21.3.2008 | 11:28
Að kætast á fjósbitanum
Vinstri grænir fara mikinn í að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi. Vandi kjósenda er að vita ekki af áherslum þeirra í efnahagsmálum. Hvort flokksmenn eru fallnir frá hugmyndum um þjóðnýtingu fyrirtækjanna. Getur verið að meginkraftur fari í tilraunir til að fiska í gruggugu vatni og dvelja í vandamálum frekar en lausnum?
Í nokkurra dálksentimetra viðtali við Steingrím J. Sigfússon í einu blaðanna á dag komast fyrir orðin "skúffað", ótrúlega", "vandamál", "hrannast upp", "vonsvikið", "aðgerðaleysi", "ólíkindum", "slappa", "vandanum". Arrrg! Ég vona að Steingrímur ætli sér metnaðarfyllra hlutverk en að vera á launum hjá þjóðinni við að festast í einhverju eilífðarnöldri. Með því hefur hann innsiglað stöðu VG sem smáflokks sem er tækifærissinnaður í leit sinni að viðfangsefnum til að dæma og gagnrýna.
Steingrímur var ræðukóngur síðasta þings í mínútum talið en lítið var þar um vegvísa inn í framtíðina. Hvar eru hugmyndir formannsins til lausnar á efnahagsvandanum sem hann segir að þurfi að bregðast við? Maður fær á tilfinninguna að útgangspunktur í flokksstarfi sé að hugarástand vanlíðunar og pirrings skili sér sem fylgisaukning til vinstri grænna.
VG setjið aðra plötu á fóninn, þessi er orðin þreytt. T. d. "Allt fyrir ástina".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2008 kl. 02:27 | Facebook
Athugasemdir
Hinn reiði og bitri frontur er ekki að gera neinum gagn og ber merki sjálfseyðingarhvatar frekar en umbóta, framfara, úrlausna, uppbyggingar. Framsóknarflokkurinn má þó eiga það að hann setur sínar kröfur um aðgerðir ríkisstjórnar fram með þeim hætti að nauðsynlegt sé að flokkar sameinist um að vinna sig út úr þessari niðursveiflu.
Gunnlaugur B Ólafsson, 21.3.2008 kl. 13:34
Enn verð ég að gera aths. á síðunni þinni Gunnlaugur. Það er eins og ykkur Samfylkingarfólki sé fátt meira um megn en að virða gagnrýni frá vinstri/grænum. Hélt flokkurinn virkilega að með því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og snúa við blaðinu í mörgum mikilvægum málum í leiðinni, ætti hann bara náðuga daga framundan? Og ætti svo einkarétt á "réttum" skoðunum? Geta ekki einu sinni viðurkennt einfaldar staðreyndir, eins og til dæmis þá að VG hefur flokka einarðlegast lagt fram hugmyndir um aðgerðir í efnahagsmálum og talað um nauðsyn þeirra. Nú getur verið að um þær hugmyndir séu skiptar skoðanir, en að afgreiða þær sem reiði og biturð og sjálfseyðingarhvöt er þér Gunnlaugur bara alls ekki til sóma. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum og m.a. lagt fram frumvarp til laga í því sambandi sem allir geta kynnt sér hér. Tökum svo umræðu um efni þeirra, skiptumst á skoðunum og látum reyna á hvort ekki sé unnt að ná góðri samstöðu um aðgerðir. Okkar tillögur eru innlegg í þá umræðu.
Árni Þór Sigurðsson, 21.3.2008 kl. 14:36
Takk Árni
Hið besta mál að minna mig á að vera til sóma. Mér fannst þetta uppfullt af neikvæðum gífuryrðum sem ég las eftir Steingrími í blaðinu. En það hjálpar trúlega ekki að koma með sömu tegund á móti. Ástæðan sú að ég vil sjá að það sé verið að vinna málefnalega að samfélagslegum lausnum og þar hafa Samfylking og VG mikla möguleika á samvinnu, ef vilji er fyrir hendi. En það ber auðvitað vott um litla vaxtarmöguleika ef allt er málað jafn dökkum litum, ekkert jákvætt við landstjórnina og ég upplifði það nú þannig að það væri meira verið að gagnrýna en að benda á lausnir. Nú fer ég að lesa um stefnu ykkar og áherslur.
-Gleðilega páska-
Gunnlaugur B Ólafsson, 21.3.2008 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.