12.3.2008 | 15:47
Hvenær glatast meydómur?
Fjallkonan fríð er holdgerving á sjálfstæði Íslands. Þjóðerniskennd. Tilfinninga sem við kunnum öll að meta, en er sagt af andstæðingum aukinnar þátttöku Íslands í bandalagi Evrópuþjóða að geti glatast. Ásakanir um svik við föðurlandið. Upphafið tal um sjálfstæði okkar, menningu og sérstöðu.
Nú stendur yfir mat á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um óeðlilega mismunun sem innleidd hafi verið með lögum um kvótakerfi og fiskveiðistjórnun. Töpuðum við sjálfstæðinu með inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar 1946?
Frá 1949 höfum við tekið þátt í samstarfi þjóða um varnarmál undir merkjum Atlantshafsbandalagsins. Óeirðir á Austurvelli og andstaða við hersetu gekk alla tíð út á að þjóðin væri að tapa sjálfstæði. En aðalógnunin við sjálfstæðið var hliðarspor Davíðs og Halldórs að taka þátt í einleik George Bush með innrás í Írak.
Mikil andstaða var við samning um Evrópskt efnahagssvæði árið 1994 á þeim forsendum að með honum væri framselt vald og að þar með glötuðum við sjálfstæði okkar. Raunin er sú að engin andstaða hefur verið við löggjöf frá ESB, samningurinn opnað á mikil tækifæri og samstarfið við aðrar Evrópuþjóðir gengið sélega vel.
Í bestu útfærslu er virk þátttaka í Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu að tryggja heilbrigðan farveg samskipta milli þjóða og efla réttarstöðu einstaklinga. Við munum ekkert glata sjálfstæði frekar en allar aðrar þjóðir sem halda sínum siðum og menningu. Fjallkonan verður fríð sem forðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.