugmynd við Varmársamtökin. Vonandi vita bæjaryfirvöld af þessum samningi og geta viðurkennt að búið var að hnýta allt áður en deiliskipulagsvinnan fór af stað. Sennilega áttu bæjarbúar aldrei val eftir að blekið hafði þornað á samningnum við verktakann. Því hafa grimmir hagsmunir fjármagns og verktaka gefið af sér meiri hörku í samskiptum við íbúa heldur en áður hefur þekkst. Á nýju ári verður gengið frá gerð miðbæjarskipulags. Eitt af því sem ætti að vera lærdómur af ágreiningi síðasta árs er að nauðsynlegt er að hafa kynningu og hugmyndavinnu opna og lýðræðislega. Ásamt því að fara nógu snemma af stað þannig að allir aðilar séu með einhver spil á hendi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband