Gamla góða Evrópa

european_union 

Evrópumálin eru ekki á dagskrá, hefur verið sameiginleg heimssýn Vinstri Grænna og Sjálfstæðismanna. Framsóknarflokkurinn hefur enga stefnu í þessum málaflokki eða að þeir fáu sem tilheyra þeim flokki fara ýmist út eða suður. Samfylkingin einn flokka hefur axlað þá ábyrgð að þetta sé mál sem komi öllum við og eigi að vera í umræðunni. Geir Haarde á hrós skilið fyrir að hafa nú brugðið undir sig betri fætinum yfir til meginlandsins, hvar hann fékk bæði höfðinglegar og hlýlegar móttökur. Í Lúxemborg var honum tjáð að Ísland myndi hafa mikil áhrif ef það gengi í sambandið. Meðal annars hefur það verið rætt að Íslendingar gætu verið kjölfestan við endurskoðun á fiskveiðistjórnarstefnunnni.

Forsætisráðherra sá ástæðu til þess í útvarpsviðtali að lýsa yfir að "öll samskipti við Evrópusambandið séu sérstaklega ánægjuleg" og því sé það ekki þess virði að taka einhliða upp Evru í óþökk þeirra. Hér kveður við allt annan tón en meðal margra flokksfélaga hans sem sjá ekkert nema svartnættið þegar rætt er um Evrópusambandið. Á endanum sér maður að þó þeir séu sumir fjölfróðir, þá hafa þeir vísvitandi sett lepp fyrir annað augað. Þeir neita að sjá þau tækifæri og kosti sem eru í stöðunni. Þetta frelsi og tækifæri sjá fólk og fyrirtæki, sem stíga hvert skrefið á eftir öðru í átt að fullri þátttöku í ESB. Því eru evrópumálin sá málaflokkur þar sem mest gerjun er þessar vikurnar.

Ætlunin var að standa í vegi fyrir því að bankarnir gerðu upp í evrum, en nú hefur verið fallið frá því að láta þá fara í gegnum fjárhagslegar þrengingar á forsendum þjóðrembu. Með nýlegum kjarasamningum gefst launafólki kostur á að fá laun sín greidd í evrum. Telja má víst að margir muni nýta sér slíkt og losna þannig út úr gengisáhættu. Fjölmargir hafa tekið myntkörfulán þar sem evra er einn af t.d. þremur gjaldmiðlum og það má telja mun meiri líkur á sveiflum í gengi krónu en evrunni. Til að draga úr slíkum sveiflum hefur það kosti að fá launin í evrum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja 54% landsmanna aðild að Evrópusambandinu. Jafnvel þó að úrtak sé ekki stórt sýna þessar niðurstöður að fleiri eru tilbúnir að skoða þessi mál út frá eigin forsendum og tækifærum. Látum ekki hræða okkur á þeirri forsendu að við munum tapa sjálfstæði eða að það sé sjálfgefið að það sé slæmt að hafa samvinnu við önnur ríki um löggjöf. Flest það sem komið hefur frá ESB hefur innleitt réttarbætur fyrir íslenskan almenning og hin mikla samvinna sem við eigum við Evrópuþjóðir hefur verið til góðs og skapað grundvöll hinnar fjárhagslegu útrásar sem flestir viðurkenna að hefur styrkt verulega íslenskt efnahagslíf.

Iðnþing 2008 er í byrjun komandi mánaðar og er undir yfirskriftinni; "Ísland og Evrópa - Mótum eigin framtíð". Það hefur lengi verið ósk iðnaðarins að íslenskt hagkerfi næði sér upp úr hinu sveiflukennda umhverfi sjávarútvegs og frumatvinnugreina. Hugsanlegt er að slíkur stöðugleiki fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin verði best tryggður með pólitísku áræði og pólitískri sókn okkar inn á lendur Evrópu. Þessi mál eru svo sannarlega á dagskrá og er það vel.

EU


mbl.is Geir: Einhliða upptaka evru gæti þýtt pólitíska erfiðleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband