6.4.2008 | 22:13
Þríhyrningur
Síðasta sunnudag var farið upp í skarðið við Móskarshnjúka eða eins hátt og veður leyfði. Í dag var ekið til móts við sólríkt Suðurland með það að markmiði að fara í Fljótshlíðina og ganga á Þríhyrning (667 m). Byrjað var á kirkjuskoðun að Breiðabólsstað hjá sr. Önundi Björnssyni. Hann er höfðingi heim að sækja og ánægjulegt að sjá myndarskap í margvíslegum framkvæmdum á staðnum.
Keyrðum upp hjá Tumastöðum, en eftir göngu á tindinn héldum við áfram hring fram hjá Keldum á Rangárvöllum. Nokkuð stífur vindstrengur var í fjallinu en ekki snjór til vandræða. Við fengum frábært útsýni til allra átta. Út til Eyja, yfir Eyjafjallajökul, í átt að Hlöðufelli og yfir sunnlenskar sveitir. Ég var með tuttugu kílóa hlunk til að þyngja mig og auka þrekið fyrir göngu á Hvannadalshnjúk. Hann var mjög þakklátur þegar búið var að skila honum niður aftur.
Næsta fjall er Heiðarhorn í Skarðsheiði á sunnudegi eftir viku. Allir eru velkomnir að slást í hópinn. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við Krónuna í Mosfellsbæ klukkan tíu að morgni.
____________________________
Farið verður á morgun, laugardag, vegna verri veðurspár á sunnudag.
Athugasemdir
Dauðlangar með!
Sigurður Þorsteinsson, 8.4.2008 kl. 21:48
Vertu velkomin á sunnudag og þess vegna á Hnjúkinn. Held að það sé ennþá möguleiki að komast þar inní. Mbk, G.
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.4.2008 kl. 15:06
Það verður enginn svikinn af göngu á Móskarðshnjúka í góðu veðri. Ég tók letipólinn á gönguna og keyrði austanmeginn upp með hnjúkunum og gat gengið stuttu leiðina beint upp. Það er skemmst frá því að segja að útsýnið er virði hvers svitadropa sem sprettur fram, hreinlega ægifagurt, eins og að sjá allt Ísland í einni svipan.
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.