17.1.2008 | 01:34
Heilsuefling ofar hátækni
Á sínum tíma var ákveðið að leggja verulegan hluta af sölu Landsímans í byggingu hátæknisjúkrahúss. Orðið sjálft er fremur kuldalegt og fáir skilja fyllilega merkingu þess. En eitt er víst að samkvæmt þeim hugmyndum sem voru á sveimi þá átti það að taka mikið landrými. Þannig að hér átti að byggja stórt sjúkrahús, sem væri vel útbúið öllum tækjum og tólum. Orðið vísar til þess líka að það verði áherslur á "viðgerðir" og bráðalækningar. Nýta nýjustu tækni í að skipta um þetta og hitt. Þó fjármagn sé til staðar, þá er alltaf spurning hvar því er best varið. Áherslur heilbrigðisgeirans hafa að mestu legið í þróun tæknilegra inngripa og lyfja. Á endanum fer fólk að fá á tilfinninguna að það sé til fyrir heilbrigðiskerfið, en ekki að kerfið miði þjónustu sína við þeirra þarfir.
Nú er búið að skipa nýja nefnd, sem ekki á að takmarka skoðun sína við hið svonefnda hátæknisjúkrahús, heldur ennig að skoða húsnæðismál og þarfir heilbrigðiskerfisins í heild. Vonandi gefst tækifæri til að meta og endurskoða áherslur í þessum málum. Lýður Árnason farandlæknir á Vestfjörðum hefur skrifað gegn þessari ofuráherslu á risabyggingu og hátækni. Það þarf að gera meira en að tala um forvarnir og heilsueflingu á tyllidögum. Það þarf að þróa heilsueflingu þannig að hún byggi á góðum rannsóknum, tækjum og tólum. Það þarf að brúa bilið milli líkamsræktar og heilsugeirans og háskólasamfélagsins. Því var það ánægjulegt að nýlega var gert samkomulag milli World Class -Laugar og Íþróttaskólans á Laugarvatni (KÍ-Íþróttaskor) um rannsóknir.
Við þurfum ekki síður að styrkja heilsueflingu, heldur en þann hluta sem bregst við sjúkdómum. Flestir kvillar sem herja á fólk hafa verið áratugi í þróun og það á ekki að þurfa að bíða eftir að einstaklingur detti niður með hjartaáfall til að kerfið bregðist við. Við þurfum að stuðla að kerfi þar sem fólk fær greitt fyrir að vera heilbrigt, stunda heilsueflingu, frekar en að binda greiðslur við sjúkdóma, það að viðkomandi sanni að hann sé veikur. Sjúkdómakerfi eins og nú tíðkast er mikið misnotað. Eina birtingarmynd þess sér maður í framhaldsskólum þar sem að er gróf misnotkun á veikindavottorðum. Verst er þó að vita af því að læknar taka iðulega þátt í þessum ósannindum með krökkunum. "Læknisvottorðið verður tilbúið í móttökunni" er ungmenninu sagt, sem hefur hringt inn og þarf að redda skólamætingunni.
Áhersla á að umbuna heilsueflingu er rétt nálgun í því að vinna gegn lífstílstengdum kvillum eða menningarsjúkdómum. Meginþungi athyglinnar á ekki að fara í leit að veikindum heldur hvað sé hægt sé að gera til að styrkja og efla hreysti. Ekki að beinast eingöngu að ástæðum þess að nemandi hefur lélega skólasókn, heldur sé áherslan á gildi þess og umbun að mæta og vera virkur. Ég hef stungið upp á því, bæði í gríni og alvöru að koma upp augnskönnum á Esjunni og fellunum í kring um Mosfellsbæ. Síðan fengju þeir frádrátt frá skatti sem tækju þátt og hvati væri til staðar að fara sem oftast. Umbunin væri t.d. hundrað krónur per hundrað metra hækkun. Það myndu allir græða, ekki síst vinnuveitendur og ríkið.
Hliðstæðar hugmyndir eru uppi um svo nefndan "hreyfiseðil" sem að væri ávísaður af lækni líkt og lyf gegn hinum ýmsu kvillum. Ég held að sú hugsun að það sé nauðsynlegt að fá uppáskrift læknis stuðli að óþarfa sjúkdómsvæðingu á hollustunni. Nóg er að það sé vel rannsakað hvaða leiðir séu að skila bestum árangri við að stykja, efla eða tryggja jafnvægi í starfsemi líkamans. Síðan sé það ríkulega umbunað af samfélaginu að sem flestir leiti eftir hreysti.
"Það er ekki mælikvarði á heilbrigði að hafa aðlagað sig vel að sjúku samfélagi"
- Jiddu Krishnamurti
Athugasemdir
Við höfum hátæknisjúkrahús í dag. Húsnæðið er löngu úr sér gengið og erfitt. Það átti aldrei að leggja niður Landakot sem sjúkrahús. Mikil mistök. Mannekla er aðalvandinn í dag. Það er búið að henda peningum í endalausar breytingar sem ekki allar hafa verið til góðs. En auðvitað á að leggja áherslu á fræðslu og forvarnir. Hver man ekki , Vímulaust Ísland; 2000. Svo gerðist ekkert nema vímuefnanotkun jókst. Ekki lagt nægilegt fé til tollgæslu eða forvarna. Í dag held ég að stærsti vandi okkar liggi í mikilli aukningu fíkniefnanotkunar. Það er líka hægt að stýra matvælaneyslu. Háir skattar af óhollustu lágir af hollustuvörum. En fræðslan þarf öll að koma snemma á skólastiginu, löngu fyrir unglingsár. En ég held að erfitt sé að lækka skatta á einstaklinga vegna góðrar heilsufarshegðunar, erfitt að fylgjast með því.
Hólmdís Hjartardóttir, 17.1.2008 kl. 02:20
Við þurfum djörfung og þor í þá átt að breyta áherslum í þá átt að almannatryggingarnar eða skattaumhverfið hvetji til heilsutengdrar hegðunar. Fyrir nokkrum árum var í fréttum sagt frá manni sem að hafði fengið synjun á þátttöku ríkisins í kostnaði hans við blóðfitulækkandi lyf.
Hann þurfti að hafa þrjá áhættuþætti til að fá stuðning tryggingana. En hann hafði bara tvo, þ.e. hátt kólesteról og ættarsögu um hjartsjúkdóm. Ef hann hefði reykt þá hefði hann talist með þrjá áhættuþætti. Á þessu sést að kerfið er sjúkdómshvetjandi, en ekki heilsuhvetjandi.
Þessu er alveg hætt að breyta. Við komumst ekki mikið lengra í sjúkdómsvæðingu og tæknihyggju. Tími allra "átaka" er liðinn, nú þarf að samþætta heilsurækt við allt okkar umhverfi. Hönnun og skipulag, fræðslu í skólakerfi, mælingar á líkamsstarfsemi í tengslum við þjálfun og heilsueflingu.
Gunnlaugur B Ólafsson, 18.1.2008 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.