Kraftur ljóss og lífs

Andoxun4

Litarefni plantna gegna mikilvægu hlutverki í fyrstu skrefum fæðukeðjunnar bæði við það að vernda vefi plöntunnar gegn óæskilegri geislun og að beisla orku sólarljóssins. Síðustu tvo áratugi hafa rannsóknir einnig sýnt hversu holl þau eru fyrir vefi mannslíkamans í hlutverki sínu sem andoxunarefni. Í stuttu máli má segja að oxun á fitusýrum eða erfðaefni geti haft í för með sér ýmis óæskileg áhrif á líkamsstarfsemina. Þannig geta skemmdir innan á æðaþeli verið fyrstu skref æðakölkunar eða stökkbreytingar á erfðaefni leitt til krabbameinsmyndunar. Geislun og hvarfgjörn efni (sindurefni) eru helstu ástæður oxunar lífrænna efna. Reykingar og mikið brasaður matur getur aukið magn sindurefna, sem meðal annars stuðla að súrefnisatóm í líkamanum verða í óstöðugu ástandi í líkamanum og hafa tilhneigingu til að hvarfast við vefi líkamans og meðal annars innleiða ótímabæra öldrun. Andoxunarefni gegna hlutverki slökkvitækja sem að slá á og draga úr þessum ferlum.

Litarefni plantna skiptast í tvo meginflokka. Annarsvegar eru fituleysanleg litarefni karotenóíðar sem finnast einkum í grænmeti, eins og papriku, tómötum og gulrótum. Það andoxunarefni sem fyrst fékk athygli og er mest rannsakað er beta-karoten en það er í miklu magni í gulrótum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á vernd og hollustu beta-karotens. Hinn meginflokkur litarefna er vatnsleysanlegur og nefnist flavóníðar og finnst einkum í litsterkum ávöxtum og berjum t.d. appelsínum, kíví, jarðaberjum og bláberjum. Þessir tveir flokkar sjá því um vernd gegn geislun og sindurefnum í mismunandi svæðum líkamans. Þau vatnsleysanlegu gegna mikilvægu hlutverki í blóði og vessum á meðan að hin fituleysanlegu gegna mikilvægara hlutverki við að vernda himnur og dýpra í vefjum. E- vítamín og C-vítamín gefa einnig vernd sem andoxunarefni í sitthvorum hlutanum, vatnsleysanlega og fituleysanlega umhverfinu. Nú hafa verið greind yfir 4000 litarefni í náttúrunni og að þó þau hafi öll það sameiginlegt að miðla krafti lífs og ljóss, þá eru þau líka breytilegur flokkur efna og hvert með sína virkni.

Í matvælaefnafræði fyrir tæpum 20 árum valdi ég að skrifa um áhrif karotenefna sem næringarefni til verndar gegn ýmsum krabbameinum. Það var áhugavert. Síðan í framhaldsáfanga í næringarfræði þá vann ég stutta samantekt með Ingu Þórs prófessor í næringarfræði um mataræði hjartasjúklinga. Þá var þetta algjörlega nýtt svið í næringarfræði og yfirleitt ekki tekið inn í ráðleggingar. Finnst gaman að hugsa til þess nú í dag þegar hollusta þessara efna er orðin viðurkennd. Það er ef til vill engin tilviljun að í dæmigerðum amerískum morgunverði með steiktu beikoni, pulsum og eggi er yfirleitt drukkinn appelsínusafi. Hið brasaða kjötmeti sem kemur af pönnunni er uppfullt af sindurefnum sem tilbúin eru til að ráðast á líkamann, ef ávaxtasafinn myndi ekki slökkva bálið. Þannig ætti reykingamaðurinn að vernda vefi sína með því að fá sér gulrætur, salatblað og ávaxtasafa eftir að hann er búin að láta reykmettað eitrið flæða ofan í lungnarásirnar. Það er áhugavert að spá í hverjar eru þarfir hvers og eins. Ráðleggingar ganga oft út á um 5 stykki af ávöxtum og grænmeti á dag. Það er líka áhugavert að hugsa um það að litarefni plantna myndast í mismiklu magni eftir því hversu geislunin (t.d. útfjólublá) er mikil inn í vistkerfið og því gæti verið æskilegt að borða fituleysanlegu litarefnin úr manns eigin umhverfi til að gefa hlutfallslega rétta vörn.

Ber


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Fróðlegt og áhugavert!

....en "Það er líka áhugavert að hugsa um það að litarefni plantna myndast í mismiklu magni eftir því hversu geislunin (t.d. útfjólublá) er mikil inn í vistkerfið og því gæti verið æskilegt að borða fituleysanlegu litarefnin úr manns eigin umhverfi til að gefa hlutfallslega rétta vörn." Þetta skildi ég ekki.

Viltu gefa mér dæmi? 

Hrönn Sigurðardóttir, 4.3.2008 kl. 11:16

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk Hrönn. Tilraunir hafa sýnt að magn karoten efna eykst ef að aukin er útfjólublá geislun á plönturnar. Útfjólublá geislun er misjafnlega mikil á mismunandi svæðum og því mismikið af litarefnum eftir legu á hnettinum. Litarefnin gefa síðan dýrunum og manninum vörn. Það sem að ég er að velta upp að styrkur þessara efna sem að fer eftir fæðukeðjunni er réttur ef að hann hefur orðið til á svæðinu.  Mbk.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

aaaaaaaaaa Þegar þú segir það þannig............

Takk

Hrönn Sigurðardóttir, 4.3.2008 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband