Hefurðu gengið yfir brúna?

Eskifellsbrú

Hengibrúin við Eskifell, Stafafelli í Lóni er 95 metrar að lengd og er sennilega lengsta göngubrú landsins lögð í einu hafi. Eins og allir vita þá er fátt mikilvægara í markaðsetningu hér á landi en nota hæstu stig lýsingarorða, hverjir eru stærstir og mestir. Brúin var vígð 2004 en hugmyndina setti ég fram á skipulagsfundi sem haldin var á Hótel Höfn 1993. Með byggingu brúarinnar varð Stafafell að einu samfelldu útivistar- og verndarsvæði.

Upphaflega stóð til að undir brúnni væru þrír stöplar og átti ég nokkra fundi með Einari Hafliðasyni hjá Vegagerðinni. Síðan fór hann að spá í möguleika á byggingu hengibrúar. Í þeim tilgangi var boðað til fundar með Baldvin Einarssyni brúarverkfræðingi. Hann sagði íhugull; "Það er alveg hægt að hanna og byggja hengibrú, en svo er það spurning hvort einhver þorir að ganga yfir hana". Fannst það galli ef svo færi, en Baldvin hannaði þetta flotta mannvirki, sem að er stöðug og góð yfirferðar.

Fjármögnun úr ríkisssjóði til byggingarinnar tryggði Hjörleifur Guttormsson fyrrum ráðherra og þingmaður. Ólga var í sumum Vegagerðarmönnum sem vilja helst ekki leggja út í brúargerð nema að eftir henni rúlli gúmmídekk. Einnig voru sumir að hneykslast á kostnaði og man ég eftir að hitta á smá hóp á fjórum jeppum sem að formæltu slíkri eyðslu í göngufólk. Benti þeim á að það væri afstætt hvað væri dýrt. Brúin hafi kostað álíka mikið og jepparnir fjórir sem þeir komu á til að skoða brúnna.

Ég vona að á þessu sumri og næstu árum verði brúin mikið notuð af göngufólki. Þá þarf engin að vera í vafa um að stefnufesta okkar Hjörleifs í þessu máli hafi verið rétt. Þar átti líka Gísli Gíslason landslagsarkitekt sinn hlut, en hann hafði unnið stefnumótun fyrir jörðina í útivistar og ferðamálum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Falleg brú og fellur vel að gríðarlega fallegu landslagi, sem vart á sinn líka. En, minn kæri Gunnlaugur, "brúnna" er eignarfall fleirtölu. Þolfall orðsins brú í eintölu með greini er "brúna". Sama er raunar um blessaða ána: "áin, ána, ánni, árinnar" Þetta er orðið ansi fast í talmáli og nú orðið ritmáli fólks en á sér enga stoð. Góðar kveðjur  

Ellismellur (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 05:15

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er glæsileg brú.  Ég verð að játa að ég var svolítið smeykur þegar ég labbaði yfir hana.  Hún hreyfist. En ótti er ástæðulaus.  Er ekki rétt að banna jeppa þarna innfrá 8og kannski bara yfirleitt)?  kv. B

Baldur Kristjánsson, 13.5.2008 kl. 10:36

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þakka ábendinguna aldni smellur. Hef verið kærulaus með að nota þennan púka og er í raun ekki viss um hvernig hann virkar. Er yfirleitt á þokkalegu róli með stafsetninguna. Trúi því að þarna séu áhrif frá Mannakorni þ.s. sungið er "göngum yfir brúnnnnna !"

Baldur ég hef trú á því að með tímanum verði skilningur á því að einungis fari um svæðið þjónustu og dagbílar. En bílisminn hefur verið sterkur.  Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.5.2008 kl. 13:05

4 identicon

Ég gekk yfir þessa brú í fyrra og langar að þakka kærlega fyrir framtakið. Við áttum unaðslegan dag í göngu þarna innfrá. Takk aftur.

Elsa Þórey Eysteinsdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband