Alvöru jökladrama

Hvað er helst til ráða á jökli í snjóbyl, þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni? Þesssari spurningu stóð ég frammi fyrir ásamt fimm öðrum ferðafélögum í 1450 m hæð á Öræfajökli í gær. Engin möguleiki var að ná símasambandi og láta hina ferðafélagana, sem voru tengdir saman á þremur öðrum línum, vita að við værum stödd í miklum vanda. En þeir höfðu  því miður orðið viðskila við okkur á leiðinni niður. Við höfðum gengið upp í 1700 m hæð á leið okkar á Hvannadalshnjúk, þar af fjóra tíma í skafrenningi og nokkuð sterkum vindi. Í þeirri hæð var ákveðið að snúa við þar sem það væri fullreynt að ekki væri fært á hnjúkinn að sinni.

Á leiðinni niður þá fara þrír hópar sem tengdir eru saman hver í sína línuna af stað og fjórða línan er örlítið á eftir. Þá hrasar ferðafélagi lítillega og við þurfum að stoppa og hinar tvær línurnar halda áfram og hverfa úr augsýn. Leiðsögumaðurinn var með gps tækið í bakpokanum og treystir á að hann sé á sama niðursporinu, en eftir rúmar tíu mínútur sé ég að þriðji, fjórði og fimmti maður frá mér eru sestir niður. Skafrenningurinn er það mikill að það er lélegt skyggni og erfitt að kallast á milli. Sá sem var næstur mér segist ekki vita hvað er um að vera. Eftir nokkurra mínútna biðstöðu ákveð ég að losa mig úr línunni til að kanna aðstæður, en ég var aftastur. Hélt helst að vandamálið snérist um að einhver hefði aftur dottið.

Þegar ég kom að þriðja ferðafélga á línunni sem áður hafði hrasað sagðist hún halda að eitthvað alvarlegt hafi gerst framar. Ég færi mig áfram meðfram línunni og spyr fjórða mann, sem veit ekki hvað er í gangi, sama er með fimmta mann. Þegar komið er að sjötta manni sést hvað hefur gerst. Framundan blasir við stór sprunga sem hefur opnast þvert á stefnu okkar. Sprungan er um tíu metrar á breidd og nokkurra metra haf yfir. Sjötti félagi á línu hafði kastað sér til hliðar svo hún færi ekki ofan í sprunguna líka. Við það hafði hún farið úr réttri átaksstefnu við tog línunnar ofan í sprunguna, en hafði náð öxinni af bakpokanum og barðist hetjulega við að halda sér fastri. Ég kallaði til félagana að færa sig til vinstri svo að togið frá línunni hjálpaði henni frá því að dragast líka ofan í sprunguna.

Þegar álagið hafði dreifst jafnt á félagana ákvað ég að ganga örlítið nær sprungunni og kalla nokkrum sinnum og heyrði ekkert svar. Ekki var heldur hægt að greina neitt líf með hreyfingum á hluta línunnar sem lá upp úr sprungunni. Ákvað að vissara væri að reyna að hringja í 112 og láta þá koma skilaboðum til hinna um að snúa við. En þá var ekkert samband. Spurði aðra hvort þeir væru með síma og fékk að prufa hjá einum, en þar náðist ekki heldur samband. Nú var mannskapurinn að verða kaldur og fáir góðir kostir. Ég fór til fimmta manns í línunni og kallaði til hinna að byrja að toga. Öskraði endurtekið 1, 2 og 3! Við mjökuðumst smáspöl, aftur smáspöl og aftur smáspöl. Þegar að nálgaðist að bilið að brúninni væri jafn langt og milli okkar hinna, þá vildi ég fara örlítið í átt að brúninni og kalla til leiðsögumannsins. En sú sem næstum hafði farið ofan í sprunguna bannaði mér að fara. Ég hafði einhvers staðar heyrt að erfiðast væri fyrir þann sem fellur ofan í sprungu að komast yfir brúnina.

Við héldum áfram þunganum á línunni. Eftir smástund sáum við leiðsögumanninn koma í augsýn skríðandi á fjórum fótum. Það var mikill léttir að sjá að hann væri á lífi og með meðvitund. Þegar hann er kominn um tvo til þrjá metra frá sprungunni þá staðnæmist hann og leggur höfuðið fram á handleggina ofan á snjóínn eins og í bænastöðu. Hann dvelur svona kyrr. Annaðhvort er léttirinn svona mikill eða að eitthvað er að. Ákveð að ganga í rólegheitum í attina til hans, tek yfir öxlina á honum og spyr hvort að hann sé óslasaður. Þá segir hann; "Þið hefðuð ekki átt að draga mig upp, þið hefðuð getað klippt mig í sundur á brúninni". Einmitt það sem að ég hafði haft áhyggjur af að væri vissara að kanna, hvort hann væri komin að brúninni og myndi svara. Hann hafði náð að vagga sér eins og selur yfir skörina. Þarna var leiðsögumaðurinn óslasaður og það var aðalmálið.

Nú var okkar vandi þó ekki allur leystur. Hann varð að skilja pokann eftir ofan í sprungunni og í honum var gps tækið. Ein af félögum í hópnum var með slíkt tæki, en það var nýlega keypt og hafði ekki verið látið safna staðsetningarpunktum yfir leiðina þegar við fórum upp. Í nokkra stund ráfuðum við í skafrenningnum til að sannfærast um rétta leið. Sáum síðan smá hrygg sem að við fórum niður eftir og þá lentum við inn á slóð. Sporin sáust ósljóst í snjónum eftir þá sem farnir voru á undan. Eftir nokkur hundruð metra göngu fór vindinn að lægja eftir því sem við komum neðar og færðumst út af ísbreiðunni. Í um 700 m hæð hittum við á tvo af hinum leiðsögumönnunum sem að voru snúnir til baka. Við höfðum tafist um tvo klukkutíma í okkar ævintýri miðað við hina hópana.

Vissulega voru það vonbrigði að ná ekki að komast á Hvannadalshnjúk, en í staðinn fengum við merkilega lífsreynslu og þjálfun í því að begðast við óvæntum aðstæðum. Í lokin var aðalfögnuðurinn að allir hefðu haldið lífi og limum. Ferðalangar voru sáttir við ferðina og við erum sannfærð um að það má af þessu sitthvað læra.

Survivors

Hópurinn fagnar þegar komið var niður í betra veður og búið að hitta á hina leiðsögumennina

ÍsmaðurinnÍsdrottning

Búin að taka sólgleraugu niður og losa um trefil frá andliti. Hann var orðinn nokkurra sentimetra klakabrynja. Sibba samkennari, sem næstum var farin í sprungu, með slatta af klakahröngli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Mögnuð ferðasaga..gott að allt fór vel. Þið eruð algerar hetjur!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.4.2008 kl. 18:30

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gott að allt  fór vel

Hólmdís Hjartardóttir, 27.4.2008 kl. 18:40

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Mögnuð lýsing og gott að allt fór vel.

Ekki veit ég hvort að það hjálpar en hér er slóð á myndir sem að ég tók fyrir nokkrum dögum af jöklinum. Á einnig risastóra mynd sem ég get ekki sett á netið.

http://www.photo.is/08/04/1/index_22.html

Annars var ég að ganga á Esjuna í dag í góðu veðri, en ég er að undirbúa ferð á Öræfajökul sem verður farin 2-3 næsta mánaðar. Farnar verða 2 leiðir, Virkisjökulsleiðin og svo Sandfellsleiðin í sömu ferð.

Það er víst ekki hægt að reikna með GPS hniti af þessum slysstað.

En enn og aftur, gott að allt fór vel.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.4.2008 kl. 20:01

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gunnlaugur!! Hvað ég er fegin að allt fór vel að lokum!

Hetjur eruð þið!

Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2008 kl. 20:16

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Við sáum hnjúkinn í góðu skyggni og logni bæði á föstudagskvöldið og núna í morgun. Við vorum bara á röngu róli í veðrinu í gær.

Fjölmennur hópur frá Símanum lagði af stað á miðnætti í gærkvöldi og skilst mér að þeir séu fyrsti gönguhópurinn sem kemst alla leið þetta vorið.

Það sem meira er að þeir settu upp einhvern sendi sem ég vona að leysi að einhverju leyti sambandsleysið sem ég upplifði á þessari fjölsóttu og viðsjárverðu leið.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.4.2008 kl. 20:17

6 identicon

Sæll Gunnlaugur, þarna á myndinni ber ég kennsl á Soffíu bekkjarsystur mína frá ML og fornvinkonu.  Ég er fegin að heyra að þið sluppuð þarna með skrekkinn. Soffía á örugglega eftir að segja mergjaðar sögur af þessu.

Eyrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 20:32

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hreppameyjar, Hruna- og Gnúpverja, laugvetnskar eru magnaðar og þar er Soffía ekki undantekning.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.4.2008 kl. 20:50

8 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Mögnuð saga. Það er "Touching the Void" bragur yfir henni.

Sigurpáll Ingibergsson, 27.4.2008 kl. 21:03

9 identicon

Sæll jöklafari
Ég tel að þessi annars spennandi saga segi allt sem segja þarf um þá áhættu sem fólk tekur þegar gengið er á jökla og virk eldfjöll á Íslandi. Ég er ekki búin að gleyma þeirri sjón þegar ég sá að steinboginn yfir Ófærufoss var horfinn. Ég hafði leitt fjöldann allan af ferðamönnum yfir þennan boga án þess svo mikið sem hugleiða að hann gæti horfið í djúpið einn góðan veðurdag. Ganga bara á Esjuna og fellin okkar fögru. Hér hefur ekki gosið í nokkrar milljónir ára og ætti því að vera öllum óhætt.
Gott að heyra að ekki fór verr. Það hefði orðið af því mikill skaði að missa hinn kærleiksríka mannvin úr tölu lifenda.

Sigrún P (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 22:24

10 identicon

Sæll Guðlaugur!

Þetta hefur verið hrikaleg reynsla en gott að allt fór vel. Ég vil líka leiðrétta þetta með fyrsta gönguhópinn í vor. Það fór hópur frá Iðnskólanum í Reykjavík föstudaginn (25/4) á toppinn og við fengum stórkostlegt veður, sjá ferðalýsingu á http://labbakutar.ir.is 

Ófeigur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 22:40

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ófeigur - ég orðaði það líka þannig að mér "skildist" að Símahópurinn væri fyrsti gönguhópurinn sem færi alla leið upp þetta vorið. Sem sagt "ólyginn" sagði mér.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.4.2008 kl. 22:53

12 identicon

Öll komu þau aftur og enginn þeirra dó !.... þetta er í fyrsta skipti sem ég les blogg og upplifi að ég sé í miðri spennusögu.  Maður getur rétt ímyndað sér að þetta hafi verið erfið reynsla og sæt á sama tíma við að endurheimta leiðsögumanninn úr greipum jökulsins, það toppar hnjúkinn :)

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 09:01

13 Smámynd: Óttarr Makuch

Bara svona til gamans þá fór hópur manna frá Símanum og Sensa í könnunarleiðangur áður en farið var með stóra hópinn í gær.  Könnunarhópurinn fór þann 4 apríl síðast liðin - fengu þar frábært veður og gott skyggni

Óttarr Makuch, 28.4.2008 kl. 15:17

14 identicon

Sæll Gunnlaugur

Jeminn, þvílík lífsreynsla, gott að heyra að ekki fór verr. Ég er einmitt að fara á Hnúkinn í næsta mánuði, hópurinn minn er tvisvar búinn að fara í línuvinnu og það er eins gott að hafa hlutini á hreinu þegar maður gengur á jökla.

Þið eruð algjörar hetjur !

Dagný Blöndal (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:49

15 identicon

Það eru slatti af hópum búnir að fara á hnjúkinn snemmvors.

Jón (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 16:40

16 identicon

Vil bara benda Sigrúnu á að öll þessi fell sem hún er að ganga á hafa orðið til við eldgos. Allt Reykjanesið er virk eldstöð og telja eldfjallafræðingar okkar að geti gosið á næstu 0-500 árum einhversstaðar á Reykjanesinu. Það þarf að fara ansi langt út frá megin gosbeltunum til að finna stað sem ekki hefur gosið á í milljónir ára.

Steinþór (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 16:44

17 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta með fjölda ghönguhópa sem hafa komist á hnjúk er örugglega miðað við einhverja malbikaða meðaljóna úr henni Reykjavík. Trúi ekki öðru en t.d. Einar í Hofsnesi sé búin að fara nokkrum sinnum upp á þessu ári.

En mikið langar mig að fá það staðfest að komið sé símasamband á Öræfajökul eftir ferð Símamanna á hnjúkinn í gær. Ég prófaði örugglega 30 sinnum að hringja en alltaf "No Network Coverage".

Gunnlaugur B Ólafsson, 28.4.2008 kl. 17:03

18 identicon

Mjög góð saga og gaman að lesa þessa sögu. Ef ég hefði verð ofan í sprungunni og þið dregið mig upp, hefði ég faðmað ykkur öll. Til hamingju fyrir frábæra björgun. Pétur Ásbj.

Pétur Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 17:11

19 identicon

Sæll Steinþór
En eins og ég bendi á hefur ekki gosið hér í nokkrar milljónir ára. Jarðfræðingar telja að eldstöðvar hér um slóðir séu kulnaðar, - þó að í nokkurra kílómetra fjarlægð við Hengil megi búast við hverju sem er.
Með kveðju,

Sigrún P (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 17:51

20 identicon

Sæll Gunnlaugur

Gott að allt fór vel hjá ykkur og vonandi nærðu að toppa í næstu tilraun. Ef ég skil rétt þá varst þú sennilega í hópnum sem að lagðir á stað um svipað leiti og við. Var þarna með Flugbjörgunarsveitinni, við snérum við í ca 1400m og komum niður aftur í rjómablíðu. Færðum okkur yfir á Hnappavelli þar sem við gistum. Á sunnudagsmorgun leit veðrið og spá vel út þannig að við gerðum aðra tilraun frá Hnappavallaleið og keyrðum uppí 400m og gengum þaðan. Fengum frábært veður allan tímann sól og nánast logn alla leið uppá topp

Borghildur (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 21:41

21 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæl Borghildur

Rétt hjá þér. Þið voruð búin að græja skíðaútbúnað á bakið þegar við komum á planið. Voruð skammt á undan. Mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 28.4.2008 kl. 22:24

22 identicon

Mögnuð ferðasaga! Ætlið þið að gera aðra tilraun?

Helga Davids (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 00:39

23 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mögnuð frásögn. Ég ætla að reyna við Hnjúkinn í sumar. Hverjir bjóða upp á svona ferðir?

Theódór Norðkvist, 29.4.2008 kl. 00:52

24 identicon

Frábær frásögn og ætla ég ekki að leika "besserwisser" og segja hvað mætti fara betur það er svo óttarlega auðvelt að vera vitur eftirá og dæma aðra. Menn fara á hnjúkinn á öllum tímum árs. Í fyrra var ég að ganga á 100 hæstu toppa landsins og Hnjúkurinn var þá farin 23 febrúar, ég fór hann einnig í maí með hóp. Einar Öræfingur gekk á Hnjúkinn í fyrra í hverjum einasta mánuði ársins. Ég fer alltaf nokkrar ferðir á Hnjúkinn á hverju ári og er alltaf jafn gaman að koma þarna upp. Kveðja Þorvaldur

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 09:02

25 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er rétt að það er auðvelt að dæma og vera vitur eftir á. Aðstæður voru sérstakar og röð tilviljana sem komu af stað hraðri atburðarás. Litlir möguleikar til samskipta og slæmt veður. En þó ekki sé gengið fram af dómhörku, þá má læra töluvert af þessu. Ég persónulega lærði mikið um réttan útbúnað á jöklum og áherslur í viðbrögðum við slíkar aðstæður. Ég undrast samt að það sé ekki settur upp farsímasendir t.d. út á Skeiðarársandi sem getur stóraukið öryggi hópa sem eru á Hnjúknum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.4.2008 kl. 09:28

26 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

P.S. Aukið öryggi á Öræfajökli væri réttara því það næst samband af Hnjúknum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.4.2008 kl. 09:30

27 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Helgi. Ekkert nema ríki lærdómsins fyrst allir eru sprækir og kátir. Það er svo margt viturlegt ... ekki síst svona eftir á.

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.4.2008 kl. 13:23

28 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Það eru meira en 40 ár síðan ég gekk yfir jökul. Þar varð til saga sem verður kannski aldrei sögð. En ég á hana skrifaða mér til minnis, og undrast alltaf þegar ég les - hvernig í ósköpunum stóð á að allir lifðu af?

Það er held ég einhver sem gætir okkar. kv. 

Helga R. Einarsdóttir, 29.4.2008 kl. 21:27

29 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Gaman að heyra þessar lýsingar frá mínum nýju heimaslóðum. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 30.4.2008 kl. 07:58

30 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Helga - Ég mat það þannig að ég ætti að skrifa þetta og segja frá. Ekki síst til að glöggva mig á öllum þáttum atburðarásar. Eina sem ég var hikandi við að einhverjir leyfðu sér neikvæðni út í fyrirtækið sem skipulagði ferðina. Þar er sérlega vel vandað til verka og mikið af frábæru fólki sem ég met mikils.

Baldur - Var einmitt að hugsa um að athuga það í góða veðrinu á sunnudeginum, hvort þið væruð í Svínafelli. En svo taldi ég það ekki passa inn í plön ferðafélaga. Mbk, G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.4.2008 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband