15.2.2008 | 19:54
Eitur eða unaður
Sykur eða glúkósi er aðgengilegasti orkugjafinn. Blóðsykur er einn aðalþáttur efnaskipta og er einn af áhrifaþáttum um svengd. Þar að auki er næmi á sætt bragð fremst á tungunni, þannig að þegar maðurinn rekur tungu í matvæli er mikilvægt að greina þau sem hafa sætt bragð.
En Adam og Eva voru ekki lengi í Paradís. Þannig geta flestar nautnir orðið að fíkn. Unnin sykur er hrá orka án næringarefna. Því er ráðlagt að neysla hans fari ekki fram yfir 10% af heildarorku. Hinsvegar sækist hin streitutengda óreiða hversdagsins eftir sykrinum, hinum aðgengilega orkugjafa.
Margir halda því fram að sykurfíkn sé vandamál sem þurfi að bregðast við. Ein birting fíknar er að nota efni til að hafa áhrif á líðan og tilfinningar. Allir þekkja það hversu örgeðja börn eru eftir að hafa fengið sælgæti. Sykurneysla hefur einnig slík áhrif á fullorðna þó að þeir geti betur temprað viðbrögðin.
Streituhormónið kortisól innleiðir pirring og vanlíðan og það kallar einnig á sykur. Meiri sykur í bland við meiri óreiðu og spennu. Þannig getur þróast vítahringur fíknar sem að er áhrifavaldur í þróun offitu. Því er slökun og kyrrð hugans tengd því að taka eftir bragði, upplifa og njóta á meðan stress einkennist af lítilli vitund og sækni í orkurík matvæli.
Litið hefur verið til þess sem jákvæðrar breytingar á neysluvenjum barna og ungmenna að þau hafi aukið neyslu á mjólkurvörum. En var það áhugi á meira kalki eða hollum próteinum sem kallaði fram þessa auknu neyslu? Nei, hún náðist með því að breyta mjólkurvörum í sælgæti. Skyr.is eða hvað það helst heitir er með miklu magni af viðbættum sykri. Reyndar má það segja í heild um íslenska matargerð, að honum er víða laumað inn.
Nú höfum við fjölskyldan keypt okkur blandara og þar fara nú ofan í ber, ávextir, grænmeti og óunnar mjólkurvörur. Hver hágæða "smoothies" þykknidrykkur er galdraður fram. Það að prófa sig áfram með bragð og samsetningar eflir næmni og vitund. Maður nærir líkama og sál. Gerir sér eitthvað gott á skapandi hátt.
Með þessum hætti er hægt að gera kolvetnaneysluna að hollustu og unaði, í stað þess að vera óvirkur viðtakandi á matvælum með miklu innihaldi af unnum sykri, sem gefur skyndiorku en litla næringu. Það er í raun skondið að helstu "menningarstaðir" hvers hverfis í borginni skuli vera sjoppurnar. Afhverju ekki að setja upp staði sem bjóða upp á holla kolvetnaneyslu.
Athugasemdir
Gott hjá þér! Svona staði eins og þú nefnir sér maður einstaka sinnum t.d. í tengslum við járnbrautastöðvar.......Kv. B
Baldur Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 10:29
Það gleður mig innilega, að þú gerist bloggvinur minn. Þökk fyrir.
Þorkell Sigurjónsson, 16.2.2008 kl. 21:21
Takk fyrir frábæra færslu um sykur. Held líka að mikil neysla á sykri veiki ónæmiskerfi líkamans. Best er auðvitað að fá sykur sem er ekkert meðhöndlaður úr gnægtarbúri náttúrunnar. Agave sýróp er bara snilld, sem og hlynssýróp. Því miður eru þessar vörur úr hófi dýrar og hlynssýrópið sem fæst hérlendis oftast þynnt út með hvítum sykri.
Þá gætir þess misskilnings hjá fólki að púðursykur sé hollur og ruglar það oft saman hrásykri og púðursykri. Það vantar meiri fræðslu um þessi mál. Sér í lagi þá virðast margir foreldrar ekki meðvitaðir um áhrif sykurs á börn sín, eða hve mjólkurvörur sem stílaðar eru á börn eru mikið sykurdrullumall.
Birgitta Jónsdóttir, 17.2.2008 kl. 10:03
Takk sömuleiðis Birgitta. Fylgist með því sem þú ert að gera og þú ert frábær sjálf í þínum skapandi skrifum. Þó ég sé latur að gera athugasemdir.
Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.