8.1.2008 | 01:20
Vegir liggja til allra átta
Þegar ferð hefst við tölvuna inn á víðar lendur bloggheima, þá er hugurinn oft móttækilegur á margvíslegt efni. Stundum vill maður lesa stutta, skondna og létta pistla, stundum dýpri pælingu, stundum er áhugavert að lesa persónulegar og einlægar frásagnir. Einmitt slíkir pistlar, beint frá hjartanu, hvað er að gerjast og í gangi á persónulegum nótum er ekki minn stíll. Það er einhver e.t.v. óþörf formlegheit gagnvart tölvunni og takkaborðinu, en svo er slíkt auðvelt og aðgengilegt fyrir aðra. Það getur verið virkilega skondið að lesa t.d. lýsingar hennar Hrannar Sig úr hversdagsleikanum á göngu með hundinn eða eitthvað annað að bjástra. Veit ekki hvort það er í stíl Auðar Haralds, sennilega er skáldkonan ýktari og með meiri kaldhæðni, en allavega þessi geta að búa til eitthvað stærra úr hversdagslegum atvikum. Það getur verið gaman að fara inn á síðu Einars Braga Seyðfirðings, sem hefur gert stað sem ég hélt að væri að deyja úr framsóknarmennsku og lognmollu í svalasta tánið í Austrinu. Stuttir og skondnir pistlar. Stundum er gaman að fara inn á síðu sem að oft kemur með hressilegt og óvænt sjónarhorn í umræðuna eins og hjá henni Heiðu. Stundum er gaman að fara og lesa pistla sem tengjast menningu og pólitík og maður bíst við að verða sammála í meginatriðum, þau eru líka staðsett út á landi sem gefur því aðra vídd, eins og hjá Hlyni Hallssyni á Akureyri, Ólínu Þorvarðar á Ísafirði og Baldri Kristjáns í Þorlákshöfn. Stundum er gaman að taka slaginn og fara í ljónagryfjuna og þar hefur Hjörtur J. Guðmundsson haldið úti fjörugri umræðu og oftar en ekki sjónarmiðum sem eru ekki samstíga mínum viðhorfum. Stundum er áhugavert að skoða umræður um umhverfis- og skipulagsmál eins og hjá Dofra Hermannssyni. Stundum leitar snertidepillinn uppi laugvetnska skólafélaga og þar skal fyrstan telja Bjarna Harðar, en svo er ég nýlega búin að uppgötva fleiri. Stundum er gaman að líta við hjá Mosfellingum. Rakst nýlega á síðu Ásgeirs Eiríkssonar, en hann var góður granni hinum megin við götuna í um tíu ár. Stundum er gaman að láta hugann reika í austurátt á heimaslóðir, líta við á síður sýslunga, meðal annars hjá bæjarstjóranum á Höfn, Hjalta Vignissyni, sem heldur úti heilli upplýsingaveitu um það helsta sem er á döfinni í byggðarlaginu. Í einu bloggferðalagi rakst ég á á minn æsku- og uppeldisfélaga Hallgrím Guðmundsson. Við höfum lítið sést í fjölda mörg ár og fyrstu viðbrögð þegar maður sér myndina, er þetta Halli, því ég hélt að við yrðum alltaf eins í útliti og þegar við vorum strákar í Lóninu. En hann er með mikinn áhuga á fótbolta og mikið vit á sjávarútvegi, meðan ég hef varla migið í saltan sjó og sýni blómamyndir í stað fótboltafána! Allur þessi fjölbreytileiki er af sama meiði og gerir bloggið svo áhugavert. Ef ég hef ekki nefnt þína síðu í þessari yfirferð, þá er það bara út af því að klukkan er orðin svo margt ......
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:58 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg sérstök veröld.
Hólmdís Hjartardóttir, 8.1.2008 kl. 02:17
Knús á þig strákalingur. Bíð spennt eftir að þú opnir þig á lyklaborðinu og úthellir hjarta þínu yfir alþjóð
Hrönn Sigurðardóttir, 8.1.2008 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.